Raita gúrkusósa

Þetta er sósa sem er oft notuð með indverskum mat því hún „kælir" munninn ef maður er að borða eitthvað sterkt. Þetta er líka fín ídýfa fyrir alls kyns niðurskorið grænmeti. Einnig hef ég oft notað raita gúrkusósu með borgurum, buffum og ýmsum öðrum grænmetismat. Sósan hentar líka sérlega vel með grilluðum mat t.d. fiski sem og á bakaðar kartöflur.

Þessi uppskrift er:

  • Án glúteins
  • Án eggja
  • Án hneta

Þessa uppskrift er auðvelt að gera:

  • Vegan (fyrir jurtaætur)

Raita gúrkusósa

Fyrir 3-4 sem meðlæti

Innihald

  • 1 meðalstór gúrka
  • 1 tsk cumin fræ (ekki kúmen)
  • 500 ml hrein jógúrt eða AB mjólk (einnig má nota sojajógúrt)
  • 1 hvítlauksgeiri, kraminn eða skorinn fínt
  • 2 msk ferskt coriander, saxað
  • Smá klípa cayennepipar eða paprika til skreytingar

Aðferð

  1. Flysjið gúrkuna og skerið langsum í 1 cm lengjur og svo í litla bita.
  2. Þurrkið bleytu af gúrkubitunum með eldhúsþurrku.
  3. Ristið cumin fræin í 10-15 sekúndur á heitri pönnu (án olíu). Kælið í nokkrar mínútur.
  4. Hrærið saman í skál cumin fræ, hvítlauk og coriander.
  5. Blandið gúrkunni og jógurtinni saman við og kryddið með papriku eða cayenne
  6. Kælið sósuna áður en þið berið hana fram.

Gott að hafa í huga

  • Ef þið hafið mjólkuróþol má nota sojajógúrt í staðinn fyrir jógúrt.
  • Cumin fræ fást stundum í stærri matvöruverslunum en yfirleitt í verslunum sem sérhæfa sig í austurlenskri matvöru. Ekki er hægt að nota kúmen í staðinn.

Ummæli um uppskriftina

Thordur
02. nóv. 2011

Svo virðist vera sem kryddið Cummin sé á Íslandi ýmist selt undir því nafni eða undir heitinu "Broddkúmen".

sigrun
02. nóv. 2011

Já Íslendingar misskildu 'cumin' svolítið og héldu að það væri 'kúmen' og hafa alla tíð ruglað því saman. Til minnis er ágætt að hafa í huga: 'kúmen/broddkúmen' og 'cumin' (öðru nafni jeerah) er ekki alveg það sama. Kúmen er notað í íslenskar kringlur en cumin er notað í t.d. indveska rétti.

santa
25. maí. 2012

Hvernig helduru að þessi sósa komi út með Cumin dufti og Kóríander dufti? Er mjög mikilvægt að nota ristuð Cumin fræ, gerir það gæfu muninn kannski?

sigrun
25. maí. 2012

Nei það gerir ekki gæfumuninn ef þú notar cumin duft (notaðu bara aðeins minna af því) og coriander duft gæti verið skemmtilegt líka, notaðu bara lítið og bættu svo meira út í ef þér finnst það gott. Athugaðu að með því að láta sósuna standa verða kryddin aðeins meira afgerandi svo hafðu það í huga.

Að þessu sögðu þá er ristað cumin aðeins öðruvísi en óristað....það dregur bragðið betur fram að rista það en ætti ekki að gera gæfumuninn.