Sesamtoppar

Þessir eru hættulega góðir, svo góðir að mann langar ekkert að hætta að borða þá. Þeir eru auðvitað hollir með mikið af hnetum og fræjum og þess háttar en þeir eru hitaeiningaríkir líka svo maður ætti nú ekki að raða þeim í sig (þó að sé erfitt að gera annað!). Upplagðir með kaffinu, sem orkumikið nesti í lautarferðina eða bara til að fá sér oft, oft, oft.


Syndsamlega góðir sesamtoppar með hlynsírópi

Þessi uppskrift er:

  • Án glúteins
  • Án mjólkur
  • Án eggja
  • Vegan

Sesamtoppar

Gerir um 25-30 bita

Innihald

  • 50 g pecanhnetur, saxaðar
  • 80 g dökkt, lífrænt framleitt súkkulaði (með hrásykri), saxað smátt
  • 80 g möndluflögur
  • 200 g sesamfræ
  • 135 g sólblómafræ
  • 85 g kúrenur eða litlar rúsínur
  • 25 g graskersfræ (má sleppa)
  • 50 g kókosmjöl
  • 100 ml hreint hlynsíróp (enska: maple syrup)

Aðferð

  1. Saxið pecanhnetur og súkkulaði smátt. Setjið í stóra skál.
  2. Bætið möndluflögum, sesamfræjum, sólblómafræjum, rúsínum, graskersfræjum og kókosmjöli saman við og hrærið vel.
  3. Bætið hlynsírópinu út í og hrærið varlega en þannig að allt blandist vel saman.
  4. Setjið bökunarpappír á bökunarplötu.
  5. Blandan verður MJÖG laus í sér. Það sem þarf að gera er að gera hrúgur af sesamblöndunni með teskeið (um 2 tsk fyrir hverja smáköku). Hrúgurnar munu leka svolítið til hliðanna en þá er bara að stafla þeim aðeins betur. Ímyndið ykkur bara að þið séuð að búa til litlar íslenskar vörður :)
  6. Hitið ofninn í 80°C og bakið í 20 mínútur.
  7. Lækkið hitann á ofninum í 50°C og bakið áfram í 20 mínútur.
  8. Látið kökurnar kólna í ofninum 10 mínútur og takið þær svo út.
  9. Af því að kökurnar eru enn þá mjúkar á þessu stigi er gott að móta þær aðeins betur þ.e. ýtið hverri hrúgu betur saman með fingrunum (þ.e. svo þær haldist betur saman og verði að fallegri hrúgum).
  10. Ef kökurnar eru mjög lausar og mjúkar eftir að hafa kólnað í 20 mínútur skuluð þið baka þær í 10 mínútur í viðbót.
  11. Þegar kökurnar hafa kólnað, setjið þær mjög varlega í box, í einni röð þ.e. ekki stafla þeim.

Gott að hafa í huga

  • Nota má önnur fræ, aðrar hnetur og aðra þurrkaða ávexti og mætti t.d. nota döðlur, svört sesamfræ, valhnetur, cashewhnetur, fíkjur, aprikósur, heslihnetur o.fl.
  • Það er einfalt að búa til flap jack (orkubita) úr þessarri uppskrift. Notið lítið (um 25 sm), ferkantað form og þrýstið blöndunni ofan í. Bakið um 10 mínútur lengur en sesamtoppana. Takið úr forminu, látið kólna í 10 mínútur og skerið varlega í bita.
  • Ég hef prófað agavesíróp í staðinn fyrir hlynsíróp en mér finnst það ekki henta vel í þessa uppskrift.
  • Nota má carob í stað súkkulaðis og kakós. Carob hentar þeim sem eru viðkvæmir fyrir örvandi efnum kakósins og hentar því börnum vel. Carob fæst í heilsubúðum og heilsuhillum matvöruverslana. Það fæst bæði sem duft (eins og kakó) og í plötum (eins og súkkulaði).

Ummæli um uppskriftina

JóhannaSH
16. des. 2012

Ég prófaði þessa í gær og ég get vottað að þeir eru hættulega góðir! :-)

sigrun
16. des. 2012

Tí hí, til þess er leikurinn gerður :)