Pítusósa

Þessi létta pítusósa er nú tööööööluvert hollari en hefðbundin pítusósa sem er bara eitrað kransæðakítti. Þessi pítusósa passar vel með pítubrauði, sem ídýfa eða ofan á salat. Einnig passar sósan sérlega vel með grilluðum mat t.d. fiski sem og bökuðum kartöflum.

Þessi uppskrift er:

 • Án glúteins
 • Án hneta

Þessa uppskrift er auðvelt að gera:

 • Án eggja

Pítusósa

Fyrir 2-3 sem meðlæti

Innihald

 • 125 ml hrein jógúrt eða AB mjólk
 • 2 msk majones. Einnig má nota 5% sýrðan rjóma (án gelatíns, frá Mjólku)
 • 1 hvítlauksrif, marið
 • Lítil hnefafylli steinselja, fersk eða 1 tsk þurrkuð
 • 1 graslaukur, ferskur
 • 1 tsk tamarisósa
 • 0,5 tsk agavesíróp
 • Chili pipar eða cayennepipar eftir smekk

Aðferð

 1. Afhýðið og merjið hvítlaukinn og setjið í skál.
 2. Saxið steinseljuna og graslaukinn og setjið í skálina.
 3. Bætið jógúrti, tamarisósu, chili pipar, agavesírópi og majonesi út í.
 4. Blandið öllu vel saman og kælið í um 30 mínútur.

Gott að hafa í huga

 • Nota má gríska jógúrt í staðinn fyrir jógúrt. Þannig fæst þykkari sósa.
 • Ef þið hafið mjólkuróþol má nota sojajógúrt í staðinn fyrir venjulega jógúrt.
 • Nota má sojasósu í staðinn fyrir tamarisósu en sojasósa inniheldur hveiti.
 • Ef þið hafið eggjaóþol má sleppa majonesinu og nota sýrða rjómann í staðinn.

Ummæli um uppskriftina

Þórdís
05. maí. 2011

Sæl ég vil byrja á að þakka þér kærlega fyrir þessa síðu hefur reynst mér frábærlega við að breyta og bæta minn/okkar fjölskyldunni minni okkar lífsstíl kærar þakkir fyrir þetta. en er með eina spurningu er alltaf að vandræðast með geymslutíma eins og til dæmis pítusósan hvað er í lagi að geyma hana lengi myndiru halda?

bestu þakkir fyrir mig:)

kv þórdís

sigrun
05. maí. 2011

Gaman að heyra Þórdís :)

Í raun er bara sami geymslutími og á þeirri mjólkurvöru sem þú notar þ.e. ef þú notar AB&;mjólk eða hreina jógúrt er það sami geymslutími og á mjólkurvörunum (þ.e. frá því þú opnar þær). Hef geymt sósuna í viku í ísskáp og það var allt í lagi. Skoðaðu bara utan á umbúðirnar á mjólkurvörunum og það ætti að gefa þér svarið :)