Pad Thai núðlur
Þessa uppskrift gerði ég fyrst í desember 2005. Ástæðan fyrir því að ég man það svona vel er að ég stóð við eldavélina í London draghölt í umbúðum enda nýbúin í hnéaðgerð. Á þessum tíma var líka að sniglast heima hjá okkur Paul balletsmiður (stórskrýtin, fyrrverandi balletdansari en núverandi smiður) sem var að laga hurðina að íbúðinni en henni hafði verið rústað í innbroti (öllu dótinu okkar var stolið, 2 nýjum fartölvum, nýrri, rándýrri myndavél með 2 dýrum linsum, ipod o.fl., o.fl.). Þetta voru ekki alveg bestu dagar lífs míns og þess vegna ákvað ég að búa til eitthvað sérlega staðgott og nærandi þegar ég hafði loksins heilsu til. Mér fannst ég alveg eiga það skilið. Paul og Jóhannes smjöttuðu báðir á núðlunum og fannst þær rosa góðar. Ég man að Paul sagði Wow Johannes this meal Sigrun made with her fair hands eitthvað sem Shakespeare hefði alveg getað misst út úr sér (held ég). Það hafa nú liðið 2,5 ár og ég er fyrst að gera þessa uppskrift aftur núna. Fyrir það fyrsta mæli ég ekki með því að gera pad thai núðlur þegar maður er nýbúinn í hnéaðgerð því uppskriftin tekur langan tíma í undirbúning. Í öðru lagi hefur mig ekki langað að borða núðlurnar síðan því þær minna mig á innbrot, sársauka, uppköst, mígreni og vanlíðan. Ég hlýt að vera komin yfir það þar sem það eina sem ég hugsaði þegar ég var að borða núðlurnar í kvöld var namm! Ég mæli með því að gera uppskriftina annað hvort þegar þið eigið frídag eða vera búin að skera niður grænmetið deginum áður. Það má nota annað hvort rækjur eða kjúkling fyrir þá sem það vilja en ég hef líka notað bara marinerað tofu. Það er hægt að gera pad thai núðlur mjög óhollar en þetta er hollari útgáfa. Það er misskilningur að maður þurfi mikla fitu til að búa til svona núðlur því einungis 1-2 tsk af kókosfeiti duga alveg á móti vatni. Einnig þarf ekki að nota salthnetur og maður þarf heldur ekki hvítan sykur.
Auðvelt er að gera réttinn glúteinlausan með því að nota hrísgrjónanúðlur. Þeir sem hafa ofnæmi fyrir hnetum og fræjum geta einnig sleppt hnetunum og sesamolíunni.
Verulega hollur og seðjandi matur
Þessi uppskrift er:
- Án glúteins
- Án mjólkur
Pad Thai núðlur
Innihald
- 200 g soba núðlur (úr bókhveiti) eða hrísgrjónanúðlur
- 1 tsk kókosolía og vatn til viðbótar ef þarf
- 1 tsk sesamolía
- 2 hvítlausgeirar, saxaðir smátt
- 4 vorlaukar (þessir löngu og mjóu), saxaðir skáhallt í 1 sm bita. Ég saxa nánast allt nema bláendana
- 1 rauður chili pipar, fræhreinsaður og saxaður smátt
- 100 g sveppir, sneiddir í þunnar sneiðar
- 2 eggjahvítur og 1 heilt egg
- 150 g stíft tofu, skorið í ræmur
- 50 g saxaðar, ristaðar hnetur (t.d. jarðhnetur, ósaltaðar)
- 50 g baunaspírur
- 500 g kjúklingur eða 400 g rækjur
- 3 msk agavesíróp eða hreint hlynsíróp
- 60 ml fiskisósa (Nam Plah)
- 2 msk hrísgrjónaedik
- Tamarisósa eftir smekk
Aðferð
- Sjóðið núðlurnar samkvæmt leiðbeiningum á umbúðum og setjið svo undir rennandi kalt vatn. Setjið til hliðar.
