Orðalisti

Hér má finna lista yfir orð/innihaldsatriði sem gætu verið notendum framandi, sérstaklega þeim sem eru að gera breytingar í mataræði sínu. Smellið á orðið sem þið viljið fræðast um nánar og útskýring á orðinu mun birtast sjálfkrafa fyrir neðan það.

Athugið að þessar upplýsingar eru aðeins til glöggvunar og koma ekki í staðinn fyrir upplýsingar frá aðilum mér fróðari!!

Kókosvatn (enska: Coconut Water)

Kókosvatn (enska: Coconut Water) er tær vökvi óþroskaðrar kókoshnetu (þær eru grænar og kallast líka ungar kókoshnetur eða young coconut). Kókosvatni ætti ekki að rugla saman við kókosmjólk sem er mjólkin úr þroskaðri kókoshnetu. Kjöt óþroskuðu kókoshnetunnar er mjög mjúkt (og hentar vel í ísgerð og kökukrem) og safann má nota einan sér sem svaladrykk o.fl. Á ferðum mínum um Austur Afríku hef ég ósjaldan rekist á unga sölumenn við vegkantinn sem eru að selja safann úr ungum kókoshnetum en þá hafa þeir prílað alla leið upp í tré og náð sér í kókoshnetur til að selja fyrir smá aur. Mig minnir að hver kókoshneta hafi kostað um 50 kenyska shillinga (um 50-100 krónur). Mér þykir líklegt að þeir viti ekki hversu vinsælt þetta mjúka kjöt kókoshnetunnar er í hráfæðisheiminum!!! Þeir nefnilega selja kókoshnetuna með röri og henda svo hnetunni eftir að maður drekkur úr henni. Kókosvatnið hefur svipaða eiginleika og blóðvökvinn og í fátækum löndum hefur kókosvatn verið notað beint í æð þegar blóðvökva er þörf. Kókoshnetan er eins og náttúruleg sía og það tekur um 9 mánuði fyrir hnetuna að sía einn lítra af kókosvatni og við það sótthreinsast vatnið nánast alveg. Kókosvatn er einnig afbragðs íþróttadrykkur því í honum er mikið af electrolytes (samblanda af söltum og steinefnum sem líkami okkar nýtir í ýmis verk. Mikilvægt er að jafnvægi sé á þessum efnum. Ef við erum t.d. þyrst eftir hlaup er betra að drekka kókosvatn heldur en hreint vatn svo dæmi sé tekið því líkaminn fær steinefni og sölt sem töpuðust við svita). Kókosvatn er oft kallað „vökvi lífsins” því talið er að við getum lifað á kókosvatni einu saman í mjög langan tíma. Það er næringarríkara en mjólk og inniheldur lárinsýru (enska: lauric acid) sem einnig má finna í brjóstamjólk.

Notkun: Kókosvatn má drekka sem svaladrykk og má blanda alls kyns ávaxtasöfum saman við. Kókosvatn er einnig selt í fernum í heilsubúðum sem og í heilsuhillum stærri matvöruverslana. Kjötið innan úr kókoshnetunni má nota í ís, drykki og kökukrem eða sem þeyttan rjóma. Erfitt er að finna óþroskaðar kókoshnetur í almennum matvöruverslunum (og ómögulegt á Íslandi) en ef þið eruð svo heppin að finna óþroskaða kókoshnetu (fást stundum í verslunum sem sérhæfa sig í austurlenskri matvöru) skuluð þið grípa eitt stykki með ykkur!

Muscovado sykur

Muscovado sykur (enska: Moscovado Sugar) er óunninn hrásykur (enska: unrefined cane sugar) sem inniheldur öll náttúrulegu vítamín og steinefni sykurreysins. Muscovado hefur nokkuð sterkt mólassa bragð, er dálítið klístraður og fer vel í þær uppskriftir sem kalla á púðursykur. Muscovado inniheldur kalk, magnesium, kalíum og járn. Hann hefur einnig verið kallaður Barbados Sugar eða Moist Sugar.

