Rækjur í kókossósu

Borgar (bróðir) og Elín konan hans eru algjörir snilldarkokkar, það er alltaf gott að borða hjá þeim og maturinn sem þau gera er alltaf spes og öðruvísi og afar bragðgóður. Þau hafa viðað að sér miklum fróðleik um matarmenningu mismunandi landa með ferðalögum sínum um allan heim. Ég vildi að þau myndu opna veitingastað svo ég gæti komið á hverjum einasta degi og borðað. Ég veit að ég yrði ekki ein um það!!! Þessi réttur kemur frá Afríku (Kenya) en þau fengu uppskriftina frá afrískum kokki sem útbjó mat fyrir þau við strendur Indlandshafs. Eftir að hafa farið til Kenya ótal sinnum sjálf í gegnum árin finnst mér þessi matur ná einstaklega vel lyktinni, bragðinu og stemmningunni frá Indlandshafi. Bara ef maður gæti alltaf eldað þennan rétt undir pálmatrjánum, í hlýrri hafgolunni, í hvítum sandi, með lyktina af sjónum í nefinu.


Skálina og skeiðina keypti ég í Kenya en hitaplattann í Rwanda

Þessi uppskrift er:

  • Án glúteins
  • Án mjólkur
  • Án eggja
  • Án hneta

Rækjur í kókossósu

Fyrir 2-3

Innihald

  • 1 laukur, saxaður smátt
  • 1 sm biti ferskt engifer, afhýtt og saxað smátt
  • 2 hvítlauksrif, söxuð smátt
  • 1 msk kókosolía
  • 2 ferskir tómatar, saxaðir smátt
  • 1,5 msk tómatmauk (puree)
  • 0,5 msk karrí
  • 0,25 msk turmeric
  • 0,5 msk fish masala (má sleppa)
  • 0,5 msk Nam Plah (fiskisósa)
  • Salt eftir smekk (Himalaya eða sjávarsalt)
  • 150 ml kókosmjólk
  • 500 g rækjur eða blandaðir sjávarréttir

Aðferð

  1. Afhýðið lauk, engifer og hvítlauk og saxið smátt.
  2. Saxið tómatana smátt.
  3. Hitið kókosolíu á djúpri pönnu. Steikið laukinn, engifer og hvítlaukinn þangað til laukurinn er orðinn mjúkur. Bætið við vatni ef þarf meiri vökva.
  4. Bætið tómötunum og tómatmaukinu út í og hrærið.
  5. Bætið karríi, turmerici, fish masala og fiskisósu út í ásamt kókosmjólkinni. Látið malla við vægan hita í 10 mínútur. Ef þið notið blandaða sjávarrétti eða fisk, skal setja það út í hér.
  6. Bætið rækjunum út í og hitið í 2-3 mínútur.

Gott að hafa í huga

  • Gott er að bera fram chapati og hýðishrísgrjón eða bygg með matnum.
  • Upplagt er að gera aðeins meiri sósugrunn og setja svo núðlur út í.
  • Ef kókosolían er hörð má stinga krukkunni í heitt vatn í nokkrar mínútur þar til hún verður fljótandi.
  • Nota má aðra olíu en kókosolíu, t.d. vínberjakjarnaolíu eða repjuolíu.
  • Ef afgangur er af kókosmjólkinni má frysta hana í ísmolabox og nota síðar, t.d. í svona súpur.
  • Upplagt er að nota fisikafganga í réttinn t.d. ýsu, lúðu, þorsk, steinbít.

Ummæli um uppskriftina

gestur
17. jan. 2013

Sæl Sigrún.
Takk fyrir að deila þessari uppskrift. Ég prófaði hana, átti að vísu ekki fiskisósuna en setti örlítið af fiski krafti í staðinn og útkoman var rosa góð.... Nammi, namm :) Bar fram með brúnum hrísgrjónum og brauði handa unglingnum mínum.
Kv. Edda

sigrun
18. jan. 2013

Það gleður mig að heyra að uppskriftin hafi tekist vel :) Takk fyrir að deila með okkur :)