Papaya- og bananahristingur

Ég átti papaya sem var á leiðinni að skemmast svo ég ákvað að skera það í bita og frysta það. Var reyndar ekki viss um hvort yrði í lagi með það en ákvað að prófa og notaði í „hristing”. Hristingurinn var rosalega góður enda næringarríkur og frískandi, næstum eins og „hollur sjeik.” Það eru til mörg hundruð afbrigði af papaya og þau sem fást t.d. á Íslandi og í Bretlandi eru nokkuð góð. Á ótalmörgum ferðalögum til Afríku hef ég örugglega þúsund sinnum reynt að borða papaya en skyrpi þeim alltaf út úr mér. Þau bragðast eins og gubb og lykta eins og ká ú ká ú err (girnileg lýsing?). Veit ekki hvers vegna það papaya sem ég hef smakkað þar um slóðir er alltaf svona vont því allir aðrir ávextir eru dásamlegir.

Athugið að þið þurfið að frysta papayabitana í nokkrar klukkustundir. Athugið einnig að þið þurfið blandara til að útbúa þessa uppskrift.

Uppskriftin er mjög stór svo minnkið hana um helming ef hún á að vera fyrir tvo (eða frystið afgang í ísmolabox ef einhver er).


Hressandi og nærandi drykkur með papaya

Þessi uppskrift er:

  • Án glúteins
  • Án mjólkur
  • Án eggja
  • Án hneta
  • Vegan

Papaya- og bananahristingur

Fyrir 3-4

Innihald

  • 1 vel þroskað papaya, afhýtt og fræhreinsað, skorið í bita og fryst
  • 200 ml hreinn appelsínusafi
  • 3 bananar, vel þroskaðir
  • 250 ml sojajógúrt (eða jógúrt að eigin vali)
  • 1 msk hlynsíróp eða 3 steviadropar

Aðferð

  1. Afhýðið papaya, fræhreinsið og skerið í bita. Setjið í frystinn í nokkrar klukkustundir.
  2. Setjið papayabitana í blandarann ásamt 50 ml af appelsínusafa. Blandið í um 5 sekúndur.
  3. Bætið bönunum, sojajógúrti, afganginum af appelsínusafanum og hlynsírópi út í og blandið í 10 sekúndur eða þangað til mjúkt.
  4. Hellið í há glös og berið fram strax, gjarnan með röri.

Gott að hafa í huga

  • Einnig má nota mango í þennan drykk.
  • Frystið afgang í ísmolabox og notið fyrir hristing síðar.
  • Nota má sojamjólk, undanrennu, hrísmjólk, haframjólk eða möndlumjólk í staðinn fyrir sojajógúrt ogg verður drykkurinn þá þynnri.