Palak Koftas (Kryddaðar spínatbollur)

Þetta er indversk uppskrift og nokkuð flókin en alltaf gaman að prófa eitthvað nýtt og spennandi!!! Bollurnar eru frekar bragðmildar og henta því vel fyrir alla fjölskylduna. Bollur sem þessar eru yfirleitt djúpsteiktar en við gerum nú ekki svoleiðis hér á bæ og því eru þær bakaðar að hætti CafeSigrun.

Athugið að ef þið kaupið cashewhnetumauk, þurfið þið ekki matvinnsluvél fyrir þessa uppskrift. Cashewhnetumauk er rándýrt en geymist vel í ísskáp. Kjúklingabaunamjöl og cashewhnetumauk fást í heilsubúðum og stærri matvöruverslunum (heilsudeildunum).

Þessi uppskrift er:

  • Án glúteins
  • Án mjólkur
  • Án eggja
  • Vegan

Palak Koftas (Kryddaðar spínatbollur)

Fyrir 3-4

Innihald

Sósan:

  • 0,5 tsk cumin fræ, heil (ekki kúmen)
  • 1 laukur, afhýddur og saxaður
  • 1 sm bútur ferskt engifer, rifið eða saxað fínt
  • 1 hvítlauksrif, afhýtt og saxað smátt
  • 1 tsk kókosolía 
  • 2 msk cashewhnetur (eða cashewhnetumauk)
  • 0,5 tsk turmeric
  • 1 tsk chili pipar
  • Salt (Himalaya eða sjávarsalt) eftir smekk 
  • 240 g tómatar, saxaðir (ferskir eða úr dós)
  • 100 ml vatn (byrjið með 50 ml)
  • 1 tsk ferskt coriander, saxað smátt

Bollurnar:

  • 175 g frosið spínat (vatnið kreist úr)
  • 1 msk birkifræ (enska: poppy seeds)
  • 2 msk cashewhnetur, malaðar gróft
  • 0,5 tsk coriander
  • 0,5 tsk cumin (ekki kúmen)
  • 0,5 tsk chili pipar
  • 1 tsk salt (Himalaya eða sjávarsalt)
  • 100 g kjúklingabaunamjöl (enska: gram flour / chickpea flour)
  • 140 g kartöflumjöl (eða spelti)

Aðferð

Bollurnar:

  1. Kreistið allt vatn úr spínatinu og saxið gróft (ef þarf). Setjið í stóra skál.
  2. Setjið birkifræ og cashewhnetur í matvinnsluvél ásamt nokkrum matskeiðum af vatni. Maukið í nokkrar sekúndur. Færið yfir í stóru skálina.
  3. Bætið coriander, cumin, chili pipar, salti, kjúklingabaunamjöli og kartöflumöli saman við og hrærið mjög vel.
  4. Skiptið blöndunni í 8 hluta og mótið bollur í höndunum.
  5. Setjið bökunarpappír á bökunarplötu og raðið bollunum á plötuna.
  6. Bakið við 200°C í um 20 mínútur.

Sósan:

  1. Ef þið notið ekki cashewhnetumauk skuluð þið byrja á því að mauka cashewhneturnar í matvinnsluvél. Malið þær með nokkrum matskeiðum af vatni þangað til þær eru orðnar að mauki.
  2. Afhýðið lauk, engifer og hvítlauk og saxið smátt.
  3. Saxið corianderlaufin smátt.
  4. Þurrsteikið cumin fræin í 10-15 sekúndur á heitri pönnu (án olíu). Setjið til hliðar.
  5. Setjið kókosolíuna á pönnuna og steikið laukinn þangað til hann er orðinn mjúkur (7-10 mínútur). Ef vantar meiri vökva á pönnuna bætið þá vatni við.
  6. Bætið engiferi, hvítlauk, cashewmauki, turmerici, coriander chili pipar og salti við. Hitið í um 2-3 mínútur.
  7. Bætið söxuðu tómötunum við og hitið í 8-10 mínútur. Bætið 50 ml af vatni út í og látið krauma. Bætið við meira vatni ef þarf.
  8. Áður en maturinn er borinn fram, setjið þá bollurnar og cuminfræin út í sósuna og hitið í nokkrar mínútur.
  9. Skreytið með corianderlaufum.

Gott að hafa í huga

  • Það er mjög gott að bera fram raita jógúrtsósu með þessum rétti sem og chapati og mangomauk (mango chutney). Einnig passa hýðishrísgrjón og bygg vel með réttinum.
  • Cashewhnetumauk er hægt að kaupa í stærri matvöruverslunum (í heilsuhillunum) og í heilsubúðum. Þó að það sé mjög dýrt, geymist það lengi. Til að gera ykkar eigið cashewhnetumauk getið þið blandað saman kókosolíu og cashewhnetum í matvinnsluvél þangað til vel maukað.
  • Kjúklingabaunamjöl fæst í heilsubúðum.
  • Ef kókosolían er hörð má stinga krukkunni í heitt vatn í nokkrar mínútur þar til hún verður fljótandi.
  • Nota má aðra olíu en kókosolíu, t.d. vínberjakjarnaolíu eða repjuolíu.