Próteinríkt haframjöls- og bananabrauð

Þessi uppskrift var víst búin til af einhverri vaxtaræktarkonu (útskýrir kannski allar eggjahvíturnar!!) en mér var send uppskriftin. Ef höfundur uppskriftarinnar les þennan texta....gefðu þig fram svo ég geti sett inn rétta heimild :) Þetta brauð er mjög gott og próteinríkt, fínt fyrir þá sem eru að byggja upp vöðva. Tólf eggjahvítur hljómar auðvitað brjálæðislega mikið og miðað við verðlagið á hamingjusömum eggjum þá er ljóst að buddan léttist aðeins. Ég hvet ykkur samt eindregið til að nota hamingjusöm egg. Ég nota yfirleitt ekki eggjarauður nema í litlu magni en það má frysta þær og nota síðar t.d. til að þykkja súpur.

Athugið að það þarf svolítið að stilla deigið varðandi það hvort það verði nokkuð of blautt því egg (sem og bananar) eru misjafnlega stór. Þið gætuð því þurft að bæta aðeins við af haframjöli eða þið gætuð líka þurft að nota svolítið af sojamjólk eða undanrennu (eða annari mjólk) til að það sé nægilega blautt.

Athugið einnig að þið þurfið brauðform til að baka þessa uppskrift.

Þessi uppskrift er:

 • Án mjólkur
 • Án hneta

Próteinríkt haframjöls- og bananabrauð

Gerir 1 brauð

Innihald

 • 320 g haframjöl
 • 12 eggjahvítur
 • 3 mikið þroskaðir bananar, afhýddir og stappaðir
 • 2 msk kanill
 • 2 tsk vanilludropar (úr heilsubúð)

Aðferð

 1. Afhýðið bananana og stappið þá. Setjið í stóra skál.
 2. Í annarri skál skuluð þið hræra saman öllum eggjahvítunum. Bætið þeim út í stóru skálina ásamt vanilludropunum.
 3. Hrærið saman kanil og haframjöli og hellið út í stóru skálina. Hrærið saman þangað til komið er deig. Bætið meira haframjöli út í ef deigið er þlautt en ef það er of þurrt má bæta svolítilli slettu af sojamjólk eða undanrennu saman við. Deigið á að vera þannig að það sé nokkuð blautt, en má t.d. ekki leka hratt af sleif og ekki það þurrt að hægt sé að hnoða það.
 4. Klæðið brauðform með bökunarpappír og hellið deiginu út í. Gætið þess að það fari vel í hornin.
 5. Dreifið svolitlu haframjöli yfir ef þið viljið.
 6. Bakið við 150°C í um 90 mínútur.
 7. Ef brauðið er farið að dökkna mikið eftir 60 mínútur er gott að klæða formið að ofan með álpappír og baka áfram.

Gott að hafa í huga

 • Notið hamingjuegg ef þið mögulega getið.
 • Það er afar gott að nota svolítið af söxuðum valhnetum í deigið og gefur okkur holla og góða fitu í kroppinn.