Pistachio- og kókoskonfekt með trönuberjum

Þetta konfekt er algjörlega unaðslegt. Ég hef, held ég varla búið til betri mola með kaffinu. Þeir hreinlega æpa á mann að borða sig og þess vegna fel ég þá vandlega í ísskápnum, að öðrum kosti hverfa þeir eins og dögg fyrir sólu (ég er aðal sökudólgurinn). Ég hef í alvörunni oft pælt í því að fá mér bara talnalás á boxin í ísskápnum (og biðja Jóhannes um að rugla tölunum), til að forða innihaldinu frá því að vera ryksugað upp (af mér).

Athugið að ef þið eruð hrifnari af hvítu súkkulaði en dökku getið þið notað einungis hvítt súkkulaði (eða öfugt). Gætið þess að trönuberin (eða kirsuberin) sem þið kaupið séu án viðbætts sykurs en af því þau eru svolítið súr í eðli sínu þessi ber, eru þau oft sykurhúðuð. Athugið einnig að þið þurfið matvinnsluvél eða góðan blandara fyrir þessa uppskrift.


Sætir og góðir molar með kaffinu

Þessi uppskrift er:

 • Án glúteins
 • Án eggja

Þessa uppskrift er auðvelt að gera:

 • Án mjólkur
 • Vegan (fyrir jurtaætur)

Pistachio- og kókoskonfekt með trönuberjum

Gerir um 25 konfektmola

Innihald

 • 100 g pistachiohnetur (ósaltaðar og ekki í skelinni)
 • 100 g kókosmjöl
 • 1 lúka þurrkuð trönuber eða kirsuber (án viðbætts sykurs), söxuð smátt
 • 2 msk kókosolía
 • 2 msk agavesíróp
 • 2 msk hlynsíróp
 • 35 g hvítt súkkulaði með hrásykri, saxað gróft og brætt
 • 35 g dökkt súkkulaði með hrásykri, saxað gróft og brætt

Aðferð

 1. Setjið pistachiohneturnar í matvinnsluvél og blandið í um 10 sekúndur eða þangað til þær eru orðnar mjög fínmalaðar (eins og duft) en án þess að þær verði olíukenndar og klesstar. Setjið í skál.
 2. Bætið kókosmjölinu út í skálina og hrærið vel.
 3. Saxið trönberin smátt og setjið út í skálina.
 4. Saxið súkkulaðið gróft og setjið til hliðar.
 5. Hrærið saman agavesírópi, hlynsírópi og kókosolíu og setjið út í skálina. Hrærið vel saman.
 6. Setjið skálina inn í ísskáp í um klukkustund (eða frystinn í 30 mínútur) svo að blandan stífni aðeins.
 7. Þegar blandan er orðin svolítið stíf skuluð þið móta litlar kúlur með höndunum. Blandan er svolítið klístruð og því er gott að bleyta hendurnar með svolitlu vatni til að auðveldara sé að móta kúlur. Setjið kúlurnar á disk eða plötu með bökunarpappír og stingið í frystinn í 15 mínútur.
 8. Á meðan molarnir kólna alveg skuluð þið bræða súkkulaðið.
 9. Bræðið fyrst dökka súkkulaðið yfir vatnsbaði. Setjið svolítið vatn í lítinn pott. Setjið skál ofan á pott þannig að skálin sitji á brúnunum. Setjið súkkulaðið ofan í skálina og bræðið yfir vægum hita. Takið af hitanum og látið kólna eilítið (í um 15 mínútur). Setjið til hliðar.
 10. Setjið aðra skál ofan á pottinn og bræðið hvíta súkkulaðið.
 11. Takið kúlurnar úr ísskápnum eða frystinum og dýfið hverri og einni ofan í súkkulaði.

Gott að hafa í huga

 • Nota má hvítt súkkulaði eða dökkt súkkulaði einungis ef ykkur líkar önnur hvor tegundin betur en hin.
 • Nota má carob í staðinn fyrir súkkulaði en bragðið verður auðvitað ekki eins.
 • Nota má mjólkurlaust súkkulaði ef þið hafið mjólkuróþol.
 • Ef kókosolían er hörð má stinga krukkunni í heitt vatn í nokkrar mínútur þar til hún verður fljótandi.
 • Nota má hreint hlynsíróp (enska: maple syrup) í staðinn fyrir agevesírópið.

