Rækjusalat
30. október, 2003
Þetta er létt útgáfa af hefðbundnu rækjusalati og voðalega gott með brauði, kexi, hrökkbrauði o.fl. Ég set basil og karrí út í salatið og mér finnst það gefa mjög gott bragð.
Þessi uppskrift er:
- Án glúteins
- Án hneta
Rækjusalat
Fyrir 3-4 sem meðlæti
Innihald
- 2 harðsoðin egg (notið hvítuna úr einu eggi og svo má nota hitt eggið heilt (með rauðunni og hvítunni))
- 0,5 tsk basil
- 0,25 tsk svartur pipar
- 200 g þiðnar rækjur
- 0,5 tsk karrí
- 3-4 msk majones. Einnig má nota 5% sýrðan rjóma frá Mjólku (hann er án gelatíns).
Aðferð
- Sjóðið eggin og kælið.
- Fjarlægið aðra eggjarauðuna.
- Notið eggjaskera og skerið eggin fyrst langsum og svo þversum (svo þau endi í litlum bitum).
- Setjið rækjurnar í skál.
- Setjið egg, majones eða sýrðan rjóma, karrí, basil og svartan pipar í skálina.
- Hrærið öllu vel saman.
Gott að hafa í huga
- Það má breyta hlutföllum eftir hentisemi, ef þið viljið hafa það þynnra, bætið þá meira majonesi saman við og ef þið viljið hafa það þykkara bætið þá við meira af rækjum og eggjum.
- Salatið er ekki síðra ef það er geymt í sólarhring í ísskápnum svo það er upplagt að búa það til deginum áður en á að nota það.
- Smakkið til með meira karríi og pipar ef þarf.
- Notið hamingjuegg (orpin af hænum sem hafa ekki verið innilokaðar í búrum).
Tengdar uppskriftir
© CafeSigrun 2025