Pítu-pizzur (nokkrar útgáfur)

Ok þetta hljómar kannski pínu skrítið, pítu-pizzur en það sem málið snýst um er að nota pítubrauðin sem pizzubotna því það sparar tíma og fyrirhöfn svona þegar maður er að flýta sér. Ég fann þessa uppskrift í grænmetisbók sem Smári og Anna Stína (bróðir minn og konan hans) gáfu mér en þau eru mikið grænmetisfólk (hún er grænmetisæta) og góðir kokkar. Það er auðvitað betra að búa til sína eigin pizzubotna en svona í miðri viku, eftir vinnu þá finnst mér þetta góð lausn. Svo finnst mér líka sniðugt að geta búið til alls konar pizzur með lítilli fyrirhöfn þ.e. maður setur bara það sem maður vill ofan á hverja og eina!! Ef þið viljið búa til ykkar eigin pizzasósu þá er það bara frábært, margir eiga „sína” pizzasósu sem þeir nota alltaf. Ég hef keypt lífrænt framleiddar pizzasósur sem eru mjög góðar.

Upplagt er fyrir krakka að raða því hráefni sem þau vilja helst á sínar eigin pizzur. Það tryggir að pizzurnar muni alveg örugglega slá í gegn.

Það er lítið mál að gera pizzurnar mjólkurlausar og vegan (þ.e. fyrir jurtaætur), því auðvelt er að skipta út venjulegum osti fyrir sojaosti. Ég man sérstaklega vel eftir því hversu glöð ég var fyrir forsjálnina eftir að ég var nýkomin heim af fæðingardeildinni. Ég gróf upp endalaust magn af pítu-pizzum úr frystinum við mikla hamingju mína og eiginmannsins! Ég hef fryst þessar pizzur í bílförmum og hitað svo upp þegar vantar eitthvað gott í gogginn með engri fyrirhöfn. Eins er líka gott að taka með sér í nestið ef maður getur hitað upp í örbylgjuofni, bakaraofni eða samlokurist. Þetta eru a.m.k. töluvert hollari pizzur en þær sem keyptar eru tilbúnar í búðum. Athugið að í pítubrauðum er yfirleitt ger.

Hér fyrir neðan eru nokkur afbrigði af þeim pítu-pizzum sem okkur finnst bestar.


Pítupizzur - einfaldar og sniðugar

Þessi uppskrift er:

  • Án eggja
  • Án hneta

Pítu-pizzur (nokkrar útgáfur)

Fyrir 2-3

Innihald

Grunnurinn:

  • 6 spelt pítubrauð (úr heilsubúð)
  • 200 ml pizzasósa (úr heilsubúð)
  • 100 g mozzarella ostur, sneiddur þunnt
  • 200 g magur ostur, rifinn
  • Svartur pipar
  • Svolítið pizzakrydd (frá Pottagöldrum) eða ítalskt krydd

Pizza  1 - með öllu ofan á:

  • Grunnur (pítubrauð, pizzasósa, mozzarella ostur og magur ostur)
  • 1 rauðlaukur sneiddur þunnt, steiktur upp úr vatni
  • 12 sveppir sneiddir þunnt, steiktir upp úr vatn
  • 1 lítil dós maískorn (án sykurs), vatn sigtað frá
  • 12 svartar ólífur, sneiddar þunnt
  • 3 msk capers
  • 12 kirsuberjatómatar skornir í helminga
  • 1 búnt af basilikublöðum, skorið í ræmur
  • 3-4 jalapeno pipar, saxaðir gróft

Pizza 2 - með ólífum, papriku og capers:

  • Grunnur (pítubrauð, pizzasósa, mozzarella ostur og magur ostur)
  • 1 rauð paprika, fræhreinsuð og sneidd þunnt
  • 12 sveppir sneiddir þunnt, steiktir upp úr vatn
  • 12 svartar eða grænar ólífur, sneiddar þunnt
  • 3 msk capers

Pizza 3 - með kirsuberjatómötum og basil:

  • Grunnur (pítubrauð, pizzasósa, mozzarella ostur og magur ostur)
  • 12 kirsuberjatómatar skornir í helminga
  • 12 svartar ólífur, sneiddar þunnt
  • 6 sveppir sneiddir þunnt, steiktir upp úr vatn
  • Stór hnefafylli fersk basilblöð, skorin í ræmur

Pizza 4 - með ruccola og shiitake sveppum:

  • Grunnur (pítubrauð, pizzasósa, mozzarella ostur og magur ostur)
  • 6 sveppir sneiddir þunnt, steiktir upp úr vatn
  • 3 shiitake sveppir, sneiddir þunnt, steiktir upp úr vatn
  • Hálf græn (eða rauð) paprika, fræhreinsuð og sneidd þunnt
  • Hnefafylli ferskt ruccola (klettasalat), skorin í ræmur
  • 6 svartar ólífur, sneiddar þunnt

Aðferð

  1. Hitið ofninn í 180°C
  2. Steikið og skerið niður allt grænmeti sem á að nota og setjið allt í skálar fyrir framan ykkur svo auðvelt sé að ná í áleggið og raða á pizzurnar.
  3. Smyrjið hvert pítubrauð vel með pizzasósu (má vera gott lag af sósu ofan á).
  4. Raðið álegginu eftir smekk á hverja pítu.
  5. Endið á osti og kryddi.
  6. Hitið í ofnininum í um 5-10 mínútur eða þangað til osturinn er bráðnaður.

Gott að hafa í huga

  • Það eru margir sem eiga sína uppáhaldspizzu og um að gera að setja sitt uppáhaldsálegg ofan á þessar pítu-pizzur.
  • Auðvelt er að frysta pizzurnar. Best er að leyfa þeim að kólna fyrst og pakka þeim svo inn í poka með bökunarpappír eða plastfilmu á milli hverrar pizzu svo áleggið klessist ekki í botninn á næstu.
  • Ef þið hafið aðgang að ofni í vinnunni/skólanum er mjög gaman að hita pizzurnar í nesti. Ég get lofað ykkur að þið verðið öfunduð af félögum ykkar!