- Afhýðið hvítlaukinn og saxið smátt.
- Skerið chili piparinn langsum, fræhreinsið og saxið smátt.
- Skerið vorlaukinn skáhallt í 1 sm bita.
- Þerrið tofuið með eldhúspappír og skerið í ræmur (eins og mjór fingur að breidd).
- Hitið pönnu (án olíiu) og setjið jarðhneturnar (án hýðis) á pönnuna. Hitið í 3-5 mínútur. Setjið í skál, skvettið nokkrum dropum af tamarisósu strax á hneturnar. Látið hneturnar þorna og saxið þær svo.
- Hitið wok pönnu (eða djúpa, stóra pönnu) þannig að rjúki af henni. Setjið kókosolíu á pönnuna og bætið við vatni ef þarf.
- Hrærið eggið og eggjahvíturnar létt saman við 1 tsk tamarisósu. Hellið út á pönnuna og steikið við mikinn hita eða þangað til eggin eru orðin stíf. Bútið niður ef þarf. Setjið til hliðar.
- Steikið tofuið upp úr tamarisósu og 1 tsk kókosolíu og vatni ef þarf þangað til tofuið er orðið vel brúnt og næstum stökkt. Setjið til hliðar.
- Steikið sveppina vel upp úr vatni þangað til þeir verða mjög dökkir og setjið til hliðar.
- Steikið hvítlaukinn og chillipiparinn ásamt vorlauknum upp úr vatni og setjið svo til hliðar.
- Steikið kjúklinginn ef hann er notaður í smá kókosolíu og vatni (án skinnsins) og setjið til hliðar. Kælið og rífið í strimla.
- Blandið saman í litla skál; agavesírópi eða hlynsírópi, fiskisósu, hrísgrjónaediki og smá slettu af tamarisósu. Hrærið vel og setjið til hliðar.
- Hitið pönnuna þangað til að fer að rjúka af henni. Setjið smá vatn á pönnuna.
- Setjið eggin, sveppina, hvítlaukinn, chili piparinn, vorlaukinn og kjúklinginn ef hann er notaður, á pönnuna.
- Bætið tofuinu við og ef rækjur (en ekki kjúklingur) eru notaðar, bætið þeim þá við hér.
- Bætið baunaspírunum við ásamt hnetunum.
- Bætið núðlunum saman við og steikið í nokkrar mínútur.
- Hellið nú fiskisósublöndunni yfir og steikið áfram þangað til allt er við það að brenna.
- Setjið nokkra dropa af sesamolíu yfir núðlurnar.
- Berið fram strax.
Gott að hafa í huga
- Hægt er að flýta fyrir sér með því að undibúa allt hráefni deginum áður.
- Nota má annað grænmeti eins og t.d. paprikur, gulrætur, blaðlauk sem og engifer í réttinn.
- Notið hamingjuegg ef þið mögulega getið.
- Notið „hamingjusaman kjúkling" (free range) ef þið mögulega getið.
- Stíft tofu fæst í stærri matvöruverslunum sem og heilsubúðum. Mikilvægt er að nota ekki mjúkt tofu.
- Nota má sojasósu í staðinn fyrir tamarisósu en athugið að sojasósa inniheldur hveiti.
- Nota má udon núðlur í réttinn (þær innihalda hveiti) eða speltnúðlur.
- Ef þið hafið hnetuofnæmi getið þið sleppt hnetunum og sesamolíunni. Í staðinn fyrir jarðhnetur má nota eina lúku af muldum kartöfluflögum (úr heilsubúð). Einnig má nota saltaðar jarðhnetur en ég kýs að nota ósaltaðar og salta þær sjálf með tamarisósu.
- Ef kókosolían er hörð má stinga krukkunni í heitt vatn í nokkrar mínútur þar til hún verður fljótandi.
- Nota má aðra olíu en kókosolíu, t.d. vínberjakjarnaolíu eða repjuolíu.