Skonsur með grænu tei og rúsínum
7. febrúar, 2007
Á ferð okkur um Japan áramótin 2006-7 sáum við á fjölmörgum stöðum að verið var að selja skonsur hvers konar og oft voru þær grænleitar og var þá notað grænt te í uppskriftina. Sumar voru alveg eiturgrænar (líklega bætt í þær litarefnum) en aðrar voru mosagrænar, mun eðlilegri á litinn. Þessar skonsur er einfalt að búa til og þær innihalda engan hvítan sykur og aðeins 2 matskeiðar af kókosolíu. Þetta eru afar góðar sunnudagsskonsur, fullkomnar í bíltúrinn eða lautarferðina. Grænt te eins og flestir vita inniheldur mikið af andoxunarefnum og er því afar hollt. Það er þó ekki koffeinlaust eins og margir halda svo gætið að ykkur ef þið eruð eins og ég (afar viðkvæm fyrir koffeini!).
Skonsur undir japönskum áhrifum
Þessi uppskrift er:
- Án mjólkur
- Án eggja
- Án hneta
- Vegan
Skonsur með grænu tei og rúsínum
Gerir um 20 skonsur
Innihald
- 300 ml heitt, grænt te (sem samsvarar 2 tepokum)
- 200 g rúsínur
- 460 g spelti
- 1,5 msk vínsteinslyftiduft
- 2 msk agavesíróp
- 2 msk kókosolía
- 100 ml hrein sojajógúrt (eða venjuleg jógúrt)
Aðferð
- Sjóðið 300 ml af vatni og látið tepokana eða laufin liggja í um 5 mínútur.
- Setjið rúsínur í hitaþolna skál og hellið heita teinu yfir. Setjið lok yfir og leyfið rúsínunum að standa í um 20 mínútur.
- Sigtið saman í stóra skál spelti og lyftiduft. Hrærið vel.
- Mýkjið kókosolíuna aðeins með því að dýfa krukkunni í heitt vatn (ekki samt þannig að hún verði fljótandi) og myljið út í stóru skálina. Hnoðið lauslega.
- Hellið vatninu frá rúsínunum og setjið út í stóru skálina ásamt agavesírópinu.
- Blandið jógúrtinni saman við svo úr verði mjúkt, svolítið klístrað deig.
- Stráið spelti á borð og hnoðið deigið þangað til það er orðið mjúkt.
- Þrýstið deiginu niður þangað til það er orðið 2 sm að þykkt (þarf ekkert að nota kökukefli, skonsurnar mega vera svolítið ójafnar).
- Notið glas (eða kökuskurðarmót) sem er um 5,5 sm í þvermál og skerið út kringlóttar kökur úr deiginu.
- Setjið bökunarpappír á frekar stóra bökunarplötu og raðið skonsunum á plötuna.
- Bakið við 200°C í 20-25 mínútur.
Gott að hafa í huga
- Einnig má setja saxaðar döðlur í uppskriftina á móti rúsínunum.
- Nota venjulega jógúrt eða AB mjólk í staðinn fyrir sojajógúrt.
Tengdar uppskriftir
© CafeSigrun 2024