Ostakaka með rifsberjasósu

Það verður eiginlega að teljast ótrúlegt að þessi uppskrift er sú fyrsta sem ég geri á ævinni sem inniheldur rifsber. Ég hef aldrei búið til rifsberjahlaup, rifsberjasultu né nokkuð annað. Ástæðan er aðallega sú að í hlaupum og sultum er ógrynnin öll af sykri sem ég hef bara ekki samvisku í né geð til að nota. Í staðinn fyrir að útbúa hlaup á topp ostakökunnar, gerði ég frekar sósu sem inniheldur töluvert minni sykur en hlaup myndi gera. Ég komst í rifsber við hús foreldra minna og ryksugaði runnann, hann gaf vel af sér í ár en minn runni, sem er tiltölulega nýr, gaf af sér akkúrat 4 ber í ár. Fjögur......ber. 

Grunnurinn að kökunni er sá sami og að Bláberjaostakökunni sem er ein af mínum uppáhaldskökum í öllum heiminum. 

Þessi uppskrift er:

 • Án hneta

Ostakaka með rifsberjasósu

1 kaka fyrir 10-12

Innihald

Kakan

 • 200 g gróft hafrakex eða speltkex úr heilsubúð
 • 50 g muesli (eða annað muesli án viðbætts sykurs)
 • 2,5 msk kókosolía
 • 5 msk hreinn appelsínusafi
 • 500 g Philadelphia Light (rjómaostur en ekki smurostur)
 • 250 g hreint skyr
 • 3 stór egg
 • 3 msk hlynsíróp
 • 2 tsk vanilludropar (úr heilsubúð)
 • 100 g rifsber, fersk eða frosin (án stöngla)
 • 2 msk hunang
 • 200 g grísk jógúrt

Rifsberjasósan

 • 150 g rifsber, fersk eða frosin (með stönglum)
 • 50 g hrásykur
 • 4 dropar stevia án bragðefna

Aðferð

 1. Fyrst skuluð þið byrja á því að búa til botninn:
 2. Setjið kexið og muesliið í matvinnsluvél og malið alveg þangað til það er orðið að dufti. Einnig má setja kexið í poka og fara með kökukefli yfir. Setjið mulninginn í skál. Dreypið kókosolíunni og appelsínusafanum yfir með teskeið. Hrærið vel. Gætið þess að mulningurinn sé „rakur” þ.e. að hægt sé að klípa mulninginn saman án þess að vera blautur eða grautarkenndur. Bætið meiri appelsínusafa við ef þið teljið þurfa.
 3. Klæðið 26 sm bökunarform (með lausum botni) með bökunarpappír (þannig að hann fari upp á brún). Setjið mulninginn í botninn og þrýstið honum vel niður með fingrunum. Gott er að leggja plastfilmu ofan á svo að mulningurinn festist ekki á höndunum. Bakið við 150°C í 20 mínútur.
 4. Á meðan botninn er að bakast skuluð þið undirbúa fyllinguna:
 5. Setjið í hrærivélaskál (einnig má nota handhrærivél) Philadelphia Ligh), skyr, egg, hlynsíróp og vanilludropa. Hrærið í 10 sekúndur eða þangað til fyllingin er silkimjúk. Setjið til hliðar. 
 6. Setjið 100 grömm af rifsberjum í lítinn pott (án stöngla) ásamt hunangi. Látið berin malla þangað til þau mýkjast eða í um 5 mínútur. Ekki kremja þau. 
 7. Bætið rifsberjunum varlega saman við ostablönduna og hrærið þangað til berin hafa dreifst vel en ekki þannig að kakan verði rauð. 
 8. Takið botninn úr ofninum, kælið í um 10 mínútur og hellið fyllingunni svo út í. Bakið við 150°C í 40-45 mínútur. Það getur verið að þurfi að baka hana skemur (fer eftir ofninum). Potið varlega í miðju kökunnar, ef hún virkar ekki þétt, þá þarf að baka hana lengur. Hún ætti að vera svolítið mjúk í miðjunni en ekki hlaupkennd. Ef hún er hlaupkennd, bakið hana þá í 10 mínútur í viðbót. Kakan stífnar svo þegar hún kólnar. Ef þið þurfið að baka hana lengur en 55 mínútur eða ef hún er farin að dökkna um of eftir 40 mínútur), setjið þá álpappír yfir kökuna. Athugið að kakan getur verið dyntótt með tíma því ég þurfti einu sinni að baka hana í 1,5 tíma en yfirleitt nægja 50 mínútur.
 9. Slökkvið á ofninum og leyfið ostakökunni að kólna alveg inn í honum (gjarnan yfir nótt).
 10. Þegar ostakakan er orðin köld, smyrjið þá jógúrtinni yfir og leyfið kökunni að standa í ísskáp eins lengi og þið getið, allt að 2 tíma ef það er mögulegt, helst lengur.
 11. Á meðan skuluð þið útbúa rifsberjasósuna: Setið 150 grömm af rifsberjum (með stönglunum) í lítinn pott. Bætið hrásykrinum og steviadropunum út í og látið suðuna koma upp. Leyfið sósunni að malla í um 10 mínútur en hellið svo í fíngata sigti. Pressið ofan á með bakið á stórri skeið til að fá sem mestan safann. Látið kólna vel. 
 12. Nú skuluð þið setja kökuna á disk og hella sósunni ofan á. Skreytið með ferskum rifsberjum ef þið eigið þau til. 
   

Gott að hafa í huga

 • Það er fínt að gera þessa köku daginn áður en á að nota hana því hún verður bara betri ef maður geymir hana í einn dag.
 • Kakan geymist í um 3 daga í ísskáp
 • Einnig er hægt að nota alls kyns önnur ber/sultur en bláber/bláberjasultu t.d. rifsber, hindber, blönduð ber o.fl.
 • Ef þið búið ekki til ykkar eigið hafrakex, kaupið þá úr heilsubúð. Venjuleg hafrakex eru yfirleitt mjög óholl þó nafnið gefi annað til kynna.
 • Ef þið búið ekki til ykkar eigið muesli, kaupið þá úr heilsubúð eða kaupið muesli án viðbætts sykurs.
 • Ef þið fáið ekki fitulitla gríska jógúrt, má sía hreina jógúrt í gegnum grisju eða hreint viskustykki í nokkrar klukkustundir. Gott er að setja viskustykki yfir skál og festa með teygju. Hellið jógúrtinni út í og látið bíða þangað til undanrennan hefur skilið sig frá (hún lekur ofan í skálina).
 • Ef kókosolían er hörð má stinga krukkunni í heitt vatn í nokkrar mínútur þar til hún verður fljótandi.
 • Notið hamingjuegg ef þið mögulega getið.