Salat sem passar með ýmsum mat

Þetta salat er hægt að nota við ýmis tækifæri og með ýmsum mat enda létt að búa til og afskaplega litríkt og fallegt. Fullt af vítamínum!

Þessi uppskrift er:

  • Án glúteins
  • Án mjólkur
  • Án eggja
  • Vegan

Salat sem passar með ýmsum mat

Sem meðlæti fyrir 2-3

Innihald

  • Einn poki blandað salat t.d. Lambhagasalat, klettasalat, eikarlauf o.fl.
  • Hálf gul paprika, skorin í teninga
  • Hálf rauð eða appelsínugul paprika, skorin í teninga
  • 5-7 sólþurrkaðir tómatar (án olíu), skornir í strimla
  • 3 msk furuhnetur, þurrristaðar á pönnu
  • 2 msk sólblómafræ, þurrristuð á pönnu
  • 5-7 kirsuberjatómatar, skornir í helminga
  • 1 vel þroskað avocado, skorið í teninga (skerið það seinast og sprautið smá sítrónusafa yfir teningana svo þeir verði ekki brúnir)

Aðferð

  1. Skerið paprikurnar í tvennt  langsum og fræhreinsið. Skerið svo í teninga.
  2. Skerið sólþurrkuðu tómatana í mjóa strimla.
  3. Skerið kirsuberjatómatana í helminga.
  4. Þurrristið furuhnetur og sólblómafræ á heitri pönnu (án olíu) í 3-5 mínútur. Kælið í nokkrar mínútur.
  5. Afhýðið avocadoið, fjarlægið steininn og skerið í teninga.
  6. Blandið öllu varlega saman (til að kremja ekki avocadoið og tómatana), kælið og berið fram.

Gott að hafa í huga

  • Það er að sjálfsögðu hægt að nota hvað sem er í svona salöt t.d. ef þið hafið ofnæmi fyrir fræjum og hnetum þá má mylja kartöfluflögur í hollari kantinum í staðinn, yfir salatið (fást í heilsubúðum).
  • Svo má líka nota baunaspírur, eða skera niður appelsínur, döðlur, gráfíkjur og svo framvegis. Einnig er gott að bæta við baunum eins og kjúklingabaunum eða smjörbaunum.
  • Salatið er afbragðsgott í nestisboxið.
  • Ef þið finnið aðeins sólþurrkaða tómata í olíu má annað hvort þerra olíuna með eldhúsþurrku en einnig hef ég notað þessa aðferð: Setjið sólþurrkuðu tómatana í sigti og hellið sjóðandi heitu vatni yfir þá (um 500 ml eða svo).