Piparkökur

Ég skora á ykkur að baka þessar og segja engum að þær séu glúteinlausar. Ég get alveg staðfest það hér með að þeir fordómar sem ég hafði haft gagnvart glúteinlausum piparkökum eru hér með flognir burt. Piparkökurnar voru smá tilraun sem heppnaðist bara ansi vel. Þær eru kryddaðar og með svolitlum appelsínukeim en það má sleppa appelsínunum ef þið viljið. Piparkökurnar fara vel í maga og það eru engar dýraafurðir í piparkökunum. Þær henta vel þeim sem eru jurtaætur (enska: vegan), þeim sem hafa mjólkuróþol, eggjaóþol, hnetuóþol og glúteinóþol.

Þessi uppskrift er:

  • Án glúteins
  • Án mjólkur
  • Án eggja
  • Án hneta
  • Vegan

Piparkökur

Gerir 20-25 stykki

Innihald

  • 1 tsk appelsínubörkur, rifinn fínt á rifjárni
  • 160 g hrísmjöl (enska: rice flour)
  • 1 tsk vínsteinslyftiduft
  • 1/4 tsk bökunarsódi
  • 1 tsk kanill
  • 0,5 tsk negull (enska: cloves)
  • 4 msk kókosolía
  • 70 g rapadura hrásykur (eða annar hrásykur)
  • 50-100 ml sojamjólk (eða önnur mjólk)

 

Aðferð

  1. Rífið appelsínubörkinn fínt á rifjárni. Gætið þess að rífa aðeins appelsínugula hlutann, ekki þann hvíta.
  2. Í stóra skál skuluð þið sigta saman; hrísmjöl, lyftiduft, bökunarsóda, kanil og negul. Bætið appelsínuberkinum út í og hrærið vel.
  3. Í aðra skál skuluð þið hræra saman kókosolíu, 50 ml af sojamjólk og rapadura hrásykri þannig að úr verð mjúk blanda. Hellið út í stóru skálina og hrærið vel. Ef deigið er mjög þurrt bætið þá meira af sojamjólk út í.
  4. Hnoðið deigið í stóra kúlu. Skiptið deiginu í 4 hluta og mótið pylsur í höndunum. Pakkið pylsunum inn í plastfilmu og setjið í ísskápinn. Geymið í klukkustund eða yfir nótt.
  5. Setjið bökunarpappír á bökunarplötu. Skerið pylsurnar í 1-1,5 sm bita og raðið á bökunarplötuna.
  6. Mótið bitana aðeins ef þarf (þannig að þeir verði kringlóttari).
  7. Bakið við 180°C í um 15 mínútur.

Gott að hafa í huga

  • Kökurnar ættu að vera stökkar að utan og mýkri að innan.
  • Nota má undanrennu, hrísmjólk, haframjólk eða möndlumjólk í staðinn fyrir sojamjólk.
  • Ef kókosolían er hörð má stinga krukkunni í heitt vatn í nokkrar mínútur þar til hún verður fljótandi.
  • Athugið að smákökurnar eru bestar nýbakaðar. Frystið þær smákökur sem þið borðið ekki samdægurs og hitið svo upp síðar. Þær verða eins og nýbakaðar.

Ummæli um uppskriftina

m.brynjars
16. feb. 2013

Sæl
Hvað gæti ég notað í stað hrísmjöls? Er nefnilega með glúten, majs og hnetu óþol. Hef möguleika á boghveiti, kókos"hveiti" og öðru í þeim dúr... Einhverjar hugmyndir?

Kkv

sigrun
16. feb. 2013

Máttu ekki nota hrísmjöl? Þ.e. þú telur upp glútein, maís og hnetur en ekki hrísmjöl.

Þú gætir notað hefðbundið glúteinlaust hveiti með tapioca mjöli, kjúklingabaunamjöli o.fl. (t.d. frá Doves)? Eða hefurðu prófað Red Mill glúteinlausa mjölið? Hef ekki prufað kókoshveiti í þessar og er svolítið efins um að þær myndu virka. Bókhveiti gæti virkað en bragðið er svolítið spes.

sigrun
16. feb. 2013

Máttu ekki nota hrísmjöl? Þ.e. þú telur upp glútein, maís og hnetur en ekki hrísmjöl.

Þú gætir notað hefðbundið glúteinlaust hveiti með tapioca mjöli, kjúklingabaunamjöli o.fl. (t.d. frá Doves)? Eða hefurðu prófað Red Mill glúteinlausa mjölið? Hef ekki prufað kókoshveiti í þessar og er svolítið efins um að þær myndu virka. Bókhveiti gæti virkað en bragðið er svolítið spes.

m.brynjars
16. feb. 2013

Takk fyrir hjálpina, prófa mig áfram, en jú má ekki nota hrísmjöl, taldi bara hitt upp líka svo þú færir ekki að benda á slíkar sortir :)

Kkv

sigrun
16. feb. 2013

Já ég skil, ég misskildi aðeins :) Ég myndi prófa mig áfram með bókhveiti og kjúklingabaunamjöl og jafnvel tapioca eða kartöflumjöl...það er yfirleitt góð blanda fyrst þú getur ekki notað hrísmjöl.