Speltpizza með grænmeti, heimalagaðri pizzasósu og mozzarella

Pizzur eru alltaf góðar en heimagerðar eru samt bestar því þá veit maður nákvæmlega hvað er sett ofan á og í þær. Ég þoli ekki pizzur sem fljóta í olíu enda kaupi ég aldrei nokkurn tímann pizzur frá stórum keðjum. Það er mjög fínt að vera búinn að undirbúa pizzabotninn (baka hann) áður en hafist er handa því hann tekur smá tíma í undirbúningi. Maður getur einnig flýtt fyrir sér og keypt hollari pizzasósu í heilsudeildum matvöruverslana. Margir eru hissa á því að sjá pizzu uppskrift á vefnum mínum. Það er algjör misskilningur að pizza þurfi að vera óholl því í raun er um að ræða gróft, þunnt brauð með hollri sósu og grænmetisáleggi. Pizza er nefnilega ekki það sama og pizza. Holl pizza eins og þessi hér er full af vítamínum og trefjum og er afskaplega fínn fjölskyldumatur.

Athugið að ef þið hafið ofnæmi fyrir hnetum má sleppa furuhnetunum. Ef þið hafið mjólkuróþol getið þið notað sojaost í staðinn fyrir mozzarella. Til að flýta fyrir ykkur má kaupa pizzasósu og pizzabotn úr heilsubúð. Athugið þó að tilbúnir pizzabotnar innihalda oft ger.


Fátt jafnast á við heimatilbúna pizzu

Þessi uppskrift er:

  • Án eggja
  • Án hneta

Þessa uppskrift er auðvelt að gera:

  • Án hneta
  • Án mjólkur
  • Vegan (fyrir jurtaætur)

Speltpizza með grænmeti, heimalagaðri pizzasósu og mozzarella

Fyrir 2-3

Innihald

Pizzabotn

  • 100-200 ml vatn (notið fyrst 100 ml og bætið við ef þarf)
  • 1 msk kókosolía
  • 250 g spelti
  • 1 msk vínsteinslyftiduft
  • Smá klípa salt (Himalaya eða sjávarsalt)
  • 1 tsk ítalskt krydd eða pizzakrydd (t.d. frá Pottagöldrum)

Pizzasósa (einnig má kaupa holla sósu úr heilsubúð)

  • 400 g (ein dós) tómatar, saxaðir
  • 1 msk tómatmauk (puree)
  • 2-4 hvítlauksrif, marið
  • 2 msk balsamic edik (úr heilsubúð)
  • 3 steviadropar án bragðefna eða 1 msk agavesíróp
  • Salt (Himalaya eða sjávarsalt)
  • Svartur pipar eftir smekk
  • 1 tsk ítalskt krydd/pizzukrydd (t.d. frá Pottagöldrum)
  • 0,5 tsk oregano

Álegg

  • 200 g magur ostur
  • 100 g mozzarella
  • 150 g kirsuberjatómar
  • 50 g sveppir
  • 1 búnt fersk basilblöð (um 25 g)
  • 1 msk ristaðar furuhnetur (má sleppa)
  • 6-8 capersber (má sleppa)
  • 6-8 svartar eða grænar ólífur (má sleppa)
  • Svartur pipar eftir smekk

Aðferð

Pizzabotninn:

  1. Blandið saman 100 ml af vatni og kókosolíu í stórri skál.
  2. Setjið spelti smátt og smátt út í ásamt salti, lyftidufti og kryddi og hnoðið vel saman, eða þar til deigið er orðið vel samlagað. Deigið á að vera létt og aðeins blautt en má samt ekki klessast mikið. Ef deigið er allt of þurrt bætið þá aðeins meira vatni saman við.
  3. Fletjið deigið út þunnt (gott að setja spelti á borðið til að deigið klessist minna eða nota bökunarpappír) og setjið það annað hvort í sérstakt pizzaform eða á ferkantaða ofnskúffu (með bökunarpappír undir). Líka er ágætt að leggja disk á hvolf ofan á útflatt deigið og skera utan um og búa þannig til nokkrar smærri botna.
  4. Bakið við 150°C í um 10-15 mínútur eða þangað til botninn er farinn að verpast og orðinn svolítið stökkur.
  5. Takið botninn út úr ofninum og geymið þangað allt er orðið tilbúið. Athugið að sumum finnst ekki nauðsynlegt að forbaka botninn en ef þið viljið hafa botninn frekar stökkan er gott að forbaka hann.

Pizzasósan og áleggið:

  1. Setjið í stóra skál: tómata, tómatmauk, hvítlauk, balsamic edik, steviadropa, salt, pipar, ítalskt krydd og oregano. Merjið allt saman með gaffli eða setjið smá stund í matvinnsluvél.
  2. Smyrjið sósunni vel yfir pizzabotninn.
  3. Sneiðið mozzarella ostinn og rífið magra ostinn á rifjárni.
  4. Sneiðið sveppina og ólífurnar og skerið kirsuberjatómatana í helminga.
  5. Raðið sveppasneiðum á pizzuna. Setjið því næst basilblöð, kirsuberjatómata og ost. Að lokum skuluð þið setja ólífur, capers og furuhnetur yfir.
  6. Bakið í ofni við 220°C í um 15-18 mínutur eða þar til pizzan er orðin gullinbrún og stökk og osturinn er bráðnaður.

Gott að hafa í huga

  • Leyfið pizzunni að kólna í nokkrar mínútur áður en hún er skorin. Best er að nota sérstakt pizzahjól eða stóran, beittan, hníf til að skera pizzuna í sneiðar.
  • Hægt er að kaupa holla pizzubotna í heilsubúðum. Oft innihalda þeir þó ger.
  • Gott er að nota ferskar kryddjurtir í botninn.
  • Ef kókosolían er hörð má stinga krukkunni í heitt vatn í nokkrar mínútur þar til hún verður fljótandi.
  • Nota má rauðlauk, papriku, maískorn, spínat, ruccola (klettasalat) o.fl. á pizzuna.
  • Köld pizza er upplögð í nesti en einnig má hita hana upp í ofni.
  • Pizzuna má frysta og einnig má frysta botninn eftir að hann hefur verið forbakaður.

Ummæli um uppskriftina

Sigrún G
21. júl. 2011

Sæl,
Takk fyrir frábæra síðu, ég er daglegur gestur :) Ég er að velta fyrir mér, ef maður frystir forbakaða pizzabotna, setur maður þá áleggið beint á frosinn botninn eða þarf hann að þiðna?
Kv. Sigrún

sigrun
21. júl. 2011

Takk takk nafna.

Það er vissara að láta hann þiðna fyrst því ef þú notar álegg sem er mjög 'blautt' í sér gæti botninn orðið of blautur með álegginu þegar hann þiðnar. Það er því vissara að láta hann þiðna og setja svo áleggið á, áður en þú bakar pizzuna. Eða ég myndi gera þetta þannig, kannski að það skipti engu máli hvort maður gerir :)