Naglasúpan ódýra

Þegar maður á lítið í ísskápnum en er svangur hvað gerir maður þá? Jú maður býr til naglasúpu. Uppskrift af naglasúpu er til á öllum heimilum og þetta er mín útgáfa. Ef maður á grænmetiskraft og svolítið grænmeti þá er maður nokkuð góður. Þessi súpa kostar innan við 500 krónur fyrir 2 og maður getur sett helling af öðru grænmeti út í í staðinn fyrir það sem er fyrir. Til dæmis gæti maður sett paprikustrimla, maískorn, sæta kartöflu, þurrkaða sveppi, hvítkál, kjúklingabaunir og fleira. Einnig er mjög gott að drýgja súpuna með núðlum eða hrísgrjónum. Súpan er afar léttur kvöldmatur en um leið vítamínrík. Ef þið setjið mikið grænmeti í súpuna til viðbótar við það sem er gefið upp, borgar sig að bæta við grænmetiskrafti og aðeins meira af vatni eftir þörfum. Þetta er hinn fullkomni námsmannamatur, ódýr en hollur.

Þessi súpa er glúteinlaus, mjólkurlaus og hentar þeim sem eru jurtaætur (enska: vegan).


Ekki kannski mest spennandi útlitslega en súpan er samt létt og holl

Þessi uppskrift er:

  • Án glúteins
  • Án mjólkur
  • Án eggja
  • Án hneta
  • Vegan

Naglasúpan ódýra

Fyrir 2

Innihald

  • 1 laukur, afhýddur og saxaður smátt
  • 1 hvítlauksrif, saxað smátt
  • 1 tsk kókosolía
  • 1 gulrót, afhýdd og sneidd frekar þunnt
  • 1 sellerístilkur, sneiddur frekar þunnt
  • 5-6 sveppir, sneiddir þunnt
  • 0,5 tsk karrí
  • 0,5 tsk salt (Himalaya eða sjávarsalt)
  • 0,25 tsk svartur pipar
  • Ef þið eigið núðlur, hrísgrjón eða pasta er gott að bæta því við (má sleppa)
  • 2 gerlausir grænmetisteningar
  • 600 ml vatn

Aðferð

  1. Afhýðið lauk og hvítlauk og saxið smátt.
  2. Skrælið gulrótina og sneiðið frekar þunnt. Sneiðið selleríið og sveppina líka.
  3. Hitið kókosolíu í potti. Steikið laukinn og hvítlaukinn í nokkrar mínútur. Bætið vatni við ef þarf meiri vökva.
  4. Bætið gulrótinni og selleríinu út í og steikið þangað til allt er farið að mýkjast vel. Setjið karríið út í.
  5. Bætið grænmetisteningunum og vatninu saman við og látið suðuna koma upp. Látið malla í 5 mínútur.
  6. Bætið tilbúnum núðlum, pasta, hrísgrjónum eða því sem þið viljið út í og hitið í nokkrar mínútur
  7. Kryddið með salti og pipar.

Gott að hafa í huga

  • Ef kókosolían er hörð má stinga krukkunni í heitt vatn í nokkrar mínútur þar til hún verður fljótandi.
  • Nota má aðra olíu en kókosolíu, t.d. vínberjakjarnaolíu eða repjuolíu.
  • Gerlausir grænmetisteningar fást í heilsubúðum og stærri matvöruverslunum.
  • Ef þið eruð ekki viðkvæm fyrir geri getið þið notað venjulega, lífrænt framleidda grænmetisteninga.
  • Nota má ýmislegt í súpuna. Til dæmis gæti maður sett paprikustrimla, maískorn, sæta kartöflu, þurrkaða sveppi, blómkál, hvítkál, kjúklingabaunir og fleira. Einnig má setja t.d. rækjur, blandaða sjávarrétti, kjúkling o.fl. í súpuna.