Notkun: Í flestar þær uppskriftir sem kalla á púðursykur má nota muscovado í staðinn. Nota má Rapadura hrásykur í staðinn fyrir muscovado í flestar uppskriftir en hefur ekki jafn afgerandi bragð og er ekki jafn klístrað (sem er stundum eiginleiki sem verið er að leita eftir). Muscovado er ekki fáanlegur alls staðar en best er að leita að honum í heilsubúðum.

Poppari/Poppvél

Poppari/Poppvél (enska: Electric Popper/Hot Air Popper) notar heitt loft til að sprengja poppmaís í stað olíu eins og þarf þegar poppað er í potti. Þar með sparast fleiri hundruð hitaeiningar og töluverð fita í einni skál af poppuðu poppi. Kaupa má tiltölulega ódýra vél og þær endast yfirleitt vel. Ég hef notað mína afskaplega mikið og hef átt hana í mörg, mörg ár.

Notkun: Fylgið leiðbeiningum framleiðanda. Mér finnst best að nota olíuúðabrúsa með 90% vatni og 10% ólífuolíu (eða sólblómaolíu) og úða hliðar stórrar skálar. Svo er best að salta svolítið innan í skálina og þegar poppmaísinn fer að springa, er gott að nudda poppinu inn í saltið og vatnið/olíuna. Best er að endurtaka á um 5 sekúndna fresti. Hafið ekki áhyggjur þó að ykkur finnist þið salta mikið, megnið af saltinu fellur á botninn og verður eftir. Vélarnar fást í raftækjaverslunum og í verslunum sem selja heimilistæki.

Rapadura hrásykur

Rapadura hrásykur (enska: Rapadura Cane Sugar) er óbleiktur, óunninn hrásykur sem nota má í staðinn fyrir hvítan sykur. Rapadura er eini sykurinn þar sem vökvinn er ekki aðskilinn frá mólassanum sem þýðir að sykurinn heldur eftir nokkuð af nauðsynlegum vítamínum og steinefnum sem og járni. Rapadura er framleiddur einfaldlega með því að láta vatnið gufa upp af safa sykurreysins. Hann er ljósbrúnn að lit og er með svolítið karmellubragð. Hann lítur út ekki ósvipað og sandur á sólarströnd!

Notkun: Nota má Rapadura hrásykur í allan bakstur sem kallar á hvítan sykur (með nokkrum undantekningum). Einu uppskriftirnar sem ég nota frekar annan sætugjafa en Rapadura er í ís því liturinn verður ekki fallegur á ísnum og Rapadura hefur svolítið yfirþyrmandi bragð í ís, að mér finnst. Einnig er gott að nota venjulegan hrásykur í staðinn fyrir Rapadura hrásykurinn ef litur þess sem er bakað skiptir máli. Þannig verður t.d. marengs ljósbrúnn að lit með Rapadura. Það er einnig nokkuð afgerandi í bragði svo marengs t.d. myndi hafa svolítinn keim af karamellu sem ekki er víst að passi vel við. Rapadura hrásykur má finna í öllum heilsubúðum og í heilsuhillum stærri matvöruverslana.

Reykt paprika

Reykt paprika (enska: Smoked Paprika) er spænsk afurð (en einnig mikið notuð í Ungverjalandi) og er framleidd úr reyktum pimiento paprikum. Bragð paprikunnar getur verið allt frá því að vera sætt og milt yfir í biturt og sterkt.

Notkun: Reykt paprika er afbragðs góð í marineringum, í sósum og ídýfum og því sem kallar á „grillað” (BBQ/reykt) bragð. Finna má reykta papriku í sælkeraverslunum og stundum í heilsubúðum.

