Pasta með reyktum laxi og spínati

Fyrir ykkur sem ekki veiðið (og reykið) fiskinn sjálf þá er auðvelt að kaupa reyktan fisk í flestum verslunum (bæði silung og lax). Passið bara að kaupa ólitaðan fisk og best er auðvitað að kaupa villtan fisk. Bæði lax og silungur innihalda omega 3 fitusýrur sem eru nauðsynlegar fyrir bæði liði og sellurnar í hausnum (svo við töpum þeim nú ekki alveg he he). Spínat inniheldur járn og meira að segja á pipar að koma jafnvægi á blóðsykurinn! Sem sagt alveg ágætlega hollur réttur. Upphaflega var víst smjör og rjómi í upppskriftinni en hægt er að nota matreiðslurjóma og jafnvel sýrðan rjóma (án gelatíns). Ég nota alltaf heilmalað speltpasta en hægt er að nota pasta úr heilhveiti. Já þessa uppskrift fékk ég hjá Borgari bróður mínum og Elínu konunni hans, sem eru bæði snilldarkokkar. Þau fengu uppskriftina hjá hippalegri danskri konu þegar þau bjuggu í Danmörku! Þetta er afar ljúffengur réttur og má borða hann bæði heitan og kaldan (sem kalt pastasalat) og er frábær í nestisboxið.


Einfaldur og ljúffengur pastaréttur

Þessi uppskrift er:

  • Án eggja
  • Án hneta

Þessa uppskrift er auðvelt að gera:

  • Án glúteins
  • Án mjólkur

Pasta með reyktum laxi og spínati

Fyrir 3-4

Innihald

  • 500 g ósoðnar spelt pastaskeljar eða skrúfur
  • 250-300 g reyktur lax eða silungur
  • 1 tsk kókosolía
  • 2 hvítlauksrif
  • 100-150 g frosið spínat (kreistið vatnið úr)
  • 0,5 tsk múskat (e. nutmeg)
  • 0,5 tsk svartur pipar
  • 100 ml matreiðslurjómi
  • 50 ml sýrður rjómi án gelatíns (10%)
  • 40 g ferskur parmesanostur (30 g fara í sósuna)

Aðferð


  1. Sjóðið pastað samkvæmt leiðbeiningum á umbúðum og kælið (setjið undir kalt, rennandi vatn í nokkrar sekúndur).
  2. Afhýðið hvítlaukinn og merjið.
  3. Hitið kókosolíu í potti. Hitið hvítlaukinn í kókosolíunni í 3-5 mínútur.
  4. Bætið spínatinu út í ásamt múskati og pipar).
  5. Hitið matreiðslurjómann og sýrða rjómann ef hann er notaður.
  6. Rífið parmesanostinn, setjið hann út í og látið malla þangað til sósan fer að þykkna.
  7. Roðflettið laxinn ef þarf og skerið hann í smáa bita (eins og stóra sykurmola) og bætið út í pottinn. Hitið í 2-3 mínútur.
  8. Hellið pastanu út í ásamt svolítið meira af pipar ef þið viljið og hitið í nokkrar mínútur.
  9. Berið fram með ferskum parmesanosti og svörtum pipar.

Gott að hafa í huga

  • Nota má silung í staðinn fyrir lax.
  • Ef þið hafið glúteinóþol getið þið notað hýðishrígrjón eða bygg í staðinn fyrir pasta.
  • Í staðinn fyrir speltpasta getið þið notað heilhveitipasta.
  • Ef þið hafið mjólkuróþol getið þið notað hafrarjóma og sojaost.
  • Ef kókosolían er hörð má stinga krukkunni í heitt vatn í nokkrar mínútur þar til hún verður fljótandi.