Spaghetti bolognese (með sojakjöti)

Mér fannst spaghetti og bollur alltaf hrikalega góður matur hérna í gamla daga (var ekki hrifin af kjöti en fann ekki svo mikið kjötbragð af bollunum). Mig langaði endilega að útbúa eitthvað sem gæti virkað sem kjötlaus útgáfa af þessum rétti, þó ekki væri nema fyrir sósuna því hún er svo góð. Held svei mér þá að það hafi heppnast. Athugið að ég kaupi brúnt sojakjötshakk í heilsubúðum í London en ef þið fáið ekki brúnt hakk getið þið keypt ljóst (sama bragð nema ekki brúnt). Ég kaupi yfirleitt lífrænt framleidda pastasósu úr heilsubúð til að flýta fyrir mér en þið getið útbúið ykkar eigin pastasósu auðvitað.


Spaghetti bolognese, með spelt spagetti og sojakjöti

Þessi uppskrift er:

 • Án mjólkur
 • Án eggja
 • Án hneta
 • Vegan

Spaghetti bolognese (með sojakjöti)

Fyrir 2-3

Innihald

 • 400-500 ml pastasósa úr heilsubúð t.d. með tómötum, basil, sveppum, lauk og hvítlauk
 • 1 bolli grófmulið sojakjöt, sem er svo látið liggja í kryddlegi (sjá fyrir neðan) í 30 mínútur. Kaupið óerfðabreytt (GM free) sojakjöt
 • Spelt spaghetti (fyrir 2-3)

Kryddlögurinn

 • 1 msk ólífuolía
 • 1 tsk blandað ítalskt krydd
 • 1 tsk oregano
 • 1 tsk rosemary (má sleppa)
 • 1 tsk svartur pipar
 • 1 stór gerlaus grænmetisteningur (t.d. frá Rapunzel)
 • Nóg af sjóðandi vatni til að þekja „hakkið" en ekki meira en það samt. Það er best að sojakjötið sé sem þurrast, þ.e. ekki mikið af aukavatni.

Aðferð

 1. Byrjið á því að sjóða vænan skammt af spaghetti eftir leiðbeiningum á umbúðum. Ég sýð um 300 gr. Þegar spaghettiið er orðið soðið, kælið það þá í nokkrar sekúndur undir köldu, rennandi vatni.
 2. Blandið kryddunum saman þ.e. svörtum pipar, rosemary, blandaða ítalska kryddinu og oregano.
 3. Setjið sojakjötið í skál ásamt grænmetisteningnum og hellið sjóðandi vatni yfir (nóg til að þekja sojakjötið).
 4. Dreifið kryddblöndunni yfir ásamt ólífuolíunni.
 5. Hrærið vel og látið sojakjötið liggja í þessari blöndu í um 30 mínútur eða lengur.
 6. Setjið sojakjötið í pott (ef einhverjar matskeiðar af vatni eru í skálinni má setja þær út í pottinn og láta gufa upp). Hitið í 10 mínútur eða þangað til allur vökvi er horfinn.
 7. Bætið pastasósunni út á pönnuna og hitið í um 5 mínútur.
 8. Ef sósan er of þunn, bætið þá tómatmauki við til að þykkja.
 9. Setjið smá hrúgu af spaghetti á diska og svo sósuna ofan á eða blandið bara öllu saman í pottinum það er líka allt í lagi.

Gott að hafa í huga

 • Í Bretlandi er hægt að kaupa brúnt sojakjöt en held það sé ekki til á Íslandi og verður þá að notast við ljóst.
 • Nota má heilhveiti spaghetti í staðinn fyrir spelt spaghetti.
 • Gera má sína eigin pastasósu úr tómötum, eggaldin, sveppum, paprikum, agavesírópi, blönduðu ítölsku kryddi, hvítlauk og lauk. Ég er þó yfirleitt að flýta mér og kaupi bara úr heilsubúð.
 • Frysta má sojahakksblönduna þegar hún er tilbúin (en best er að frysta ekki með spaghettiinu í).
 • Þessi réttur er frábær í nestisboxið, jafnt kaldur sem heitur.
 • Ef þið hafið glúteinóþol má nota hrísgrjónanúðlur eða glúteinlaust spaghetti í staðinn fyrir spelt spaghetti.
 • Gerlausir grænmetisteningar fást í heilsubúðum og stærri matvöruverslunum.
 • Ef þið eruð ekki viðkvæm fyrir geri getið þið notað venjulega, lífrænt framleidda grænmetisteninga.