Próteinkrem
Þetta krem er EINGÖNGU hugsað fyrir þá sem eru að bæta á sig vöðvum og eru á fullu í líkamsræktinni. Það er EKKI ekki ætlað börnum (nema í samráði við lækni).
Notið það próteinduft sem ykkur þykir best en hafið bara í huga að sum þessarra próteindufta innihalda furðuleg efni. Það er ekki gott að þurfa háskólagráðu í efnafræði til að skilja innihald einhvers sem maður er að borða. Það getur ekki verið hollt fyrir mann. Ég er hrifin af Solgar vörunum og yfirleitt eru þau próteinduft sem til eru í heilsubúðum, í lagi. Misjafnt er hvort þau henta jurtaætum (enska: vegan) eða fólki með mjólkuróþol svo fáið ráðleggingar afgreiðslufólks. Athugið einnig að misjafnt er eftir próteinduftum hvernig þau blandast við hlynsírópið svo hafið það í huga með fyrstu tilraunir.
Þessi uppskrift er:
- Án glúteins
- Án mjólkur
- Án eggja
- Án hneta
- Vegan
Próteinkrem
Innihald
- 40 g próteinduft (t.d. Solgar)
- 2 tsk carob
- 2-3 msk hlynsíróp (enska: maple syrup)
Aðferð
- Blandið próteinduftinu, carobinu og hlynsírópinu varlega saman.
- Setjið kremið í ísskápinn og geymið í um klukkustund. Kremið ætti að leka mjög hægt af skeið og ekki í dropatali. Það ætti að vera svolítið þykkt þegar það er sett á bitana.Bætið við meiru af carobi eða próteindufti ef kremið er of lint eða meira af hlynsírópi ef það er of stíft.
- Smyrjið um 1 tsk á hvern próteinbita og látið harðna í ísskáp (harðnar alveg á 2 dögum).
- Þegar kremið er orðið hart má pakka bitunum inn í plast.
Gott að hafa í huga
- Stundum vill kremið ekki harðna (misjafnt eftir próteindufti en ef svo er, er best að geyma bitana, óinnpakkaða í boxi.
- Það hentar ekki vel að nota agavesíróp í staðinn fyrir hlynsíróp, það harðnar ekki eins og hlynsírópið.
- Carob hentar þeim sem eru viðkvæmir fyrir örvandi efnum kakósins og hentar því börnum vel. Carob fæst í heilsubúðum og heilsuhillum matvöruverslana. Það fæst bæði sem duft (eins og kakó) og í plötum (eins og súkkulaði).