Pizzabotn

Þetta er spelt pizzabotn sem hentar vel í allan pizzabakstur. Venjulegir botnar eru með geri en þessi er gerlaus. Ég sá einmitt auglýsingu frá stórri pizzakeðju í blaðinu í dag og það var pepperoni og ostur inni í djúpsteikta pizzabotninum.  Ég fékk hroll niður eftir bakinu. Þessi pizzabotn er einmitt ekki fyrir þá sem finnst svoleiðis pizzabotnar góðir.

 


Myndina af pizzabotninum sem Lísa Hjalt bakaði

Þessi uppskrift er:

  • Án mjólkur
  • Án eggja
  • Án hneta
  • Vegan

Pizzabotn

1 pizzabotn sem dugar fyrir um 4

Innihald

  • 250 g spelti 
  • 1,5 tsk vínsteinslyftiduft
  • 1 tsk salt (Himalaya eða sjávarsalt)
  • 1 tsk pizzakrydd t.d. frá Pottagöldrum
  • 0,5 tsk oregano
  • 200 ml volgt vatn
  • 1 msk kókosolía

Aðferð

  1. Blandið saman í stóra skál; spelti, vínsteinlsyftidufti, oregano, pizzakryddi og salti. Hrærið vel.
  2. Blandið vatni og kókosolíu saman við. Hnoðið lauslega.
  3. Ef deigið er of blautt má setja meira spelti út í þannig að hægt sé að fletja með kökukefli.
  4. Setjið spelt á borð (eða bökunarpappír) og fletjið deigið þunnt með kökukefli.
  5. Einnig má fletja deigið út í ferkantaða ofnskúffu (með bökunarpappír undir).
  6. Bakið við 150°C í um 15 mínútur eða þangað til botninn er aðeins farinn að dökkna og orðinn svolítið stökkur í köntunum. Pizzabotninn ætti að vera tilbúinn fyrir sósu og álegg.

Gott að hafa í huga

  • Útbúa má minni og fleiri botna, baka og frysta.
  • Einnig er gott að nota ferskar kryddjurtir í botninn

Ummæli um uppskriftina

barbietec
03. júl. 2011

Þessi botn er ÆÐI! Ég hitaði eldaða pizzuna daginn eftir og daginn eftir daginn eftir inn í ofni og hún var alveg jafn góð!

Ég er hætt! að gera hefðbundna pizzabotna hér eftir!

sigrun
03. júl. 2011

Og fyrir mismunin sem þú sparar þér geturðu keypt þér pizzastein ef þú átt ekki svoleiðis, það gerir botninn enn þá betri!

gestur
06. ágú. 2011

Þessi botn er rosalega góður! Loksins get ég borðað gerlausa og holla pizzu! Ég bætti sesamfræjum útí botninn og það var mjög gott :)

sigrun
06. ágú. 2011

Gaman að heyra :) Sniðugt að setja sesamfræin út í...ekki verra að fá svolítið kalk í pizzabotninn :)

Tinna Hrund Birgisdóttir
26. ágú. 2011

Ég á einmitt svona pizzustein, en hef aldrei komist upp á lagið með að nota hann. Hvernig notar þú hann Sigrún?

sigrun
26. ágú. 2011

Hún Lísa vinkona mín (sem á einmitt myndina af pizzunni hér að ofan) ætlar að leggja til svar, hún notar pizzastein mjög mikið. Watch this space ;)

Bómullarhnoðri
12. des. 2011

Ekkert smá góður botn - ég átti reyndar ekkert svona krydd til að skella með, en hann var mjög góður engu að síður. Kv. Kristín

sigrun
13. des. 2011

Gaman að heyra Kristín :)

gestur
05. maí. 2012

og hitar og bakar botninn og setur svo álegg og aftur inn í ofn eða? og hvað lengi?

sigrun
05. maí. 2012

Þetta er bara uppskrift að pizzabotninum svo það eru engar upplýsingar um álegg og hitunartíma. Tíminn fer allt eftir því hvaða álegg um ræðir svo það er erfitt að gefa upp einhvern ákveðinn tíma. Ég miða yfirleitt við 180°C og um 10-15 mínútur eða þangað til osturinn er bráðnaður en þá þarf annað hráefni (t.d. rauðlaukur, kjúklingur eða sveppir) að vera forsteikt.

Lisa Hjalt
22. jún. 2012

Ahemm ... ég held að ég hafi átt að vera búin að svara þessu með pizzasteininn fyrir næstum ári síðan. Betra seint en aldrei, ekki satt?

