Orkubiti með carobkremi
27. júní, 2006
Þetta eru verulega, verulega hollir orkubitar, saðsamir, næringarríkir, fullir af vítamínum, steinefnum, hollri fitu, próteinum og flóknum kolvetnum. Þessir orkubitar innihalda eldsneyti sem dugar manni vel yfir daginn, fullkomnir í nestisboxið í skólann, vinnuna, í gönguna og í raun hvar sem er. Það má sleppa kreminu en það gefur gott bragð og mótvægi við sætt innihaldið í kökunni. Bitarnir geymast vel í lokuðu íláti í ísskáp í um 2 vikur (vá það voru 5 í í setningunni!). Orkubitarnir henta vel fyrir þá sem hafa mjólkuróþol og eins fyrir þá sem eru jurtaætur (enska: vegan).
Athugið að matvinnsluvél þarf til að útbúa þessa uppskrift.
Þessi uppskrift er:
- Án glúteins
- Án mjólkur
- Án eggja
- Vegan
Orkubiti með carobkremi
Gerir um 10 bita
Innihald
- 200 g haframjöl, malað í matvinnsluvél
- 2 msk carob (eða kakó)
- 30 g kókosmjöl
- 50 g cashewhnetur, malaðar
- 40 g möndlur, malaðar
- 4 mtsk agavesíróp
- 30 g rúsínur
- 110 g döðlur, saxaðar gróft
- Nokkrar matskeiðar appelsínusafi (ef þarf)
Kremið:
- 3 tsk carob (eða kakó)
- 3 msk hreint hlynsíróp (enska: maple syrup), ekki agavesíróp
Aðferð
- Setjið haframjölið í matvinnsluvél og malið í nokkrar sekúndur eða þangað til grófmalað.
- Blandið kókosmjölinu og carobi út í og látið vélina vinna í nokkrar sekúndur. Setjið í stóra skál.
- Setjið möndlur og hnetur í matvinnsluvélina og blandið í um 30 sekúndur eða þangað til mjög fínt malaðar. Setjið í stóru skálina.
- Saxið döðlur gróft og setjð í matvinnsluvélina ásamt rúsínum. Maukið í um 30 sekúndur. Bætið agavesírópinu út í og maukið í um eina mínútu eða þangað til smátt saxað eða maukað. Ef illa gengur að mauka ávextina er gott að setja nokkrar matskeiðar af appelsínusafa út í og blanda þannig.
- Setjið allt í stóru skálina og blandið vel saman með höndunum. Setjið svo í hrærivél og notið deigkrókinn eða ef hún er ekki við hendi, setjið þá um fjórðung af blöndunni í einu í matvinnsluvélina og látið vélina vinna í nokkrar sekúndur. Þetta verður dáldið klístrað og leiðinlegt. Ekki örvænta samt!
- Geymið í kæli í um klukkustund.
- Blandið kremið: Hrærið saman carobi og hlynsírópi í litla skál. Ef kremið er rammt má bæta aðeins meira hlynsírópi saman við. Ef kremið er of þunnt má setja það inn í ísskáp í nokkra klukkutíma, það mun stífna aðeins.
- Takið stóru skálina úr ísskáp og mótið kúlur úr blöndunni. Fletjið út í kringlótta 35-40 g bita (eins og litla hamborgara). Gott er að nota hanska við þetta þar sem deigið er afar klístrað. Raðið á disk.
- Smyrjið svolitlu af kreminu ofan á hvern bita.
- Setjið á disk og geymið í kæli yfir nótt.
- Þegar kremið er orðið hart, pakkið þá hverjum og einum bita inn í plastfilmu og geymið í ísskáp. Það gæti tekið allt að tvo daga fyrir kremið að harðna. Stundum harðnar kremið ekki og þá geymir maður bitana bara í nestisboxi án þess að pakka þeim inn í plast.
Gott að hafa í huga
- Nota má byggmaltsíróp (enska: barley malt syrup) eða hrísgrjónasíróp (enska: brown rice syrup) í bitana, í staðinn fyrir agavesíróp.
- Mikilvægt er að nota agavesíróp ekki í kremið þar sem það harðnar ekki eins og hlynsírópið.
- Nota má próteinduft í bitana. Setjið um 2 msk af því próteindufti sem þið notið. Notið svolítið af appelsínusafa á móti. Ég er hrifin af Solgar próteindufti (vegan) en nota má annað próteinduft. Einnig má setja svolítið af próteindufti á móti carobi í kremið. Athugið að mjög misjafnt er eftir próteinduftum, hvernig og hversu fljótt kremið harðnar.
- Nota má kakó í stað carobs. Carob hentar þeim sem eru viðkvæmir fyrir örvandi efnum kakósins og hentar því börnum vel. Carob fæst í heilsubúðum og heilsuhillum matvöruverslana. Það fæst bæði sem duft (eins og kakó) og í plötum (eins og súkkulaði).
Tengdar uppskriftir
© CafeSigrun 2025