Mulligatawny súpa (indversk grænmetissúpa)
Einu sinni pantaði ég Mulligatawny súpu á indverskum veitingastað á Brick Lane, London. Brick Lane er þar sem alvöru indverskur (Bengali) matur fæst því þar eru margar kynslóðir Indverja búnar að hreiðra um sig. Meira að segja eru götunöfnin á Bengali og Sylheti (ásamt ensku). Maturinn sem við fengum var mjög góður en munnurinn á mér LOGAÐI í nokkra daga á eftir, ég er nokkuð viss um að hafa drepið nokkur hundruð bragðlauka. Súpan var svívirðilega sterk. Þegar ég bað þjóninn um kalda jógúrt eða slökkvitæki glotti hann út í annað.
Þessi súpa sem ég gef ykkur uppskrift að er aftur á móti ensk-indversk og koma áhrifin frá tveimur álfum (þ.e. Evrópu og Suður-Asíu). Mullitgatawny þýðir í raun piprað vatn (Millagu þýðir pipar og Tahnni þýðir vatn) en ekki láta það hræða ykkur því það er mjög lítill pipar í súpunni og þrátt fyrir að innihalda 2 græna chili pipar þá er hún alls, alls ekki sterk. Það má líka sleppa þeim alveg ef þið kjósið. Súpurnar eru mismunandi eftir svæðum og sumir setja í hana kjúkling eða hrísgrjón á meðan aðrir setja í hana turmeric og grænmeti eins og í uppskriftinni hér að neðan. Súpan inniheldur kannski skrítna samsetningu eins og epli, kartöflur og kókosmjólk en verið óhrædd við að prófa hana. Hún er mild, mjög seðjandi og ef þið sleppið piparnum hentar súpan vel fyrir krakka enda pínulítið sæt. Stundum er sykur settur í súpuna en ég hef notað epli í staðinn sem kemur mjög vel út. Uppskriftin er nokkuð stór svo hafið það í huga þegar þið búið hana til. Súpan hentar vel fyrir þá sem hafa glúteinóþol og mjólkuróþol. Ef þið borðið kjöt og eigið afganga af því getið þið bætt því út í til að gera súpuna matarmeiri. Einnig er súpan tilvalin sem sósa ofan á hýðishrísgrjón ef þið eigið afgang af henni.
Ég kýs að mauka ekki súpuna en ef þið viljið maukaða áferð á henni er ekkert því til fyrirstöðu að skella henni í matvinnsluvél eða blandara.
Þessi uppskrift er:
- Án glúteins
- Án mjólkur
- Án eggja
- Án hneta
- Vegan
Mulligatawny súpa (indversk grænmetissúpa)
Innihald
- 1 laukur
- 4 hvítlauksrif
- 10 g ferskt engifer
- 2 grænir chilli pipar
- 1 grænt epli
- 1 gulrót
- 1 stór kartafla (um 300 gr)
- 1 tsk kókosolía og vatn að auki ef þarf
- 0,25 tsk kanill
- 2 tsk coriander
- 1,5 tsk cumin (ekki kúmen)
- 1 tsk turmeric
- 0,25 tsk svartur pipar
- 200 g rauðar linsubaunir (e. red lentils)
- 1 lítri vatn
- 2,5 gerlausir grænmetisteningar
- 1 msk sítrónusafi
- 400 ml kókosmjólk
- Svolítið vatn til að þynna súpuna ef þarf
- Hálf lófafylli söxuð corianderlauf (má sleppa)
Aðferð
- Afhýðið lauk og hvítlauk og saxið fremur smátt
- Afhýðið engiferið og saxið mjög smátt.
- Skerið chili piparinn langsum, fræhreinsið og saxið smátt.
- Skrælið epli, kjarnhreinsið og saxið fremur gróft.
- Afhýðið gulrót og kartöflu og saxið fremur gróft.
- Hitið kókosolíuna í stórum súpupotti. Hitið laukinn þangað til hann er farinn að linast. Notið vatn ef þarf meiri vökva. Bætið hvítlauk, engiferi, chili, kryddum (kanil, coriander, cumin, turmeric, svörtum pipar) saman við og hrærið vel. Hitið þangað til allt fer að ilma.
- Bætið gulrótinni, eplinu, kartöflunni, baununum, vatni og grænmetisteningum út í pottinn og látið malla með lokinu á í 15-20 mínútur eða þangað til grænmetið er orðið meyrt.
- Bætið sítrónusafanum við ásamt kókosmjólkinni og hitið vel án þess að sjóði.
- Þynnið súpuna með vatni ef ykkur finnst hún mega vera þynnri.
- Maukið súpuna (eða helminginn af henni) ef þið viljið áferðina þannig en mér þykir það ekki nauðsynlegt.
- Skreytið með söxuðum corianderlaufum (má sleppa).
Gott að hafa í huga
- Súpuna má frysta í litlum skömmtum og hita upp síðar.
- Það eru til margar mismunandi uppskriftir af Mulligatawny. Sumir blanda pistachiohnetum, eggaldin, cashewhnetum, selleríi, maískorni og grilluðum tómötum út í súpuna svo það eru margir möguleikar og alveg hægt að leika sér með innihaldið.
- Gott er að bera súpuna fram með nýbökuðu chapati brauði.
- Ef kókosolían er hörð má stinga krukkunni í heitt vatn í nokkrar mínútur þar til hún verður fljótandi.
- Gerlausir grænmetisteningar fást í heilsubúðum og stærri matvöruverslunum. Ef þið eruð ekki viðkvæm fyrir geri getið þið notað venjulega, lífrænt framleidda grænmetisteninga.
- Ef afgangur er af kókosmjólkinni má frysta hana í ísmolabox og nota síðar, t.d. í svona súpur eða smoothie.
- Súpan er upplögð sem sósa út á grjón sé svolítill afgangur eftir af henni.
Ummæli um uppskriftina
06. apr. 2011
Umm ég er búin að prófa þessa og hún er frábær.
06. apr. 2011
Gaman að heyra Hulda og takk fyrir að deila með okkur :)
08. feb. 2016
OMG!!! Rosalega góð súpa, féll vel í krampið hjá stórum sem smáum :D
Kærar þakkir :)
08. feb. 2016
Dásamlegt :)