Pride ísdrykkurinn

Þetta er sannkallaður gleðiísdrykkur, ég sé a.m.k. ekki að neinn geti verið stúrinn yfir að halda á glasi með regnboganum í!

Þó að myndin sýni drykinn í föstu og frosnu formi, þá er hans neytt í fljótandi formi þ.e. þegar ávextirnir hafa bráðnað.

Mikilvægt að ávextirnir séu vel þroskaðir en nota má svolítið hunang (ath ekki vegan) eða agavesíróp ef þeir eru ekki nægilega sætir. Ekki er hægt að nálgast bláan lit frá náttúrunnar hendi (þ.e. fljótandi) svo ég fór þá leið að frysta bláberin í vatni. Til að milda fjólubláa litinn bætti ég jógúrti við en því má sleppa eða nota sojajógúrt í staðinn. Gulrótarsafin gefur dýpri appelsínugulan lit en er ekki nauðsynlegt ef mangoið er vel appelsínugult.
Þessi uppskrift tekur heilan dag að útbúa því hvert lag þarf að frysta í um 1-2 klukkustundir áður en það næsta má fara ofan á. Athugið að ísinn má þíða og borða sem krap en einnig má láta hann þiðna alveg og drekka sem drykk. Litirnir munu renna saman við að bráðna og drykkurinn verður ekki eins fallegur.

Athugið að ég notaði 2 x 300 ml glös en gera má fleiri glös með minna magni þannig að ísdrykkurinn sé fljótari í undirbúningi sem og fljótari að bráðna.

 

Þessi uppskrift er:

  • Án glúteins
  • Án eggja
  • Án hneta

Þessa uppskrift er auðvelt að gera:

  • Án mjólkur
  • Vegan (fyrir jurtaætur)

Pride ísdrykkurinn

Fyrir 2 glös sem hvort tekur 300 ml

Innihald

  • 100 g jarðarber
  • 100 g mango
  • 1 tsk gulrótarsafi
  • 100 g ananas
  • 100 g kiwi
  • 40 g bláber
  • 2-4 msk vatn
  • 80 g vínber
  • 3 msk jógúrt (má sleppa)

Aðferð

  1. Snyrtið alla ávextina og skerið í bita.
  2. Maukið alla ávextina sér (þrífið blandarann á milli) og setjið í sér skálar.
  3. Hrærið gulrótarsafanum í mangomaukið.
  4. Hrærið jógúrtina í vínberjasafann, gætið þess að hræra vel svo engar hvítar rákir séu til staðar.
  5. Takið til tvö glös sem hvert um sig tekur a.m.k. 300 ml. Hvert lag á að vera um 2 sm og er gott að merkja með tússlit og litlum punktum hvar hvert lag byrjar.
  6. Rétt röð er svona: Rauður er efstur, því næst appelsínugulur, gulur, grænn, blár og fjólublár.
  7. Hellið vínberja- og jógúrtsafanum sem fyrsta lag. Frystið í um klukkustund eða lengur.
  8. Raðið bláberjum upp að næsta punkti þannig að þau þeki alveg vínberjalagið. Bætið 1-2 msk af vatni út á þannig að þau nái rétt upp fyrir bláberin. Frystið.
  9. Næstu skuluð þið hella kiwimaukinu út í glasið, að næsta punkti. Frystið.
  10. Hellið ananasmaukinu út í að næsta punkti og frystið.
  11. Hellið mangomaukinu (og gulrótarsafanum) að næsta punkti og frystið.
  12. Að síðustu skuluð þið hella jarðarberjamaukinu út í, að síðasta punkti. Frystið.
  13. Frystið í um klukkustund.
  14. Takið úr frystinum og látið þiðna með 2-3ja klukkustunda fyrirvara eða eftir því hversu frosinn ísinn á að vera.

Gott að hafa í huga

  • Gera má fleiri glös og minna magn en gætið þess að skipta lögunum jafnt.