Piparkökur

Búa má til piparkökukarla (og konur) og alls kyns fleiri skemmtilegar fígúrur úr þessu deigi. Einnig hentar þetta deig fyrir lítil piparkökuhús. Piparkökurnar eru ekki mjög mikið kryddaðar svo þær henta vel fyrir börnin en ef þið viljið meira kryddbragð, setjið þá 1 tsk af negul út í deigið. Ég nota líka aðeins meiri kókosolíu hér en venjulega en annars er ómögulegt að fá piparkökurnar til að liggja flatar... Segja má að piparkökufólkið sýni mótþróa ef ekki er næg fitan í þeim!!!

Þessi uppskrift er:

 • Án mjólkur
 • Án eggja
 • Án hneta
 • Vegan

Piparkökur

Gerir um 40 piparkökur

Innihald

 • 185 g spelti (gott að nota gróft og fínt til helminga)
 • 1 tsk bökunarsódi
 • 3 tsk kanill
 • 0.25 tsk múskat (e. nutmeg, má sleppa)
 • 6 msk kókosolía 
 • 115 ml hreint hlynsíróp
 • 4 msk rapadura hrásykur (eða annar hrásykur)

Aðferð

 1. Í stóra skál skuluð þið sigta saman bökunarsóda, kanil, múskat og spelti. Hrærið vel.
 2. Í aðra skál skuluð þið hræra saman hlynsírópi, hrásykri og kókosolíu. Gott er að hita á lægsta hita í potti. Hellið út í stóru skálina og hrærið öllu vel saman.
 3. Hnoðið deigið í smá stund til að allt blandist vel saman. Pakkið deiginu inn í plast og kælið í 30 mínútur eða lengur í ísskápnum.
 4. Skiptið deiginu í nokkra búta og fletjið með kökukefli eða stórri glerflösku. Deigið ætti að vera um 1 millimetri að þykkt.
 5. Ef deigið festist við borð eða kökukefli er ágætt að dreifa svolitlu spelti yfir borðið, deigið og kökukeflið.
 6. Skerið út deigið með t.d. kökuskurðarmótum (stjörnur, jólatré, piparkökukarla og konur, hjörtu o.fl.). Gott er að miða við um 5-7 sm í þvermál.
 7. Klæðið bökunarplötu með bökunarpappír og raðið kökunum á plötuna.
 8. Bakið við 180°C í um 10-12 mínútur eða þangað til kökurnar eru orðnar gullnar. Þær eru ekki grjótharðar á þessum tímapunkti en munu kólna og harðna.

Gott að hafa í huga

 • Ef kókosolían er hörð má stinga krukkunni í heitt vatn í nokkrar mínútur þar til hún verður fljótandi.
 • Ef kökurnar eru ekki harðar þegar þær hafa kólnað má baka þær í um 5 mínútur til viðbótar. Ef þær eru þykkar þurfa þær aðeins lengri tíma en ella.

Ummæli um uppskriftina

Laura Hildur Jakobsdóttir
28. nóv. 2010

sæl Sigrún mig langaði að spyrjast fyrir um piparkökurnar. Það stóð ekki hvaða hita þú notar og eru þær mjög harðar? flott síða hjá þér.Ég hef notað margar uppskriftir frá þér. Takk fyrir Laura Hidur

sigrun
28. nóv. 2010

Sæl Laura

Mér að kenna, ég gleymdi að setja hitann með. Ég baka þær við 180°C. Þær verða passlega harðar þ.e. ekki of mjúkar en ekki þannig að þær séu óþægilega harðar. Eða þær eiga að vera svoleiðis :) Ef þær verða of harða er hitinn kannski aðeins of hár eða þær bakast aðeins of lengi. Yfirleitt duga 10 mínútur en stundum eru 8 mínútur nóg ef kökurnar eru ekki mjög þykkar.

Vona að þetta hjálpi.

Kv.

Sigrún

kristbjo
07. des. 2010

komu verulega á óvart, minn 11 ára hefur ekki borðað piparkökurnar sem hann og vinur hans hafa skreytt hingað til, nú er ég ekki viss um að þær verði til nógu lengi svo hægt sé að skreyta þær ! :) Á örugglega eftir að baka aðra uppskrift fyrir jól, þá ætla ég að prófa að setja smá neglul. Takk fyrir okkur. kv. Kristín

sigrun
08. des. 2010

Reglulega gaman að heyra Kristín. Mér þykir sérstaklega vænt um það þegar börnunum líkar uppskriftirnar mínar vel því þau eru jú hörðustu dómararnir!!

Þóra Gunnlaugsdóttir
29. nóv. 2011

Bestu piparkökur sem ég hef bakað!! Geri örugglega aðra umferð fyrir jól :)

sigrun
30. nóv. 2011

Takk Þóra, gaman að heyra :) Njótið vel :)

Gyða
02. des. 2011

Er hægt mað sleppa sykrinum eða setja eitthvað annað í staðinn ? :)

sigrun
02. des. 2011

Hef ekki prófað...gætir athugað með Stevia í staðinn fyrir hrásykurinn en veit ekki hvernig það kemur út, það mun breyta áferðinni eitthvað.

GudnyT
24. nóv. 2012

Elsku Sigrún mig langar að byrja á að þakka þér fyrir að bjarga allgjörlega matartímanum á mínu heimili! eftir ferð með barnið mitt 9 ára til hómapata þá hef ég átt mjög erfitt með að fá hann til að borða nýja mataræðið allt VONT! þanngað til ég byrjaði að notast við uppskrifirnar þínar og hver ein og einast sem ég hef prufað hefur slegið í gegn.

Það var meira að segja sparinestis dagur í skólanum og bökuðum við hawaii möffins og heppnaðist það svo vel að kennarinn heimtaði uppskrift :)

Enn annars langar mig að spyrja þig út frá þessari pipaköku uppskrfit hvort þú hafir hugmynd hvernig er hægt að búa til glasúr eða eitthvað svipað til að leyfa börnunum að halda í þá hefð að mála kökurnar :) það er enginn sykur velkomminn á þetta heimili nema lífrænn. enn það er kannski hedur ekki til matarlitir sem eru ekki baneitraðir :/

Bestu þakkir Guðný og börn.

sigrun
24. nóv. 2012

Jeminn hvað er dásamlegt að heyra þetta Guðný :)

Varðandi matarliti og málun þá eru til matarlitir sem eru náttúrulegir (gerðir úr plöntum). Þeir eru fokdýrir en maður þarf jú afar, afar lítið af þeim:

http://www.indiatree.com/Category_Page.php?0&Category=NC

http://www.naturesflavors.com/index.php/food-color-food-colors.html

Varðandi flórsykurskremið þá er hann öllu meira vandamál. Það er hægt að fá hérna í heilsubúðunum úti lífrænt framleiddan flórsykur en hann er jú engu að síður hreinn, hvítur sykur. Spurningin er hvort maður ekki notað stíft cashewmauk eða jafnvel möndlusmjör og blandað það með lit og sprautað svo. Það mun reyndar ekki harðna en mesta fjörið er nú yfirleitt að mála frekar en að borða ;) Ég á eftir að gera tilraunir á þessu í framtíðinni, það er alveg pottþétt.

Soley E
18. des. 2012

Er hægt að setja eitthvað í staðin fyrir bökunarsóda ?
Eða má sleppa honum ?

sigrun
18. des. 2012

Hef aldrei prufað að sleppa honum. Það væri kannski hægt að nota vínsteinslydtiduft en það þyrfti þá að nota alveg um 2 tsk sem gæti gefið rammt bragð?