Pistachio- og döðlumuffins
10. júní, 2008
Ég veit ekki hvers vegna mér datt í hug pistachio muffinsar þegar ég var við miðbaug Uganda mars 2008. Kannski af því að á kaffihúsinu á miðbaug fást þeir stærstu muffinsar sem ég hef á minni ævi séð. Þeir hljóta að hafa verið bakaðir í blómapottum. Ég man að ég horfði á muffinsana (sem voru ljósbrúnir að lit) og horfði svo út á veginn þar sem hrörlegu trukkarnir voru að keyra fram hjá í rykinu og sá þar einn vörubíl fullan af grænum matoke bönunum en Ugandabúar nota þá gríðarlega mikið. Ég lagði saman tvo og tvo og fékk skrítna útkomu því hún var sú að mig langaði að búa til pistachiomuffinsa þegar ég kæmi heim , sem ég og gerði!
Þessi uppskrift er:
- Án mjólkur
Þessa uppskrift er auðvelt að gera:
- Án hneta
Pistachio- og döðlumuffins
Gerir 12 stóra muffinsa
Innihald
- 90 g döðlur, saxaðar smátt
- 60 g ósaltaðar pistachio hnetur, saxaðar smátt
- 300 g spelti
- 100 g haframjöl
- 2 tsk vínsteinslyftiduft
- 0,5 tsk salt (Himalaya eða sjávarsalt)
- 100 g rapadura hrásykur (eða annar hrásykur)
- 195 ml lífrænt framleiddur barnamatur án sykurs; epla-, peru-, eða aprikósumauk
- 2 msk kókosolía
- 150 ml sojamjólk (eða önnur mjólk)
- 1 egg
- 1 eggjahvíta
Aðferð
- Saxið pistachio hneturnar og döðlurnar smátt.
- Í stóra skál skuluð þið sigta saman spelti, haframjöl, vínsteinslyftiduft og salt. Hrærið vel og bætið haframjölinu út í.
- Í aðra skál skuluð þið hræra saman eggi, eggjahvítu, rapadura hrásykri, sojamjólk, barnamat og kókosolíu. Hrærið vel og hellið varlega út í stóru skálina.
- Hrærið afar lítið í deiginu, rétt bara til að allt haldist saman, það mega gjarnan vera kekkir. Gott er að miða við 8-10 hreyfingar með sleifinni. Deigið á að vera það blautt að það leki af sleif í stórum kekkjum og ekki t.d. það þurrt að hægt sé að hnoða það.
- Bætið döðlunum og pistachio hnetunum saman við og hrærið varlega, svona 2-3 hreyfingar eða þangað til allt hefur náð að haldast saman en alveg án þess að hræra.
- Takið til silicon muffinsform. Setjið nokkra dropa af kókosolíu í eldhúsþurrku og strjúkið holurnar að innan.
- Fyllið hverja holu nánast upp að rönd með deigi. Gott er að nota ískúluskeið.
- Bakið við 200°C í 25-30 mínútur.
Gott að hafa í huga
- Bæta má rifnum appelsínuberki við deigið sem og svolitlum kanil til að fá kryddaðra bragð.
- Ef maður notar ekki olíu eða smjör í deigið þá getur maður hvorki notað venjuleg muffins pappírsform, né muffinsbökunarplötu úr járni. Það fást sem sé ekki muffins pappírsform sem maður getur bakað í án þess að þurfa að nota smjör eða olíu í deigið. Það sem þið getið gert er að sníða hringi úr bökunarpappír. Strikið með penna utan um undirskál og klippið út. Setjið svo í hverja muffinsholu. Það er hægt að nota muffinspappírinn í allt að sex skipti. Ef þið notið silicon muffinsform þurfið þið ekki bökunarpappír.
- Nota má undanrennu, hrísmjólk, haframjólk eða möndlumjólk í staðinn fyrir sojamjólk.
- Ef kókosolían er hörð má stinga krukkunni í heitt vatn í nokkrar mínútur þar til hún verður fljótandi.
- Ég nota Hipp Organic, Organix eða Holle barnamat. Þessi merki eiga það sameiginlegt að vera lífrænt framleidd og eru ekki með viðbættum sykri.
- Í staðinn fyrir barnamat má nota eplamauk (enska: Apple sauce) úr heilsubúð eða heilsudeildum matvöruverslana.
- Ef afgangur er af barnamatnum má frysta hann í ísmolabox og nota í drykk síðar (smoothie).
- Notið hamingjuegg ef þið mögulega getið.
- Ef þið finnið einungis saltaðar pistachiohnetur getið þið skolað saltið af hnetunum og bakað í ofni við 180°C í um 10 mínútur.
Tengdar uppskriftir
© CafeSigrun 2024