Rauðrófudetoxdrykkur

Ég fann þessa uppskrift aftan á umbúðum drykkjar sem ég keypti frá Innocent hér í London en sá var einmitt detox drykkur. Fyrirtækið Innocent er eitt af mínum uppáhalds eða stefna þeirra öllu heldur því þ.e. þeir framleiða aðallega drykki og djúsa og eru umhverfisvænir, nota aðeins 100% lífrænt framleitt og ræktað hráefni, skipta ekki við framleiðendur sem eru siðferðilega ekki í lagi (t.d. þá sem nota börn í þrælavinnu, láta fólk vinna á eitruðum ökrum o.s.frv.) svo ég kaupi vörur frá þeim með glöðu geði

Þessi drykkur er svo sannarlega hollur því hann er pakkfullur af vítamínum. Rauðrófur innihalda náttúrulega litarefnið betacyanin sem á að hjálpa til við að sporna gegn krabbameini (sérstaklega ristilkrabbameini) og hjartasjúkdómum. Einnig innihalda þær B vítamínið fólin sem er gott fyrir ófrískar konur að neyta því það hjálpar til við eðlilegan þroska fósturs. Þennan safa má gera í safapressu en einnig má kaupa alla safana í drykkinn tilbúna og hræra saman ef maður á ekki safapressu. Rauðrófusafa má yfirleitt finna í heilsuvörubúðum.

Þessi uppskrift er:

  • Án glúteins
  • Án mjólkur
  • Án eggja
  • Án hneta
  • Vegan
  • Hráfæði

Rauðrófudetoxdrykkur

Fyrir 2

Innihald

  • 2 sæt epli eða 200 ml eplasafi
  • 1 vel þroskuð pera
  • Hálfur banani, vel þroskaður
  • 50 ml hreinn appelsínusafi
  • 40 g rauðrófa eða 20 ml rauðrófusafi (e. betroot juice)
  • 1 sm bútur af fersku engiferi

Aðferð

  1. Ef notuð er safapressa: Þvoið eplið og peruna og skerið í bita. Setjið allt nema appelsínusafann og bananann í safapressuna.
  2. Setjið safann ásamt appelsínusafanum og banananum í blandara og blandið vel.
  3. Ef notaður er blandari eingöngu: Skerið peruna og bananann í bita og setjið í blandara ásamt appelsínusafanum. Maukið þangað til silkimjúkt. Setjið allt annað saman við og blandið vel.
  4. Berið fram strax.

Gott að hafa í huga

  • Nota má ananassafa í staðinn fyrir epli/eplasafa