Pecanhnetu- og cashewmaukskökur
Ferlega góðar og öðruvísi kökur sem gaman er að bjóða upp á t.d. í matar- eða saumaklúbbnum. Þær eru afar saðsamar enda fullar af hollustu. Ef þið fáið kakónibbur (cacao nibs) bætið þið aldeilis við hollustuna því þær eru pakkfullar af andoxunarefnum enda bara muldar kakóbaunir og ekkert annað. Í pecanhnetum og cashewhnetum er holl fita sem á að hjálpa til við að halda hjartanu heilbrigðu.  Athugið að kökurnar þurfa að stífna í ísskápnum í nokkrar klukkustundir áður en þær eru borðaðar. Kökurnar henta vel þeim sem hafa mjólkur- og/eða glúteinóþol. Gaman er að skreyta kökurnar með söxuðum jarðarberjum, bláberjum eða öðrum berjum og ávöxtum.
Nauðsynlegt er að eiga matvinnsluvél eða góðan blandara til að gera kökurnar. Ég notaði heimatilbúið cashewhnetumauk en hægt er að kaupa það í heilsubúðum. Það er hræðilega dýrt svo ég mæli með að búa það til sjálf enda ekkert mál.
Litlar hnetukökur með cashewmauksfyllingu, sérdeilis góðar
Þessi uppskrift er:
- Án glúteins
- Án mjólkur
- Án eggja
- Vegan
- Hráfæði
Pecanhnetu- og cashewmaukskökur
Innihald
Skeljar:
- 60 g döðlur, saxaðar gróft og lagðar í bleyti í 20 mínútur
- 100 g pecanhnetur, fínmalaðar
- 110 g möndlur, fínmalaðar
Fylling
- 100 g cashewhnetur eða cashewhnetumauk
- 1 banani
- 4 msk agavesíróp
- 2 msk kókosolía
- 3 msk kakónibbur (cacao nibs), má sleppa
Aðferð
- Byrjið á fyllingunni:
- Setjið cashewhnetur í matvinnsluvélina og maukið í um mínútu eða þangað til hneturnar eru mjög fínt malaðar/maukaðar. Skafið hliðar matvinnsluvélarinnar og bætið banana og agavesírópi út í. Blandið áfram í um 30 sekúndur. Skafið hliðarnar aftur og setjið vélina af stað. Á meðan vélin vinnur skuluð þið hella kókosolíunni varlega út í. Maukið í um 10 sekúndur. Setjið í skál með plastfilmu yfir og geymið í ísskápnum í a.m.k. 2-3 klukkustundir.
- Saxið döðlurnar gróft og leggið í bleyti í 20 mínútur.
- Setjið möndlur í matvinnsluvélina og malið í um 20 sekúndur eða þangað til nokkuð fínt malaðar án þess að verða maukaðar. Bætið pecanhnetum út í og malið áfram í um 10 sekúndur eða þangað til hneturnar eru fínt saxaðar.
- Hellið vatninu af döðlunum og setjið þær í matvinnsluvélina. Blandið í um 20 sekúndur eða þannig að deigið verði grófkornótt og límist vel saman ef maður klípur það á milli fingranna (ekki of maukað samt).
- Notið lítil silíkon form eða klæðið lítil járnform að innan með plastfilmu.
- Þrýstið blöndunni ofan í botninn og alveg upp á hliðarnar. Skelin verður að vera ágætlega þykk til að halda fyllingunni. Geymið í ísskápnum.
- Takið skeljarnar úr ísskápnum, takið úr formunum og setjið skeljarnar á disk.
- Hellið blöndunni út í eða notið sprautupoka til að sprauta fyllingunni í skeljarnar.
- Geymið í ísskáp í um klukkustund.
- Dreifið kakónibbunum yfir hverja og eina köku.
- Berið kökurnar fram kaldar.
Gott að hafa í huga
- Nota má valhnetur í staðinn fyrir pecanhnetur.
- Nota má vel þroskað mango (vel maukað) í staðinn fyrir banana.
- Ef kókosolían er hörð má stinga krukkunni í heitt vatn í nokkrar mínútur þar til hún verður fljótandi.
- Nota má hreint hlynsíróp (enska: maple syrup) í staðinn fyrir agevesíróp.
- Cashewhnetumauk fæst í heilsubúðum en er afar dýrt.
Ummæli um uppskriftina
13. okt. 2013
;[i