Rabarbara- og bananadrykkur

Ég veit að drykkurinn lítur ekki sérstaklega girnilega út svona ljósbrúnn en trúið mér...hann er dásamlega góður og fyrirgefst alveg ljótleikinn. Drykkurinn er ofurhollur, fullur af trefjum, C vítamíni, andoxunerefnum o.fl. Einnig er hann góður fyrir blóðrásina og hjartað. Rabarbari á að minnka hættu á myndun krabbameinsfruma og á að vera góður við bólgum í liðum, ofnæmum og til að lækka háan blóðþrýsting. Drykkurinn er mildur, sætur og passar eiginlega á hvaða tíma dags sem er, fínn að morgni en líka góður eftir langan dag heima fyrir, eða eftir vinnu, skóla eða ræktina. Það má sleppa því að sjóða döðlur og rabarbara og láta döðlurnar liggja í bleyti í sólarhring og mauka svo vel með rabarbaranum. Drykkurinn verður reyndar ekki eins mjúkur og verður skarpari á bragðið en mjög góður engu að síður.

Athugið að þið þurfið blandara til að útbúa þennan drykk.
 


Afar góður drykkur þó hann sé ljósbrúnn að lit

Þessi uppskrift er:

  • Án glúteins
  • Án mjólkur
  • Án eggja
  • Án hneta
  • Vegan

Rabarbara- og bananadrykkur

Fyrir 2

Innihald

  • 180 g döðlur, saxaðar gróft
  • 120 g rabarbari, þveginn, snyrtur og saxaður gróft
  • 100 ml hreinn appelsínusafi
  • 1 stór og vel þroskaður banani
  • 150 ml sojamjólk (eða önnur mjólk)
  • Smá klípa kanill (má sleppa)

Aðferð

  1. Saxið döðlur gróft og setjið í pott.
  2. Þvoið og snyrtið rabarbarann og saxið gróft. Setjið í pottinn ásamt 50 ml af appelsínusafanum í pott.
  3. Sjóðið í 10 mínútur eða þangað til hægt er að mauka döðlurnar og rabarbarann með gaffli. Kælið vel.
  4. Setjið rabarbara- og döðlumaukið í blandara. Bætið banana og afganginum (50 ml) af appelsínusafa út í. Blandið í um 30 sekúndur eða þangað til silkimjúkt.
  5. Bætið mjólkinni saman við og blandið í um 5 sekúndur.
  6. Hellið í glös, dreifið kanil yfir (ef þið viljið) og berið fram strax.

Gott að hafa í huga

  • Nota má eplasafa í staðinn fyrir appelsínusafa.
  • Nota má undanrennu, hrísmjólk, haframjólk eða möndlumjólk í staðinn fyrir sojamjólk.