Paella með hýðishrísgrjónum

Árið 2000, í ágústmánuði vorum við Jóhannes stödd í litlu, spænsku fjallaþorpi sem heitir Mijas. Þetta var síðasta kvöldið okkar í þessari ferð, veðrið var æðislegt (það var um 40 stiga hiti um daginn en það var farið að rökkva sem betur fer). Við vorum staurblönk, áttum ekki eina krónu, vorum bæði í námi og rétt gátum nurlað saman fyrir einum Paella rétti (sem er eins konar þjóðarréttur Spánverja). Hann var hverrar pesetu virði get ég sagt ykkur. Við borðuðum úti, og horfðum upp á Páskakirkjuna (sem er bara opin á páskunum) sem var í fjallshlíðinni skammt frá. Þaðan er hægt að horfa alla leið yfir til Afríku ef skyggnið er gott. Við vorum að hugsa um að fara og veifa Borgari bróður og fjölskyldu sem við vissum að voru í Afríku þá stundina. Kannski ekki víst að þau hefðu séð okkur! En nóg um það, hérna er hollari útgáfa af Paella.

Þessi uppskrift er:

  • Án glúteins
  • Án mjólkur
  • Án eggja
  • Án hneta

Paella með hýðishrísgrjónum

Fyrir 2

Innihald

  • Hálfur laukur, saxaður smátt
  • 2 hvítlauksrif, saxaður smátt
  • 1 paprika, skorin í mjóa strimla
  • 1 msk kókosolía
  • 2-3 saffran þræðir
  • 2,5 dl hýðishrísgrjón (ósoðin)
  • 1 gerlaus grænmetisteningur
  • 450 ml vatn
  • 1-2 msk tamarisósa
  • Hálfur grillaður (helst) kjúklingur í bitum
  • 100 g rækjur
  • 35 gr kræklingur
  • 20 g svartar ólífur (Kalamata ef þær fást)
  • Salt (Himalaya eða sjávarsalt) og svartur pipar eftir smekk
  • 0,25 tsk turmeric
  • 0,25 tsk karrí
  • 1 sítróna skorin í báta

Aðferð

  1. Afhýðið lauk og hvítlauk og saxið smátt (merjið hvítlaukinn eða saxið mjög smátt).
  2. Skerið paprikur í helminga, fræhreinsið og skerið í mjóa strimla.
  3. Hitið kókosolíu í djúpri pönnu.
  4. Bætið lauk og papriku út í og mýkja í nokkrar mínútur. Ef þarf meiri vökva bætið þá vatni út á pönnuna.
  5. Bætið hrísgrjónum (ósoðnum) út á pönnuna ásamt saffrani og blandið vel.
  6. Hellið vatninu yfir og kryddið með salti og pipar, karrí og turmeric.
  7. Hrærið grænmetisteningnum saman við.
  8. Setjið lok á pönnuna og látið malla í 20-30 mínútur eða þangað til grjónin eru orðin soðin.
  9. Á meðan skuluð þið grilla kjúklinginn (skinnið ekki notað) eða steikja hann. Steikið á pönnu með 1 tsk kókosolíu og vatni.
  10. Rífið kjúklinginn í strimla og bætið honum saman við.
  11. Bætið kræklingi, ólífum og rækjum út í og hitið í 10 mínútur en sjóðið ekki.

Gott að hafa í huga

  • Berið fram með sítrónubátum og snittubrauði.
  • Nota má meiri kjúkling í stað sjávarréttanna. Einnig má sleppa kjúklingnum og nota einungis sjávarrétti í staðinn.
  • Ef kókosolían er hörð má stinga krukkunni í heitt vatn í nokkrar mínútur þar til hún verður fljótandi.
  • Nota má aðra olíu en kókosolíu, t.d. vínberjakjarnaolíu eða repjuolíu.
  • Gerlausir grænmetisteningar fást í heilsubúðum og stærri matvöruverslunum.
  • Ef þið eruð ekki viðkvæm fyrir geri getið þið notað venjulega, lífrænt framleidda grænmetisteninga
  • Notið „hamingjusaman kjúkling” (free range) ef þið mögulega getið.
  • Nota má sojasósu í staðinn fyrir tamarisósu en athugið að sojasósan inniheldur hveiti.