Orkuhnullungar

Þessum hnullungum svipar mikið til þeirra kaka sem fást stundum innpakkaðar í plasti á kaffihúsum. Kannist þið ekki við þær? Þessi útgáfa er svolítið hollari því ég nota rapadura sykur (ekki púðursykur eða hvítan sykur) og einnig nota ég bara 4 msk af kókosolíu en ekki hálft tonn af smjöri. Þetta eru sannkallaðir orkuhnullungar því þeir innihalda holla fitu, flókin kolvetni og prótein..frábær blanda ef maður t.d. er að fara í gönguferð eða er að reyna að klóra sig fram úr skólabókunum. Einnig finnst mér orkuhnullungarnir mjög góðir þegar langt er liðið á daginn og mig vantar svolítið orkubúst sem dugar mér lengi. Þessir eru einnig afar fínir bara með kaffinu....þó maður sé ekki að gera neitt nema bara að blaðra! Athugið að stærð hnullunganna fer eftir smekk, þið getið haft þá stærri ef þið viljið. Upplagt er að gera minni og fleiri ef maður vill útbúa þessa hnullunga sem jólasmákökur en þá þarf maður að baka í aðeins skemmri tíma.

Athugið að þið þurfið matvinnsluvél eða blandara til að mala haframjölið.

Til að flýta fyrir ykkur getið þið keypt ristaðar og afhýddar heslihnetur.


Afar orkuríkir kaffihúsahnullungar og sérlega góðir

Þessi uppskrift er:

  • Án mjólkur

Orkuhnullungar

Gerir 16 kökur

Innihald

  • 60 g heslihnetur, þurrristaðar, afhýddar og saxaðar smátt
  • 55 g dökkt, lífrænt framleitt súkkulaði með hrásykri, saxað smátt
  • 100 g haframjöl, malað fínt
  • 90 g spelti
  • 1 tsk kanill
  • 0,5 tsk múskat (enska: nutmeg)
  • 0,5 tsk engifer
  • 0,5 tsk negull (enska: cloves)
  • 1 tsk vínsteinslyftiduft
  • 4 msk kókosolía
  • 70 g rapadura hrásykur (eða annar hrásykur)
  • 2-4 msk sojamjólk eða önnur mjólk
  • 1 tsk vanilludropar (úr heilsubúð)
  • 0,5 tsk salt (Himalaya eða sjávarsalt)
  • 1 egg
  • 50 g sesamfræ
  • 55 g rúsínur (eða saxaðar döðlur)

Aðferð

  1. Ef þið notið heilar heslihnetur með hýði, þurristið þá hneturnar á heitri pönnu. Til að þurrrista á pönnu er best að hita hana á fullum hita og rista hneturnar í 2-3 mínútur eða þangað til hýðið fer að losna. Kælið og nuddið hýðinu af. Saxið smátt.
  2. Saxið súkkulaðið smátt.
  3. Malið haframjölið í matvinnsluvél eða blandara í um 20 sekúndur eða þangað til það er orðið fínmalað.
  4. Sigtið saman í stóra skál; spelti, vínsteinslyftiduft, kanil, múskat, engifer, negul og salt. Bætið haframjölina út í og hrærið vel.
  5. Í aðra stóra skál skuluð þið hræra saman egg, kókosolíu, vanilludropum og rapadura hrásykur. Hrærið mjög vel. Hellið út í stóru skálina og blandið öllu varlega saman með sleif.
  6. Blandið hnetum, sesamfræjum, rúsínum og súkkulaði út í deigið og hrærið varlega. Deigið á að vera sæmilega stíft eða þannig að hægt sé að rúlla því saman í kúlur en án þess að það sé hægt að hnoða deigið. Það á að vera pínulítið klístrað.
  7. Blandið sojamjólk út í ef þarf en annars má sleppa henni.
  8. Setjið bökunarpappír á bökunarplötu.
  9. Rúllið kúlur úr deiginu (u.þ.b. 2 kúfaðar matskeiðar) og setjið á bökunarplötuna. Hafið smá bil á milli þeirra. Þrýstið létt ofan á hverja köku með flötum lófanum.
  10. Bakið við 180°C í um 15-20 mínútur (ef þið bakið lengur verða þær stökkar en annars verða þær mjúkar í miðjunni).
  11. Geymið í lokuðu plastíláti.

