Ostakaka með grísku jógúrti og pistachiohnetum

Sko þessi ostakaka hét fyrst curd ostakaka en curd er enska fyrir ysting og mér fannst ekki hægt að nefna kökuna ystingsostaköku, hljómar ekki beint girnilega. Þrátt fyrir misheppnaðar nafngiftir í byrjun þá er þetta frábær ostakaka og í hollari kantinum (þær er nú ekki mjög hollar þessar venjulegu) því ég notaði t.d. kvarg og curd í staðinn fyrir rjómaost, barnamat án sykurs í staðinn fyrir hunang og fitulaust, grískt jógúrt í staðinn fyrir venjulegt. Það er heldur ekkert smjör í kökunni, bara 2 msk af kókosolíu og 4 msk af appelsínusafa í staðinn!!! Upphafleg uppskrift kemur frá Deliu Smith, (hún er ein af þessum gömlu, vinsælu sjónvarpskokkum í Bretlandi og mér finnst hún frábær). Loksins, ostakaka næstum því án samviskubits!! En ok ég viðurkenni að ég hef ekki samanburð þar sem ég borða ekki venjulegar ostakökur en viðbrögð þeirra sem hafa borðað hana hafa líka stutt það að hún sé gómsæt. Ég ætla að nefna sérstaklega að Jóhannes sem borðar EKKI ost (nema bráðinn) né ostakökur elskar þessa köku :) Það er hægt að nota Philadelphia Light rjómaostinn (soft cheese) sem fæst á Íslandi í staðinn fyrir curd og skyr er hægt að nota í staðinn fyrir kvarg (quark). Athugið að ef þið hafið hnetuofnæmi, getið þið notað hnetulaust muesli og sleppt pistachiohnetunum.

Athugið einnig að þið þurfið lausbotna 26 sm kökuform fyrir uppskriftina.

Þessi uppskrift er:

Þessa uppskrift er auðvelt að gera:

 • Án hneta

Ostakaka með grísku jógúrti og pistachiohnetum

Ein kaka fyrir 10-12

Innihald

 • 200 g gróft hafrakex eða speltkex 
 • 50 g muesli (eða annað gott musli með rúsínum og hnetum án viðbætts sykurs)
 • 2,5 msk kókosolía
 • 5 msk hreinn appelsínusafi (eða meira eftir þörfum)
 • 500 g curd cheese (ystingur) eða Philadelphia Light (rjómaostur ekki smurostur).
 • 250 g quark (kvarg) eða hreint skyr
 • 3 stór egg
 • 3 mtsk agavesíróp
 • 2 tsk vanilludropar (úr heilsubúð)
 • 200 g grísk jógúrt með 0% fitu
 • 125 ml lífrænt framleiddur barnamatur án sykurs; epla-, peru-, eða aprikósumauk
 • 25 g ósaltaðar pistachiohnetur, saxaðar gróft

Aðferð

 1. Fyrst skuluð þið byrja á því að búa til botninn:
 2. Setjið kexið og muesliið í matvinnsluvél og malið alveg þangað til það er orðið að dufti. Einnig má setja kexið í poka og fara með kökukefli yfir. Setjið mulninginn í skál.
 3. Dreypið kókosolíunni og appelsínusafanum yfir með teskeið. Hrærið vel.
 4. Gætið þess að mulningurinn sé „rakur” þ.e. að hægt sé að klípa mulninginn saman án þess að vera blautur eða grautarkenndur. Bætið meiri appelsínusafa við ef þið teljið þurfa.
 5. Klæðið 26 sm bökunarform (með lausum botni) með bökunarpappír (þannig að hann fari upp á brún).
 6. Setjið mulninginn í botninn og þrýstið honum vel niður með fingrunum. Gott er að leggja plastfilmu ofan á svo að mulningurinn festist ekki á höndunum.
 7. Bakið við 150°C í 20 mínútur.
 8. Á meðan botninn er að bakast skuluð þið undirbúa fyllinguna:
 9. Setjið í hrærivélaskál (einnig má nota handhrærivél) curd ostinn (eða Philadelphia Light), quark (eða skyrið), egg, agavesíróp og vanilludropa. Hrærið í 10 sekúndur eða þangað til fyllingin er flaueliskennd og mjúk.
 10. Takið botninn úr ofninum, kælið í um 10 mínútur og hellið fyllingunni svo út í.
 11. Bakið við 150°C í 40-45 mínútur. Það getur verið að þurfi að baka hana skemur (fer eftir ofnnumi). Potið varlega í miðju kökunnar, ef hún virkar ekki þétt, þá þarf að baka hana lengur. Hún ætti að vera svolítið mjúk í miðjunni en ekki hlaupkennd. Ef hún er hlaupkennd, bakið hana þá í 10 mínútur í viðbót. Kakan stífnar svo þegar hún kólnar. Ef þið þurfið að baka hana lengur en 55 mínútur eða ef hún er farin að dökkna um of eftir 40 mínútur), setjið þá álpappír yfir kökuna. Athugið að kakan getur verið dyntótt með tíma því ég þurfti einu sinni að baka hana í 1,5 tíma en yfirleitt nægja 50 mínútur.
 12. Slökkvið á ofninum og leyfið ostakökunni að kólna alveg inn í honum (gjarnan yfir nótt).
 13. Þegar ostakakan er orðin köld, dreifið þá jógúrtinni yfir og leyfið kökunni að standa í ísskáp eins lengi og þið getið, allt að 2 tíma ef það er mögulegt.
 14. Saxið pistachiohneturnar smátt.
 15. Smyrjið barnamatnum yfir kökuna og dreifið pistachiohnetunum yfir.

Gott að hafa í huga

 • Nota má acacia hunang í staðinn fyrir barnamatinn (hunang var í upphaflegu uppskriftinni).
 • Það er fínt að gera þessa köku daginn áður en á að nota hana því hún verður bara betri ef maður geymir hana í einn dag.
 • Kakan geymist í um 3 daga í ísskáp
 • Ef þið búið ekki til ykkar eigið hafrakex, kaupið þá úr heilsubúð. Venjuleg hafrakex eru yfirleitt mjög óholl þó nafnið gefi annað til kynna.
 • Ef þið búið ekki til ykkar eigið muesli, kaupið þá úr heilsubúð eða kaupið muesli án viðbætts sykurs.
 • Ef þið fáið ekki fitulitla gríska jógúrt, má sía hreina jógúrt í gegnum grisju eða hreint viskustykki í nokkrar klukkustundir. Gott er að setja viskustykki yfir skál og festa með teygju. Hellið jógúrtinni út í og látið bíða þangað til undanrennan hefur skilið sig frá (hún lekur ofan í skálina).
 • Ef kókosolían er hörð má stinga krukkunni í heitt vatn í nokkrar mínútur þar til hún verður fljótandi.
 • Notið hamingjuegg ef þið mögulega getið.
 • Ef þið finnið ekki ósaltaðar pistachiohnetur getið þið skolað saltið af þessum söltuðu og bakað í 10 mínútur í ofni við 160°C.