Prideuppskrift CafeSigrun 2015: Pridekaka
8. ágúst, 2015
Prideuppskrift CafeSigrun 2015 er að þessu sinni kaka. Ég er bundin því að nota ekki litina í neitt sem er hitað því matarlitirnir sem ég nota eru náttúrulegir og þola ekki hita. Þetta er mjög þunnur svampbotn sem ég útbý ekki oft (enda ekki hrifin af þeim svona almennt). Litirnir heita India Tree en einnig nota ég litina frá Waitrose í UK. Þetta er ekki hollasta kakan á vefnum (ég nota t.d. fínmalað spelti) en skemmtileg engu að síður. Og kremið inniheldur ekki sykur en í það nota ég erythritol í staðinn fyrir hrásykur. Ég nota yfirleitt erythritol flórsykurinn frá via-health.
Prideuppskriftin frá CafeSigrun 2015
Þessi uppskrift er:
- Án hneta
Prideuppskrift CafeSigrun 2015: Pridekaka
Ein lítil kaka
Innihald
Innihald - botn:
- 1 mjög stórt egg eða 2 mjög lítil
- 120 hrásykur
- 40 g maizenamjöl
- 40 g spelti, fínmalað
- 1 tsk vínsteinslyftiduft
- Smá klípa kókosolía
Innihald-Krem
- 800 g hreinn rjómaostur
- 440 g erythritol flórsykur (eða fínmalaður hrásykur)
Aðferð
- Hrærið eggið/eggin í hrærivél/handþeytara ásamt hrásykrinum þangað til létt og ljóst.
- Hrærið saman maizenamjöli, spelti og vínsteinslyftidufti og bætið varlega út í hrærivélaskálina. Veltið til með sleikju. Hellið í 21 cm ferkantað form (eða kringlótt smelluform ef þið viljið frekar). Gott er að smyrja botninn með svolítilli kókosolíu. Bakið við 175°C í um 15-18 mínútur.
- Á meðan kakan bakast skuluð þið útbúa kremið: Setjið rjómaost og erythritol flórsykurinn í hrærivél og blandið vel. Kælið í a.m.k. 30 mínútur. Skiptið kreminu í 6 jafnsstóra skammta (gott að nota litlar skálar) og hrærið matarlitum út í. Hafið kremskálarnar allan tímann í kæliskáp ef þið eruð ekki að meðhöndla kremið því það linast fljótt.
- Þegar kakan hefur kólnað skuluð þið skipta henni (getið skorið lauslega með hníf ofan í hana) í 6 jafnstóra hluta.
- Setjið kremið í 6 sprautupoka (eða þrífið pokann á milli lita) og sprautið mynstri á kökuna.
- Geymið kökuna í kæliskáp, kremið linast fljótt við stofuhita.
Gott að hafa í huga
- Athugið að það verður þó nokkur afgangur af kreminu en útbúa má fallegan ís úr því. Hrærið 2 egg, skiptið á milli kremskálanna, hellið í ísform, hrærið þvert á formið 2-3var og frystið.
- Gera má súkkulaðisvampbotn með því að bæta svolitlu kakói út í speltið (um 2 msk) og þá er upplagt að nota grófmalað spelti í staðinn fyrir fínmalað.
- Ef þið eigið aðra nokkuð holla svampbotnsuppskrift þá má vel nota hana í staðinn.
Tengdar uppskriftir
© CafeSigrun 2024