Rabarbara- og jarðarberjaíspinnar

Þessir íspinnar/frostpinnar eru afar hollir og upplagðir yfir sumartímann þegar rabarbarinn er að spretta út um allar jarðir. Þið getið notað hafrarjóma (athugið að hann inniheldur glútein) eða sojarjóma ef þið viljið í staðinn fyrir kókosmjólk. Rabarbarinn er afskaplega hollur, inniheldur m.a. A og C vítamín og er mjög trefjaríkur. Rabarbari á að minnka hættu á myndun sumra tegunda krabbameinsfruma og á að vera góður við bólgum í liðum, ofnæmum og til að lækka háan blóðþrýsting. Jarðarber eru líka ofurholl, innihalda alveg heilan helling af C vítamíni (100 grömm innihalda ráðlagðan dagsskamt af C vítamíni). Þau innihalda líka kröftug andoxunarefni og eiga að geta spornað gegn myndun sumra krabbameinsfruma eins og rabarbarinn. Einnig hafa jarðarber þótt vera góð til að viðhalda heilbrigðum augum og góðri sjón sem og eiga þau að vera vörn við gigt. Athugið að börn geta verið með ofnæmi fyrir jarðarberjasteinum svo ekki er ráðlagt að gefa mjög ungum börnum jarðarber. Þessi ís er fallega bleikur á litinn og það er gaman að bera hann fram t.d. í afmælisveislu. Það þarf nefnilega ekki alltaf litarefna/bragðefnasull í afmælum!

 


Dásamlega bleikur og bragðgóður rabarbaraíspinni

Þessi uppskrift er:

  • Án glúteins
  • Án mjólkur
  • Án eggja
  • Án hneta
  • Vegan

Rabarbara- og jarðarberjaíspinnar

6 íspinna

Innihald

  • 100 g rabarbari
  • 100 g jarðarber
  • 100 ml kókosmjólk
  • 75 ml hlynsíróp eða 1-2 tsk fljótandi stevia


 

Aðferð

  1. Skolið rabarbarann og skerið í frekar þunnar sneiðar. Setjið svo rabarbarann í blandarann eða matvinnsluvélina.
  2. Bætið jarðarberjunum út í ásamt hlynsírópinu.
  3. Blandið á fullum krafti í eina mínútu eða þangað til allt er vel maukað.
  4. Bætið kókosmjólkinni út í og blandið í 30 sekúndur.
  5. Setjið í íspinnamót og frystið.

Gott að hafa í huga

  • Stevia er náttúrulegt sætuefni sem fæst í flestum stærri matvöruverslunum.
  • Nota má frosinn rabarbara sem búið er að sjóða og mauka.