Snittubrauð
8. maí, 2006
Einfalt, fljótlegt og hollt snittubrauð. Þó að snittubrauðið sé ekki eins létt og loftkennt og út úr búð þá er það auðvitað í staðinn mun hollara! Mig grunar þó að hinn venjulegi Frakki myndi skyrpa og bölva við að sjá uppskriftina. Ég nota snittubrauðið í svo margt eins og t.d. bruschetta, í grillaða tómatbrauðið og auðvitað með súpum og pottréttum. Snittubrauðið má frysta og ég geri gjarnan fleiri og styttri brauð í staðinn fyrir eitt langt. Ég segi það með sanni að ég hef hent þessu brauði saman á innan við 3 mínútum (löng saga ... redding í matarboði).
Þó ekki sé það franskt þá er snittubrauðið engu að síður gott
Þessi uppskrift er:
- Án mjólkur
- Án eggja
- Án hneta
- Vegan
Snittubrauð
Gerir eitt langt brauð
Innihald
- 150 ml sojamjólk (eða önnur mjólk)
- 1 msk sítrónusafi
- 1 msk agavesíróp (eða acacia hunang)
- 300 g spelti
- 1 tsk Himalaya eða sjávarsalt
- 3 tsk vínsteinslyftiduft
- 50-100 ml vatn
Aðferð
- Blandið saman sojamjólk og sítrónusafanum. Látið standa á borðinu þangað til mjólkin fer að mynda kekki (í um 15 mínútur).
- Bætið agavesírópinu út í hrærið vel.
- Blandið saman í stóra skál; spelti, vínsteinslyftidufti og salti. Hrærið vel.
- Hellið sojamjólkurblöndunni varlega út í stóru skálina þangað til hægt er að hnoða deigið létt. Misjafnt er hversu mikinn vökva þarf og gætið þess að deigið verði ekki of blautt. Það má ekki klístrast of mikið við fingurna.
- Bætið vatni út í deigið ef það er of þurrt en bætið við spelti ef það er of blautt.
- Hnoðið deigið létt og búið til eina lengju (eða tvær styttri) úr brauðinu (aðeins mjórra en venjulegt snittubrauð því það þenst út við bakstur). Gætið þess að séu ekki sprungur í deiginu.
- Setjið bökunarpappír á bökunarplötu og færið deigið á pappírinn.
- Bakið við 180°C í um 25-30 mínútur.
- Látið brauðið kólna í 10 mínútur. Skerið svo í sneiðar og berið fram.
Gott að hafa í huga
- Snittubrauðið er upplagt með súpum, pottréttum, baunakássum og mörgu öðru.
- Gott er að dreifa sesamfræjum yfir brauðið áður en það fer inn í ofninn.
- Í staðinn fyrir sojamjólk getið þið einnig notað haframjólk, hrísmjólk, möndlumjólk eða undanrennu.
- Ef þið notið súrmjólk, AB mjólk eða jógúrt má sleppa sítrónusafanum.
- Nota má hunang í staðinn fyrir agavesírópið.
Tengdar uppskriftir
© CafeSigrun 2024
Ummæli um uppskriftina
05. jan. 2011
Hver er munurinn á grófmöluðu spelti og fínmöluðu?
Hvort notar þú í þessa uppskrift?
05. jan. 2011
Sami munur og á grófu og fínu hveiti þ.e. grófleiki mjölsins og áferð. Ég nota grófmalað spelti í allar mínar uppskriftir nema annað sé tekið fram.
Kv.
Sigrún
22. apr. 2011
Þetta er frábært brauð, þú ert alveg að bjarga mér í 1000 skipti með að verða grænmetisæta :) og það gengur svo vel með þínum uppskriftum, takk kærlega fyrir þetta sigrún þú ert frábær :)
22. apr. 2011
Gaman að heyra :)
13. ágú. 2011
Þetta eru uppáhalds hamborgarbrauðin okkar. Ommnommnomm.
06. nóv. 2011
Ég prófaði þetta brauð, sleppti sojamjólk (átti hana ekki til) og notaði vatn í staðinn. Svo setti ég grænar ólífur í brauðið (mjög smátt saxaðar). Áður en ég setti brauðið í ofninn smurði ég smá olíu ofan á og stráði sjávarsalti ofan á - það var sjúklega gott :) Algjört nammi - frábær vefur hjá þér Sigrún!
06. nóv. 2011
Mér líst vel á þessa samsetningu hjá þér Anna Jóna, takk fyrir að deila með okkur :)
08. jan. 2013
Er hægt að baka þetta brauð sem venjulegt brauð (samlokubrauð) og er í lagi að nota heilhveiti í staðinn fyrir spelt?
08. jan. 2013
Jú það ætti að vera hægt. Ég hef reyndar notað þessa hér uppskrift reyndar þegar ég geri samlokurbrauð: http://cafesigrun.com/braud-med-ollu-mogulegu-i (þú getur sleppt fræjunum ef þú vilt). Þú getur notað heilhveiti í allar uppskriftirnar mínar ef þú kýst það en athugaðu að vökvamagnið getur verið aðeins öðruvísi en það sem gefið er upp. Prófaðu þig bara áfram og passaðu að setja ekki of mikinn vökva (alltaf betra að setja minni vökva en meiri í byrjun, það má alltaf bæta við).
08. jan. 2013
Flott takk fyrir það. En hvernig veit ég að ég sé með rétt vökvamagn ef ég nota heilhveiti?
09. jan. 2013
Byrjaðu með 100 ml af vökva og bættu svo 50 ml í einu eins og þarf. Deigið á að vera eins og í skrefi 4 í brauðuppskriftinni. Passaðu að hræra ekki mikið, bara velta deiginu til. Annars verður brauðið of hart.