Gott að hafa í huga

  • Nota má undanrennu, hrísmjólk, haframjólk eða möndlumjólk í staðinn fyrir sojamjólk.
  • Ef kókosolían er hörð má stinga krukkunni í heitt vatn í nokkrar mínútur þar til hún verður fljótandi.
  • Notið hamingjuegg ef þið mögulega getið.
  • Nota má ljóst súkkulaði í staðinn fyrir dökkt en athugið að ljóst súkkulaði inniheldur mjólk.
  • Nota má carob í stað súkkulaðis og kakós. Carob hentar þeim sem eru viðkvæmir fyrir örvandi efnum kakósins og hentar því börnum vel. Carob fæst í heilsubúðum og heilsuhillum matvöruverslana. Það fæst bæði sem duft (eins og kakó) og í plötum (eins og súkkulaði).
  • Nota má kókosmjöl út í deigið.
  • Einnig er gott að nota saxaðar pecan- eða valhnetur á móti heslihnetunum.

Ummæli um uppskriftina

maggabirna
12. feb. 2011

alveg frábærir þessir hnullungar, miklu betir og hollari en þeir sem eru seldir í búð!

sigrun
12. feb. 2011

Fyndið, ég var einmitt að smjatta á einum orkuhnullungi þegar ég las þessi ummæli :)

Dolla
24. mar. 2011

Mjög góðir, búin að prófa þá nokkrum sinnum og öllum finnst þeir góðir!

sigrun
24. mar. 2011

Gaman að heyra og takk fyrir að deila með okkur :)

Rebekka
11. maí. 2011

Hversu lengi geymast hnullungarnir vel? Og ekki lumarðu á kaloríufjölda í einni meðalstórri köku? ..Btw þá ELSKA ég síðuna þína.

sigrun
12. maí. 2011

Sæl Rebekka :)

Ég geymi þá í svona 4-5 daga en eftir það finnst mér þeir linast of mikið. Þú getur fryst það sem þú ætlar ekki að nota samdægurs og hitað svo aðeins upp í ofninum þannig að þeir verði eins og nýbakaðir.

Ég veit ekki með hitaeiningafjölda, ég tel aldrei hitaeiningar :) Ég myndi giska á svona 150 hitaeiningar en það er skot út í loftið.

Kv.

Sigrún

barbietec
03. júl. 2011

Orkuhnullungarnir eru svona eins og Biscotti-ið, hrikalega sniðugt að eiga til ef manni langar í eitthvað sætt, en vill í leiðinni STOPPA sykurpúkann!

Mælti með þessu, svo er ÆÐI að koma heim úr hlaupum og fá sér hnullung og kaffisopa...

Kallinn hjólar í vinnuna 11 km og finnst æði að stinga einum upp í sig til að fá orkubúst og byrja daginn.

sigrun
03. júl. 2011

Vá ef ég hjólaði 11 km í vinnuna myndi ég fá mér a.m.k. 7 áður en ég færi af stað :) Gaman að heyra að þér hafi líkað þeir.

Heiða
09. júl. 2011

O ég hreinlega elska þessa síðu.....
ástarþakkir fyrir að deila uppskriftunum með okkur

knús í húsið þitt

sigrun
11. júl. 2011

Takk fyrir hrósið Heiða :)

Tóta
28. júl. 2011

Þessi uppskrift er ekki gerð á mínu heimili nema amk þreföld. Þvílík snilld ! Er einmitt að fara að baka núna fyrir verslunnarmannahelgarútileguna, nomm nomm.

sigrun
28. júl. 2011
Hulda Rós
25. ágú. 2011

Ég alveg elska þessa uppskrift, svona orkukökur eru svo ránýrar alls staðar, þessir hnullungar koma sko með í skólann (sem var að byrja) Ég fæ reyndar alltaf mjög mismarga hnullunga út en þeir bakast alltaf alveg í gegn og eru ekki harðir eða linir, ég geymi þá svo í loftþéttu plastboxi í allt að 7 daga svo uppskriftin endist vel. Takk kærlega fyrir síðuna þína, hún er hreint út sagt frábær :)

sigrun
25. ágú. 2011

Gaman að heyra Hulda Rós og takk fyrir hrósið :)

Greipur Gísli
08. nóv. 2011

Hæ þetta er alveg svakalega gott. Sigrun þú ert algjör demantur! Takk fyrir mig. Gó gó Girl!!!

sigrun
08. nóv. 2011

Takk Greipur og njóttu vel :)

Ingibjorg Agustsdottir
31. mar. 2014

Sæl.
Er með ofnæmi fyrir heslihnetum. er ekki í lagi að skipta þeim alveg út fyrir einhverjar aðrar?

Mbk,
Ingibjörg

sigrun
31. mar. 2014

Jú heldur betur, ég hef notað pecanhnetur, valhnetur, cashew og möndlur....:) Pecan eru samt smá í uppáhaldi hjá mér svo ég myndi mæla með þeim :)