Sjávarréttasúpa

Þessi súpa er sérlega seðjandi en samt létt í maga. Hún er upplögð á köldum vetrardegi þegar maður þarf fullt af vítamínum í kroppinn og er kannski kalt. Hún er enn betri á degi tvö þegar maður hitar hana upp aftur. Súpan hentar vel fyrir þá sem hafa glúteinóþol. Súpuna má gera sparilega noti maður humar eða skötusel. Auðvelt er að gera súpuna mjólkurlausa með því að nota óáfengt hvítvín í staðinn fyrir mysu.


Ómótstæðileg og holl sjávarréttarsúpa

Þessi uppskrift er:

  • Án glúteins
  • Án eggja
  • Án hneta

Þessa uppskrift er auðvelt að gera:

  • Án mjólkur

Sjávarréttasúpa

Fyrir 4-5

Innihald

  • 1 laukur, saxaður smátt
  • 2 hvítlauksrif, söxuð smátt
  • 1 gulrót, sneidd þunnt
  • 1 tsk kókosolía
  • 1 tsk oregano
  • 1 tsk basil
  • 2 tsk sítrónupipar
  • 1 tsk svartur pipar
  • 0,5 tsk karrí
  • 0,25 tsk fish masala krydd (má sleppa)
  • 400 g saxaðir tómatar (ferskir eða úr dós)
  • 400 ml humarsúpugrunnur (án sykurs og aukaefna)
  • 500 ml vatn
  • 2 gerlausir grænmetisteningar
  • 150 ml mysa (eða óáfengt hvítvín)
  • 350 g ýsa (eða annar hvítur fiskur), skorin í litla bita
  • 400 g blandaðir sjávarréttir (t.d. hörpuskel, humar, smokkfiskur, rækjur)
  • 150 ml kókosmjólk

Aðferð

  1. Afhýðið lauk og hvítlauk og saxið smátt.
  2. Skrælið gulrót og sneiðið hana þunnt.
  3. Hitið kókosolíu í stórum potti. Steikið laukinn og hvítlaukinn. Notið vatn ef vantar meiri vökva.
  4. Bætið gulrótinni út í ásamt kryddum (oregano, basil, sítrónupipar, svartur pipar, karrí og fish masala).
  5. Bætið vatni, humarsúpugrunni, tómötum og mysu út í pottinn ásamt grænmetiseningunum.
  6. Hækkið hitann og leyfið súpunni að malla í nokkrar mínútur.
  7. Bætið fiskinum út í þegar suðan kemur upp og leyfið að sjóða í um 8 mínútur.
  8. Bætið kókosmjólkinni út í ásamt blönduðu sjávarréttunum og hitið 2-4 mínútur (gætið þess að ofsjóða ekki).

Gott að hafa í huga

  • Berið súpuna fram með snittubrauði.
  • Ef það verður smá afgangur af súpunni, þá er upplagt að nota hana sem pastasósu daginn eftir!! Þykkið súpuna með 2 tsk af maísmjöli leyst upp í 2 tsk af vatni. Sjóðið pasta og blandið saman við sósuna.
  • Ef kókosolían er hörð má stinga krukkunni í heitt vatn í nokkrar mínútur þar til hún verður fljótandi.
  • Gerlausir grænmetisteningar fást í heilsubúðum og stærri matvöruverslunum.
  • Ef þið eruð ekki viðkvæm fyrir geri getið þið notað venjulega, lífrænt framleidda grænmetisteninga.
  • Nota má matreiðslurjóma í staðinn fyrir kókosmjólk en athugið að hann er ekki mjólkurlaus.

Ummæli um uppskriftina

gestur
03. des. 2014

Má nota annað karrýkrydd en fishmasala ?

sigrun
03. des. 2014

Já það er nú líklega í lagi, prufaðu þig bara áfram með lítið magn í einu.