Sólskinskúla
Við kaupum okkur oft svona sólskinskúlur í heilsubúðum hér í London. Þetta eru í raun bara sólblómafræ, rúsínur, hrískökur og byggmaltsíróp (enska: barley malt syrup) blandað saman í kúlu og látið harðna. Ég ákvað að búa til mína eigin og hún heppnaðist alveg ljómandi vel. Þær heppnast ekki alltaf jafn vel, stundum eru þær lausar í sér, stundum of linar. Það má segja að það sé dagamunur á þeim blessuðum. Þetta er mjög sniðugt nasl til að taka með sér t.d. í bíltúrinn eða í ferðalagið, fínt fyrir krakka að búa til og svo gæti verið skemmtilegt að gera svona kúlur og skreyta með t.d. litríkum borða og gefa sem gjöf. Aðalkosturinn samt er að kúlan gefur frábæra samsetningu af hollri fitu, vítamínum, próteinum, flóknum kolvetnum og er mjög góður kostur t.d. sem miðdegissnarl. Athugið að búa til kúlurnar minnst sólarhring áður en á að borða þær því þær þurfa að stífna aðeins.
Uppskriftin er merkt sem án hneta en inniheldur sólblómafræ sem sumir hafa ofnæmi fyrir. Mjög auðvelt er að gera þessa uppskrift glúteinlausa en þá notar maður hrísgrjónasíróp (enska: brown rice syrup) í stað byggmaltsírópsins. Bæði byggmaltsíróp og hrísgrjónasíróp fást í heilsubúðum.
Þessi uppskrift er:
- Án mjólkur
- Án eggja
- Án hneta en með fræjum
- Vegan
Þessa uppskrift er auðvelt að gera:
- Án glúteins
Sólskinskúla
Innihald
- 110 g sólblómafræ
- 120 g ljósar rúsínur (enska: sultanas)
- 6 hrískökur
- 6-8 msk byggmaltsíróp blandað saman við 3 msk af vatni
Aðferð
- Setjið sólblómafræ og rúsínur í stóra skál.
- Myljið hrískökurnar út í skálina (frekar fínt en ekki þannig að verði að dufti).
- Blandið vatni og byggmaltsírópi saman í lítilli skál. Athugið að það getur svolítinn tíma að blanda sírópinu og vatninu saman. Hellið út í skálina í mjórri bunu og hrærið í á meðan.
- Takið til litla súpuskál og klæðið hana að innan með plastfilmu. Skóflið um 5-6 kúfullum matskeiðum ofan í skálina. Losið plastið frá skálinni og mótið kúlu í höndunum. Lokið plastfilmunni mjög þétt utan um kúluna. Látið kúluna harðna í plastinu.
- Kúlurnar eru bestar á 3ja degi en geymast í viku áður en þær fara að þorna of mikið.
- Hver kúla á að vera eins og meðalstór appelsína að stærð eða um 70-90 grömm.
Gott að hafa í huga
- Hægt er að nota t.d. sesamfræ, hörfræ og alls kyns önnur fræ í kúluna.
- Þeir sem hafa glúteinóþol mega ekki borða byggafurðir og ættu því að nota hrísgrjónasíróp (enska: brown rice syrup) í staðinn fyrir byggmaltsíróp.
Ummæli um uppskriftina
21. apr. 2012
Hvar færðu hrískökur? Nú verð ég að viðurkenna að ég veit ekki alveg hvað það er.
21. apr. 2012
Þú færð hrískökur (loftkex) í öllum matvöruverslunum og heilsubúðum. Hrískökur líta svona út (það glittir í hrísköku undir túnfiskssalatinu).