Sinnepsfræ

Sinnepsfræ (enska: Mustard Seeds) eru litlu fræin af sinnepsplöntunni. Þau hafa verið notuð síðan árið 800 eða þar um bil eða þá er fyrstu heimilda getið um þessa merku afurð. Fræin eru svipuð kús kús að stærð og eru allt frá því að vera hvít/gul að lit (með milt bragð og notuð t.d. í amerískt sinnep) í að vera brún/svört (með sterkt bragð og notuð t.d. í Dijon sinnep). Sinnepsfræ má blanda og nota sem mauk, mala og nota sem duft en einnig má nota þau heil. Sinnepsfræ eru rík af selenium sem á að hjálpa til við að minnka asthma, gigt og þau eiga einnig að vera góð vörn gegn ákveðnum tegundum krabbameins. Sinnepsfræ eru einnig rík af magnesíum sem á að hjálpa til við að lækka háan blóðþrýsting og á jafnvel að geta hjálpað til við að hindra hjartaáföll hjá sumum sjúklngum. Neysla á sinnepsfræjum á einnig að geta hjálpað til við að hindra mígreniköst. Fræin innihalda einnig hátt hlutfall af omega-3 fitusýrum, járni, kalki, zinki, trefjum, próteini o.fl.

Notkun: Notið heil sinnepsfræ í sósur (heitar og kaldar), ídýfur, í brauð o.fl. Oft má kaupa heil sinnepsfræ í stærri matvöruverslunum en einnig má finna þau í heilsubúðum sem og verslunum sem sérhæfa sig í austurlenskum matvörum.

Spelti

Spelti (enska: Spelt Flour) var fyrst notað í Íran í kringum 5000-6000 árum fyrir Krist en hefur verið ræktað í um 300 ár í Evrópu. Spelti er svipað hveiti í útliti en er ólíkt að uppbyggingu því ytra hýði þess er mun harðgerara en á hveitinu sem þýðir að næringarefni eru betur varin. Ytra hýðið ver einnig kornið fyrir mengun og skordýrum. Spelti er próteinríkara en hveiti og er auðveldara í meltingu (vatnsleysanlegra) en hveiti. Spelti er ekki glúteinlaust en sumir þeirra sem eru með glúteinóþol eða ofnæmi fyrir hveiti þola speltið þar sem glúteinsamsetning þess er frábrugðin þeirri í hveitinu. Ráðfærið ykkur alltaf við lækni eða næringarfræðing áður en þið gerið tilraunir.

Notkun: Ég hef notað spelti í staðinn fyrir hveiti í allar mínar uppskriftir síðan árið 2001. Ég nota yfirleitt alltaf grófmalað spelti en nota þó fínmalað spelti í pönnukökur og vatnsdeigsbollur (betri áferð og betri teygjanleiki). Þeir sem eru að byrja að nota spelti blanda því stundum saman við hveiti til að byrja með og það er góð hugmynd til að koma sér af stað. Spelti er dýrt og til að drýgja það má nota lífrænt ræktað heilhveiti en einnig hef ég oft blandað spelti saman við íslenskt byggmjöl (25% byggmjöl á móti 75% spelti) með góðum árangri. Spelti er mun viðkvæmara fyrir raka en hveiti (eða það finnst mér a.m.k.) og ef er t.d. rigning, ef maður er að þvo þvott, ef maður býr við sjó eða ef speltið er orðið gamalt getur maður þurft mun minni vökva en gefinn er upp í uppskriftum. Best er að byrja með lítið magn af vökva og bæta svo við eftir því sem maður telur þurfa. Spelti fæst í öllum heilsubúðum og í flestum stærri matvöruverslunum. Athugið að spelti er misjafnlega gróft malað og ódýrari tegundir geta að mínu mati verið of grófar.

Sprengd hrísgrjón

Sprengd hrísgrjón (enska: Puffed Rice) eru eins og nafnið gefur til kynna hrísgrjón sem hafa verið blásin út við háan hita, þrýsting og raka. Þau eru glúteinlaus og afar létt og loftkennd.

Notkun: Ég nota sprengd hrísgrjón í morgunkorn og orkustangir svo dæmi sé tekið. Þau henta einnig vel í alls kyns konfekt til að gera það léttara. Nota má sprengt spelti eða sprengt hveiti í staðinn. Sprengd hrísgrjón eru afar létt og loftkennd. Sprengd hrísgrjón hafa stundum fengist í heilsubúðum. Gætið þess að þau séu Non GMO (óerfðabreytt) og lífrænt ræktuð.

