Prótein- og kalkrík hnetu- og möndlumjólk

Þessi drykkur er mjög próteinríkur og hollur fyrir hjartað sem og beinin. Upplagður að morgni eftir ræktina, sérstaklega fyrir þá sem vilja ekki neinar mjólkurvörur. Best er að nota góða matvinnsluvél eða blandara til að hneturnar maukist sem best því þannig er drykkurinn bestur. Drykkurinn er hitaeiningaríkur svo það er ágætt að drekka hann ekki á hverjum morgni ef maður er ekki mikið að hreyfa sig en einnig getur maður líka minnkað skammtinn og drukkið minna í einu! Hafið þó í huga að fitan í drykknum er holl þ.e. hún samanstendur af einómettuðu fitusýrum sem eru góðar fyrir hjarta og æðar.

Mjólkin er ekki mjög sæt en þið getið sett meira agavesíróp eða svolítinn eplasafa út í til að gera hana sætari.

Þessi uppskrift er:

  • Án glúteins
  • Án mjólkur
  • Án eggja
  • Vegan
  • Hráfæði

Prótein- og kalkrík hnetu- og möndlumjólk

Fyrir 1-2

Innihald

  • 25 g möndlur eða möndlumauk (enska: almond butter)
  • 25 g pecanhnetur
  • 1 msk graskersfræ (má sleppa)
  • 300 ml kalt vatn (eða mjólk eftir smekk)
  • 1 tsk agavesíróp
  • Smá klípa kanill (meira eftir smekk)
  • Nokkrir ísmolar

Aðferð

  1. Setjið möndlur, pecanhnetur og graskersfræ í matvinnsluvél eða blandara. Blandið í um 1 mínútu eða þangað til allt er orðið vel maukað.
  2. Hellið vatni eða mjólk út í matvinnsluvélina eða blandarann ásamt agavesírópi og kanil. Blandið í a.m.k. 1 mínútu á fullum krafti eða þangað til drykkurinn er silkimjúkur.
  3. Berið fram strax og með nokkrum ísmolum út í.

Gott að hafa í huga

  • Nota má undanrennu, hrísmjólk, haframjólk, sojamjólk eða möndlumjólk í staðinn fyrir vatn.
  • Nota má eplasafa á móti vatninu til að gera mjólkina aðeins sætari.