Rúsínuklattar

Þetta eru nú eiginlega þykkar pönnsur með rúsínum og jógúrti/súrmjólk. Hér má líka nota kaldan hafragraut í deigið. Hollir og góðir klattar upplagðir með sultu eða hlynsírópi og smá sojarjóma (eða venjulegum). Einnig eru klattarnir fínasti árdegisverður (brunch) á sunnudegi.


Rúsínuklattar. Ljótir en góðir

Þessi uppskrift er:

  • Án hneta

Þessa uppskrift er auðvelt að gera:

  • Án mjólkur

Rúsínuklattar

Gerir um 10-12 klatta

Innihald

  • 300 g spelti
  • 2 tsk vínsteinslyftiduft
  • 2 egg
  • 1 tsk vanilludropar
  • 300 ml AB mjólk
  • 100-200 ml sojamjólk eða léttmjólk
  • 50 ml koffeinlaust kaffi (eða venjulegt), má sleppa
  • 1 tsk kókosolía
  • 120 g rúsínur

Aðferð

  1. Sigtið saman í stóra skál spelti og vínsteinslyftiduft. Hrærið vel
  2. Í annarri skál skuluð þið blanda saman: eggjum, vanilludropum, súrmjólk, 100 ml sojamjólk, kaffi og kókosolíu. Hrærið vel og hellið út í stóru skálina.
  3. Blandið öllu vel saman (án þess að hræra of mikið). Bætið rúsínunum varlega út í skálina og hrærið nokkrum sinnum.
  4. Deigið á að vera nokkuð þykkt þannig að það dropi í kekkjum af sleif (aðeins þykkara en vöffludeig). Ef deigið er of stíft eða þykkt, bætið þá meira af mjólkinni út í.
  5. Hitið pönnukökupönnuna í hæsta og lækkið svo niður í miðlungshita (pannan má ekki vera of heit og ekki of köld).
  6. Berið kókosolíu með eldhúsþurrku á pönnuna, örþunnt.
  7. Setjið tæplega hálfa ausu (fer eftir stærð ausunnar) af deigi á pönnuna og dreifið aðeins með skeið þannig að klattinn verði ekki of þykkur.
  8. Endurtakið með afganginn af deiginu, ef það er of þykkt má bæta meira kaffi eða mjólk út í.

Gott að hafa í huga

  • Berið fram með sojarjóma (eða þeyttum, venjulegum rjóma ef þið kjósið það), hlynsírópi eða agavesírópi, rapadura hrásykri, sultu án viðbætts sykurs, osti, hnetusmjöri eða því sem ykkur þykir gott.
  • Nota má döðlur, bláber eða önnur ber í staðinn fyrir rúsínur.
  • Það er upplagt að frysta klattana og hita upp síðar (t.d. í brauðrist).
  • Nota má súrmjólk eða jógúrt í staðinn fyrir AB mjólk. Einnig má nota sojajógúrt (og 1 msk sítrónusafa að auki) ef þið hafið mjólkuróþol.
  • Nota má undanrennu, hrísmjólk, haframjólk eða möndlumjólk í staðinn fyrir sojamjólk.
  • Ef kókosolían er hörð má stinga krukkunni í heitt vatn í nokkrar mínútur þar til hún verður fljótandi.
     

Ummæli um uppskriftina

gestur
06. ágú. 2015

Sæl. Hvernig myndirðu útfæra þessa uppskrift með köldum hafragraut. Kv. ein sem er algjör nýgræðingur í eldhúsinu.

sigrun
06. ágú. 2015

Sæl. Þá myndi ég nota cirka 600 g hafragraut og bæta við vínsteinslyftidufti, eggi, vanilludropum, kókosolíu og rúsínum. Ekki bæta við kaffi, sojamjólk né AB mjólk nema það þurfi meiri vökva. Deigið á að vera eins og þykkur hafragrautur en þú þarft að stilla það kannski af af því hafragrauturinn getur verið svo mismunandi (eftir því hvort að er mjólk eða vatn í honum, hversu blautur hann er og svoleiðis). Ef þú hefur prófað að baka vöfflur þá er gott að miða við að deigið þegar það er tilbúið sé eins og aðeins þykkara en vöffludeig. Vona að þetta hjálpi. Kv. Sigrún