Ég kynntist notkun pizzasteins fyrir mörgum árum í gegnum vinkonu mína og þegar ég fékk pizzur hjá henni þá fékk ég alltaf þá tilfinningu að ég væri að borða Eldsmiðjupizzur, sem voru í uppáhaldi hjá mér. Nú hef ég notað minn eigin stein í tvö ár og held að ég gæti bara ekki án hans verið. Á þessu heimili eru heimagerðar pizzur á hverjum einasta föstudegi og stundum oftar þannig að steinninn góði er í mikilli notkun.

Ég geng ekki svo langt að segja að bragð pizzunnar sé öðruvísi þegar pizzsteinn er notaður en það sem steinninn gerir er að hann dreifir hitanum jafnt og hann dregur líka í sig raka úr deiginu. Hann er því sérstaklega góður fyrir þá sem eru hrifnir af þunnbotna pizzum.

Ég nota aðra aðferð við pizzugerðina heldur er lýst hér að ofan: ég er með sömu uppskrift en nota minni vökva og ég stilli ofninn á hærri hita (220-230° C) og baka botninn ekki neitt á undan. Hver pizza fer með áleggi beint í ofninn og er tilbúin eftir 7-10 mínútur.

Það þarf að hita pizzasteininn með ofninum og það sem mér finnst best að gera er að setja bökunarpappír á disk sem er með engum brúnum, útbúa pizzuna á disknum og færa hana svo yfir á heitan pizzasteininn í ofninum. Ég útbý hverja pizzu bara rétt áður en ég set hana í ofninn þannig að það verður engin rakamyndun í bökunarpappírnum; pizzan rennur því auðveldlega af pappírnum yfir á steininn.

Fólk hefur oft sagt við mig að pizzasteinn sé bara vitleysa, að það sé enginn munur á pizzum sem eru settar á plötur eða stein. Það gerðist nú einu sinni - OG BARA EINU SINNI - að ég hreinlega gleymdi að hita steininn með ofninum og þurfti því að nota venjulega plötu. Ég held að hver einasti fjölskyldumeðlimur hafi spurt: „Af hverju eru pizzurnar einhvern veginn öðruvísi núna?“ Það var akkúrat botninn sem öllum fannst vera „eitthvað öðruvísi“ en venjulega.

Svanhildur Anna Sveinsdóttir
21. sep. 2012

ótrúlega góður botn í hollari kantinum sem fer vel í maga, sonur minn sem er mjög matvandur fussaði þegar hann heyrði að ég ætlaði að hafa hollustu pizzubotn, en borðaði með bestu lyst. Takk fyrir mig, eitt enn. hvar fæst svona pizzusteinn? og hvað kostar hann ca. Með kveðju Svanhildur

sigrun
21. sep. 2012

Flott að heyra Svanhildur :) Varðandi pizzasteina þá er ég ekki alveg klár á hvar þeir fást (ég bý ekki á Íslandi) en ég myndi athuga t.d. í Eirvík, Heimilistækjum, Elko, Byko og svoleiðis stöðum :)

Lísa Hjalt
14. okt. 2012

pizzasteinar fást líka í Kokku

jonsi
03. mar. 2013

Þessi pizzabotn klikkar aldrei, langbestur!

sigrun
03. mar. 2013

Takk Jónsi :)

Una Hlín
03. maí. 2013

Langbestur pizzabotn sem ég hef nokkurn tímann prófað! Og deigið er svo "meðfærilegt", ekkert klístur, ekkert vesen :) Krakkarnir eru líka búnir að samþykkja hann!

sigrun
04. maí. 2013

Takk Una Hlín, mér þykir vænt um að heyra það :) Og gaman að krakkarnir skulu vera glaðir með hann :)

 

Ása
11. júl. 2013

í þessari uppskrift og nokkrum öðrum á síðunni þinni - nefnir þú spelt sem innihald. Hvort áttu við gróft eða fínt?

sigrun
11. júl. 2013

Sjá hér nánar um spelti sem ég nota. Ég nota sem sagt alltaf grófmalað spelti nema ég taki annað fram en þú getur líka blandað saman 50/50 grófu og fínu.

Karen ýr
09. sep. 2013

sæl, hvað heitir vínsteinslyftiduft á ensku ?:)

sigrun
09. sep. 2013

Yfirleitt er það bara gluten free baking powder en ef þú finnur slíkt í heilsubúð þá er það yfirleitt líka aluminium free (og það viljum við endilega) :)