Stevia

Stevian sjálf er jurt sem notuð hefur verið í lækningaskyni í Suður-Ameríku í mörg hundruð ár svo hún er ekki ný af nálinni og ekki framleidd á tilraunastofu, ólíkt gervisætum. Stevia droparnir sem ég nota eru framleiddir úr lífrænum Stevia laufum. Fyrirtækið er íslenskt og heitir VIA-HEALTH. Einungis er notað vatn við að vinna laufin sem þýðir að þau eru eins hrein afurð og mögulegt er, nema maður bryðji laufin sjálf (en mæli ekki með því endilega því þau hafa biturt bragð). Stevia droparnir eru 200 sinnum sætari en sykur svo það segir sig sjálft hvers vegna skammtarinn er dropateljari!

Kosturinn við Stevia dropana er að í þeim er enginn sykur og Stevian hækkar ekki blóðsykurinn. Ókosturinn við Stevia (og alla sætu) er að maður er ekki að venjast minna sætubragði eins og takmarkið ætti að vera hjá öllum þ.e. að minnka sætu í því sem maður borðar. Tvíeggja sverð kannski en fyrir þá sem eru hrifnir af t.d. eftirréttum þá er Stevian frábær viðbót sem ég mæli með.

Notkun: Það sem ég hef notað Stevia mest í eru drykkir (smoothie), ís, smákökur, kökubrauð, muffinsa o.fl. Mér finnst best að nota lágmarkssætu (hrásykur o.fl.) í t.d. muffinsa og bæta svo upp á með Stevia til að áferðin haldist en þannig að lágmarkssæta sé notuð. Þannig hef ég notað vanillustevia í staðinn fyrir vanilludropa, kókosstevia í kókos- og ananaís o.s.frv. Það munar heilmiklu að geta sleppt sætuefni eins og hlynsírópi, hunangi, agavesírópi o.fl. og geta notað nokkra dropa af stevia í staðinn.

Tahini (sesammauk/sesamsmjör)

Tahini (enska: Tahini/Sesame Paste) er einfaldlega maukuð sesamfræ með svolitlu salti og olíu. Það er til í tveimur útgáfum þ.e. sesamfræin maukuð með hýði eða án hýðis. Tahini með hýði hefur bitrara bragð en er hollara en hýðislaust tahini þar sem hýðið inniheldur mikið magn kalks sem og annarra næringarefna. Tahini inniheldur meira að segja meira kalk en mjólk og er því frábær kalkgjafi fyrir þá sem þola ekki mjókurvörur eða eru jurtaætur. Tahini er einnig próteinríkara en mjólk, jógúrt og möndlur! Það inniheldur mikilvæg steinefni eins og járn, potassium (kalíum), fosfór, kopar, zink og magnesíum. Það inniheldur einnig A, B1, B3, E og T vítamín og nauðsynlegar aminosýrur eins og Methionine. Tahini er sérlega gott fyrir augu okkar, húð, hjarta og bein og inniheldur trefjar sem mikilvægar eru til að hindra ákveðnar tegundir krabbameins. Tahini inniheldur einnig nauðsynlegar fitusýrur.

Notkun: Útbúa má sitt eigið tahini í matvinnsluvél og er best að mauka sesamfræin með hnetuolíu eða ólífuolíu ásamt svolitlu salti þangað til vel blandað saman og orðið að mauki. Notið tahini í hummus og í sósur (kaldar, heitar, sætar og ósætar). Ég nota líka tahini gjarnan í drykki (smoothie) til að auka vítamínmagnið og til að fá góða fitu í kroppinn. Tahini passar sérlega vel með bönunum og hlynsírópi. Tahini er einnig afbragðs góður fitugjafi í smákökur í staðinn fyrir smjör. Tahini fæst í öllum heilsubúðum sem og heilsuhillum stærri matvöruverslana.