Peru- og engifersafi

Þessi safi er afar hreinsandi og vítamínríkur þar sem perur innihalda helling af&;C vítamíni. Til dæmis inniheldur ein pera 11% af ráðlögðum dagskammti af C vítamíni (og sama gildir um kopar). Perur innihalda einnig mikið af trefjum (þó aðallega í hýðinu) sem og andoxunarefnum. Engiferið er álíka frábært því það er gott fyrir meltinguna og sumir segja að engifer hafi bólgueyðandi áhrif hjá þeim sem hafa gigt. Það er einnig talið hafa hamlandi áhrif&;gegn myndum&;krabbameins. Engifer er líka mjög gott fyrir ónæmiskerfið og hjálpar okkur þegar við erum með kvef og hálsbólgu. Það er að lokum afar gott fyrir þá sem þjást af ógleði, t.d. fyrir ófrískar konur. Sem sagt algjör galdradrykkur og er einstaklega frísklegur og góður. Þennan drykk má gera í safapressu en ef þið eigið ekki slíka græju getið þið maukað perurnar í blandara og rifið engiferið mjög smátt út í. Rífið fyrst pínulítið og bætið svo út í ef þið viljið sterkara engiferbragð. Drykkurinn verður þó mun þykkari (og trefjaríkari) en ef hann fer í gegnum safapressu og þið getið þynnt með svolitlum epla- eða appelsínusafa.

Þessi uppskrift er:

  • Án glúteins
  • Án mjólkur
  • Án eggja
  • Án hneta
  • Vegan
  • Hráfæði

Peru- og engifersafi

Fyrir 2

Innihald

  • 2 vel þroskaðar perur, þvegnar, kjarnhreinsaðar og skornar í stóra bita
  • 2 sm bútur ferskt engifer
  • Nokkrir ísmolar

Aðferð

  1. Þvoið peruna, kjarnhreinsið og skerið í stóra bita. Setjið perurnar í safapressu (eða blandara).
  2. Setjið engiferið í safapressuna (eða rífið á rifjárni þannig að safinn leki út í perumaukið í blandaranum).
  3. Setjið 1 ísmola í hvert glas.
  4. Þynnið með eplasafa ef þið viljið þynnri drykk (þ.e. ef hann er útbúinn í blandara).
  5. Berið fram ískalt.

Gott að hafa í huga

  • Ef þið gerið drykkinn í blandara má afhýða peruna fyrir mýkri áferð. Einnig má sigta vökvann í gegnum fíngata sigti.
  • Nota má epli á móti perunni.