Ummæli um uppskriftina

Esther Sigurðardóttir
15. apr. 2011

Sæl Sigrún
Frábært að fá póst frá þér aftur og til hamingju með nýju heimasíðuna, hún er meiriháttar flott.
Ég ætla að prófa að gera pistachio nammið um helgina, það lítur út fyrir að vera alveg ómótstæðilegt :)
Bestu kveðjur,
Esther

sigrun
15. apr. 2011

Takk Esther, þú mátt endilega láta okkur vita hvernig tókst til :)

gudrune
18. apr. 2011

Sæl Sigrún.
Ég réðst í þetta konfekt og ég get sagt þér að þetta er nú ekkert á leiðinni að fara hanga saman í einhverri kúlu, ég næ ekki að láta þetta haga saman, ég bætti við extra sýrópi en allt kom fyrir okki. Ætti ég að bæta við kókoshnetuolíu? Ertu með einhver ráð?
Ég notaði mjög fínt kókosmjöl í þetta, ekki er það ástæðan.

bkv
Guðrún

sigrun
18. apr. 2011

Sæl Guðrún

Það að þú sért að nota fínmalað kóksosmjöl ætti bara að vera betra. Það eina sem mér dettur í hug er að blandan sé ekki nægilega fínt söxuð hjá þér í matvinnsluvélinni? Prófaðu að setja hana í matvinnsluvélina aftur og mauka í nokkrar sekúndur. Prófaðu að klípa saman smá bút af blöndunni og sjáðu hvort hún festist ekki saman á milli fingranna. Settu blönduna svo í ísskápinn ef svo er (en maukaðu í nokkrar sekúndur áfram ef ekki) svo hún stífni aðeins og þá er auðveldara að móta kúlurnar.

Prófaðu allavega og láttu mig vita hvernig tókst til. Ég er búin að gera konfektið tvisvar og ekkert vandamál svo ég vil gjarnan vita hvar hnífurinn stendur í kúnni :)

Kv.

Sigrún

gudrune
19. apr. 2011

Sæl Sigrún.
Eftir að ég sá svarið frá þér ákvað ég að kíkjja á blönduna sem hafði staðið inní í ísskáp síðan um hádegið og viti menn, ég náði að klípa þetta saman... kannski það hafi ekki verið búið að standa nógulegi fyrst þegar ég reyndi (þó það hafi staðið í tæpan klukkutíma)
Takk fyrir skjótt svar ;)

Nú bræði ég súkkulaði eins og enginn sé morgundagurinn ;)

Guðrún

sigrun
19. apr. 2011

Ég held að minn ísskápur sé óvenju kaldur svo ég er búin að auka tímann í lýsingunni upp í klukkustund til öryggis :)

Vonandi smakkast vel hjá þér :)

gudrune
21. apr. 2011

Já þetta eru rosa gott nammi, og átti að borðast um helgina, EN ég er endalaust að laumasat í eina og eina ;)
Já sennilega hefur þetta bara ekki verið orðið nógu kalt? Allavega var þetta allt annað mál eftir að deigið fékk að hvíla inní í ísskáp.

bestu kveðjur

sigrun
21. apr. 2011

Frábært :)

Jónína Dagmar
23. apr. 2011

takk fyrir þessa frábæru síðu.
ég nota mikið uppskriftir af vefnum einnig fjölskyldan og vinir. ein vinkona mín prentar út eg er búin að gera sér flotta bók með uppáhaldsuppskriftunum sínum.
þessar uppskriftir klikka aldrei. ég ætla að gera nýja konfektið
gleðilega páska

sigrun
23. apr. 2011

Gaman að heyra Jónína og takk fyrir hrósið :)

Hulda Bjornsdottir
18. okt. 2011

Sæl Sigrún og takk fyrir allar frábæru uppskriftirnar. Nú er ég að undirbúa jólin hér í Portúgal og ætla að búa til konfekt. Ég hef ekki fundið kókosolíu hér, get ég notað olivu olíu í staðin, það er nóg af henni hér? Kær kveðja, Hulda

sigrun
18. okt. 2011

Hæ Hulda

Sko...kókosolían hefur þann "kost" að hún harðnar í kulda og það þarf að bera konfektið fram kalt. Þú getur notað aðrar olíur eins og t.d. hnetuolíu (ekki ólífuolíu þó því hún hefur frekar einkennandi bragð sem kannski passar ekki alveg...en þú getur þó prófað) en gallinn er að konfektið gætið orðið of lint...... Þú gætir leyst málið með því að frysta konfektið áður en þú berð það fram (rétt til að herða það) og borið það fram hálf frosið en það er kannski ekki alveg það sem þú varst að sækjast eftir????

Vona að þetta hafi hjálpað

Kristin S
16. des. 2014

Þessir konfektmolar eru mjög góðir.
Dettur þér í hug eitthvað krydd sem væri hægt að bæta út í uppskriftina, til að gera þá aðeins "jólalegri" ?
Takk fyrir allar góðu uppskriftirnar.

sigrun
16. des. 2014

Sæl

Þú gætir notað svolítið allrahanda eða smá klípu negul, eða múskat eða kanil (eða smá klípu af öllu saman). Einnig gætirðu notað kardimommudropa (um 1 tsk í uppskriftina). Svo mætti líka nota appelsínusúkkulaði (dökkt súkkulaði með appelsínubragði). Margir möguleikar!