Nemandanasl
Þetta er nú eiginlega engin uppskrift heldur frekar upptalning. Ég hef aldrei skilið þetta að kaupa sér rúsínur og hnetur í poka því maður getur gert svona blöndu heima hjá sér á innan við 5 mínútum. Svo er líka miklu ódýrara að útbúa svona nemendanasl heima heldur en að kaupa tilbúið nasl í búð. Fyrir utan það að með eigin nemendanasli getur maður blandað saman nákvæmlega því sem maður vill og þarf sem dæmi ekki að tína sykraða banana úr pokanum. Það er afar mikilvægt að námsfólk borði hollt snarl á meðan á lestri stendur og það er einmitt upplagt að borða einómettaðar fitusýrur eins og eru í hnetunum og ef þið eigið valhnetur er það ekki verra því þær eru súper hollar og innihalda omega 3 fitusýrur sem eru góðar fyrir heilasellurnar og allt hitt í líkamanum (æðar og hjarta o.fl.)! Þetta nemendanasl er próteinríkt, inniheldur holla fitu, náttúrulegan sykur úr þurrkuðum ávöxtum og fjölmörg vítamín auðvitað. Einnig er gott að henda út í blönduna svona eins og lúku af möndlum en þær eru afar kalkríkar. Sem extra bónus fyrir góða frammistöðu á bókasafninu er súkkulaði í blöndunni en þið getið auðvitað sleppt því (ef þið hafið ekki verið nógu dugleg). Blandan hentar sérstaklega vel í próflestri og í sjálfum prófunum enda næg og góð orka. Einnig hentar naslið líka vel í ferðalög, göngur og nesti í vinnuna o.fl.
Til að flýta fyrir sér er gott að kaupa ristaðar og afhýddar heslihnetur.
Nasl fyrir svangan og þreyttan nemanda
Þessi uppskrift er:
- Án glúteins
- Án mjólkur
- Án eggja
- Vegan
Þessa uppskrift er auðvelt að gera:
- Án hneta
Nemandanasl
Innihald
- 1 lúka döðlur, saxaðar gróft
- 1 lúka gráfíkjur, saxaðar gróft
- 0,5 lúka heslihnetur (þurrristaðar og afhýddar), saxaðar gróft
- 0,25 lúka þurrkaðar aprikósur (þessar brúnu, lífrænt ræktuðu), saxaðar gróft
- 1 lúka rúsínur
- 0,5 lúka graskersfræ
- 0,25 lúka cashewhnetur, þurrristaðar
- 0,25 lúka dökkt, lífrænt framleitt súkkulaði með hrásykri
Aðferð
- Ef þið notið heilar heslihnetur með hýði, þurristið þá hneturnar á heitri pönnu. Til að þurrrista á pönnu er best að hita hana á fullum hita og rista hneturnar í 2-3 mínútur eða þangað til hýðið fer að losna. Kælið og nuddið hýðinu af. Saxið hneturnar gróft.
- Þurrristið cashewhneturnar í um 1 mínútu eða þangað til þær taka lit (ekki er nauðsynlegt að þurrrista cashewhneturnar).
- Snúið litla stubbinn af gráfíkjunum og fleygið. Saxið gráfíkjurnar gróft.
- Setjið heslihnetur, döðlur, aprikósur, gráfíkjur, rúsínur, graskersfræ og cashewhnetur í skál.
- Saxið dökka súkkulaðið gróft og blandið út í skálina. Hrærið öllu vel saman.
- Setjið naslið í plastbox eða poka.
Gott að hafa í huga
- Einnig má nota valhnetur, möndlur, Brasilíuhnetur, pecanhnetur, þurrkaða banana (ekki sykraða), þurrkuð epli, sólblómafræ, goji ber og margt fleira í naslið.