Pasta með reyktum laxi eða silungi
1. nóvember, 2003
Þetta er æðislega góð uppskrift. Ég nota yfirleitt reyktan silung úr Slíðdalstjörn í Borgarfirði (vatninu sem foreldrar mínir og fleiri eru með á leigu). Hamingjusamari og lífrænni fiskur er varla til. Þarna borða fiskarnir ekkert nema gróður og flugur og hvergi í kringum þá eru bílar né rafmagn eða annað sem truflar þeirra tilveru! Passið bara ef þið kaupið fisk út úr búð að hann sé ekki litaður með litarefnum (til að gera hann rauðan).
Þeir sem eru með mjólkuróþol geta skipt út mjólkurvörum og notað sojaafurðir í staðinn. Einnig er auðvelt er að gera þennan rétt glúteinlausan með því að nota glúteinlaust pasta eða hýðishrísgrjón.
Þessi uppskrift er:
- Án eggja
- Án hneta
Þessa uppskrift er auðvelt að gera:
- Án mjólkur
Pasta með reyktum laxi eða silungi
Fyrir 3-4
Innihald
- 1 msk kókosolía
- 1 laukur, saxaður
- 1 lítil, rauð paprika, söxuð
- 2 hvítlauksrif, marin
- 100 ml matreiðslurjómi eða 5% sýrður rjómi (frá Mjólku en hann er án gelatíns)
- 100 ml léttmjólk
- 0,5 tsk timian
- 0,5 svartur pipar (mér finnst gott að hafa svolítið mikið af pipar)
- 40 g ferskur parmesan, rifinn
- 450 g reyktur lax eða silungur (villtur og ólitaður), skorinn í 1 sm búta
- 5 dl ósoðnar pastaskrúfur eða rör (spelti)
Aðferð
- Afhýðið laukinn og skerið í smáa bita.
- Afhýðið hvítlaukinn og merjið eða saxið mjög sátt.
- Skerið paprikuna í helminga og skafið fræin úr. Saxið paprikuna smátt.
- Rífið ostinn.
- Hitið kókosolíuna á djúpri pönnu og mýkið laukinn við meðalhita.
- Bætið paprikunni og hvítlauknum út á pönnuna og látið krauma í 2-3 mínútur.
- Hækkið hitann og hellið matreiðslurjómanum eða sýrða rjómanum og mjólkinni yfir grænmetið ásamt kryddinu.
- Látið suðuna koma upp, lækkið hitann og bætið ostinum út í.
- Látið krauma í 5 mínútur við vægan hita eða þar til sósan fer að þykkna.
- Bætið laxinum út í sósuna og hitið í 1-2 mínútur. Þynnið sósuna með mjólk ef hún er of þykk. Ef hún er hins vegar ekki nægilega þykk má þykkja hana aðeins með maísmjöli.
- Látið malla við vægan hita í 10 mínútur.
- Á meðan sósan mallar, sjóðið þá pastaskrúfurnar samkvæmt leiðbeiningum á umbúðum.
- Hellið vatninu af og hellið sósunni yfir pastað. Hitið í smástund.
Gott að hafa í huga
- Ef þið hafið glúteinóþol getið þið notað hýðishrígrjón eða bygg í staðinn fyrir pasta.
- Í staðinn fyrir speltpasta getið þið notað heilhveitipasta.
- Ef þið hafið mjólkuróþol getið þið notað hafrarjóma og sojaost.
- Ef kókosolían er hörð má stinga krukkunni í heitt vatn í nokkrar mínútur þar til hún verður fljótandi.
- Nota má aðra olíu en kókosolíu, t.d. vínberjakjarnaolíu eða repjuolíu.
Tengdar uppskriftir
© CafeSigrun 2024
Ummæli um uppskriftina
16. sep. 2014
Ummm