Spínat- og osta cannelloni (fyllt pastarör)

Ég fann þessa uppskrift í einhverju eldgömlu tímariti en breytti henni aðeins. Það áttu að fara 100 g af parmesan en ég setti minna þar sem mér fannst óþarfi að hafa svona mikið enda er osturinn bragðmikill. Égg bætti við smávegis af mögrum osti til að fá meiri fyllingu. Ég sleppti líka sykri og nota agavesíróp í staðinn. Rétturinn er saðsamur og mildur og hentar allri fjölskyldunni. Mér finnst þetta hinn fullkomni matur á köldum vetrarkvöldum.

Athugið að nauðsynlegt er að eiga rifjárn til að rífa sítrónubörkinn fínt og ostinn gróft.

Þessi uppskrift er:

 • Án eggja
 • Án hneta

Spínat- og osta cannelloni (fyllt pastarör)

Gerir 10 rör (fyrir 2-3)

Innihald

Sósan:

 • 1 tsk kókosolía
 • 2 hvítlauksgeirar, pressaðir eða saxaðir smátt
 • 1 stór laukur, saxaður smátt
 • 800 g plómutómatar, saxaðir (eða 2 dósir niðursoðnir plómutómatar)
 • 2 tsk steinselja 
 • 1 tsk agavesíróp
 • Salt (Himalaya eða sjávarsalt) og svartur pipar

Pastarörin (Cannelloni):

 • 8 ferskar spelt lasagna plötur. Einnig er hægt að nota þurr pastarör (cannelloni) eða þurrar lasagnaplötur en þá þarf að sjóða þær fyrst í svona 3 mínútur. Ef þið notið ekki ferskar plötur, sjóðið þær þá með 1 tsk af kókosolíu því annars er vont að ná þeim í sundur.
 • 1 hvítlauksgeiri, marinn
 • 150 g frosið, saxað spínat (afþýðið og kreistið vatnið úr)
 • 30 g parmesan, rifinn 
 • 250 g ricotta ostur
 • 100 g rifinn, magur ostur (11%)
 • 1 sítróna (börkur + safinn)
 • Salt (Himalaya eða sjávarsalt) og svartur pipar
 • 0,5 tsk múskat (enska: nutmeg)
 • 1 tsk oregano
 • Hnefafylli af fersku basil, saxað

Aðferð

Aðferð - Sósan:

 1. Hitið 1 tsk af kókosolíu í potti.
 2. Afhýðið lauk og hvítlauk og saxið smátt.
 3. Bætið lauknum og hvítlauknum út í pottinn og hitið í 5-7 mínútur eða þangað til mjúkt. Notið vatn ef þarf meiri vökva.
 4. Saxið plómutómatana og setjið út í pottinn. Hitið varlega að suðu.
 5. Bætið agavesírópinu saman við.
 6. Leyfið þessu að malla í 20-30 mínútur eða þangað til sósan þykknar (eins og þykk pastasósa).
 7. Kryddið með salti, pipar og steinselju

Aðferð - Pastarörin:

 1. Sjóðið lasagnaplöturnar eða pastarörin ef þarf, samkvæmt leiðbeiningum á umbúðum. Aðskiljið plötur eða rör og setjið til hliðar, undir rakan klút.
 2. Setjið spínatið í stóra skál ásamt ricotta ostinum. Hrærið vel.
 3. Rífið magar ostinn og parmesan ostinn.
 4. Bætið 20 g af parmesanostinum saman við og 50 g af magra ostinum.
 5. Rífið börkinn af sítrónunni og bætið út í skálina. Kreistið safann út í.
 6. Bætið næstum því öllu söxuðu basilblöðunum saman við (geymið smá klípu).
 7. Kryddið með salti, pipar, múskati og oregano. Hrærið allt vel saman.
 8. Skiptið blöndunni í 10 hluta og smyrjið á hverja plötu eða setjið í hvert rör.
 9. (Ef notaðar eru plötur, rúllið þá hverri plötu varlega upp og setjið í eldfast mót).
 10. Hellið pastasósunni yfir.
 11. Rífið svolítið basil yfir.
 12. Setjið 50 g af rifnum osti yfir sósuna.
 13. Að lokum skuluð þið setja 10 g af rifnum parmesan yfir allt saman.
 14. Hitið við 200°C í um 20-30 mínútur eða þangað til osturinn er bráðinn.

Gott að hafa í huga

 • Berið fram með góðu salati og snittubrauði.
 • Það má alveg nota einhverja holla pastasósu ef þið eruð í tímaþröng. Gætið þess bara að sé ekki sykur í sósunni, né aukaefni (eins og MSG, Monosodium Glutamete, E-600 efni), né mikil fita. Lífrænt framleiddar sósur eru bestar auðvitað. Góðar og hollar pastasósur fást yfirleitt í heilsubúðum.
 • Ef kókosolían er hörð má stinga krukkunni í heitt vatn í nokkrar mínútur þar til hún verður fljótandi.
 • Nota má aðra olíu en kókosolíu, t.d. vínberjakjarnaolíu eða repjuolíu.
 • Nota má heilhveiti lasagna plötur í staðinn fyrir spelt lasagna plötur.

Ummæli um uppskriftina

gestur
04. des. 2012

Ótrúlega góður réttur, léttur þrátt fyrir ostinn- sítrónan í fyllingunni nauðsynleg. mmmm ég á eftir að gera þennan aftur.

sigrun
04. des. 2012

Gaman að heyra. Þessi réttur er einn af þeim sem maður gleymir auðveldlega því það er engin mynd af honum :)