Muesli með hnetum, fræjum og þurrkuðum ávöxtum
Hrikalega hollt og heimatilbúið muesli fyrir utan að vera bæði ódýrara og betra en út úr búð (að mínu mati að minnsta kosti). Eftir langa leit að muesli sem ég gat hugsað mér að kaupa gafst ég upp og bjó til mína eigin útgáfu. Ég þoli nefnilega ekki svona kusk og mulning í muesli og það verður að innihalda fullt af gómsætu dóti eins og þurrkuðum ávöxtum og hnetum, þoli ekki eitthvað rugl á morgnana, er nógu úrill fyrir he he.Mín útgáfa af muesli er pakkfullt af vítamínum, flóknum kolvetnum, próteinum og hollri fitu, besta bensínið að morgni! Ég byrja daginn alltaf á skál af muesli með sojamjólk, öðruvísi vakna ég ekki.
Athugið að þið þurfið stóra skál og stórt sigti til að útbúa þessa uppskrift. Athugið einnig að flýta má fyrir sér með því að kaupa ristaðar og afhýddar heslihnetur. Ef þið hafið ofnæmi fyrir hnetum má sleppa þeim í muesliið.
Uppáhalds morgunmaturinn minn
Þessi uppskrift er:
- Án mjólkur
- Án eggja
- Vegan
Þessa uppskrift er auðvelt að gera:
- Án hneta
Muesli með hnetum, fræjum og þurrkuðum ávöxtum
Innihald
- 65 g heslihnetur, þurrristaðar, afhýddar og saxaðar gróft
- 200 g haframjöl
- 120 g spelthafrar (eða tröllahafrar)
- 70 g speltflögur (líta út eins og litlar, krumpaðar, brúnar kornflögur)
- 80 g þurrkaðar bananalengjur, sneiddar þunnt (má sleppa)
- 60 g þurrkaðar aprikósur (þessar brúnu, lífrænt ræktuðu), saxaðar gróft
- 60 g döðlur, saxaðar gróft
- 160 g rúsínur
- 40 g möndluflögur
- 60 g sólblómafræ
- 30 g graskersfræ
- 15 g hörfræ
Aðferð
- Ef þið notið heilar heslihnetur með hýði, þurristið þá hneturnar á heitri pönnu. Til að þurrrista á pönnu er best að hita hana á fullum hita og rista hneturnar í nokkrar mínútur eða þangað til hýðið fer að losna. Kælið og nuddið hýðinu af. Saxið hneturnar gróft.
- Setjið haframjöl, spelthafra og spelt kornflögur í stórt fíngata sigti og hristið þangað til ekkert/lítið kusk kemur neðan af sigtinu. Setjið í stóra og hrærið vel.
- Saxið döðlur, aprikósur smátt og setjið út í skálina.
- Sneiðið bananalengjurnar í þunnar sneiðar og setjið út í skálina.
- Bætið rúsínum, möndluflögum, sólblómafræjum, hörfræjum, graskersfræjum og heslihnetum.
- Hrærið öllu vel saman og setjið í loftþéttar umbúðir (t.d. góða krukku).
Gott að hafa í huga
- Þurrkaðar bananalengjur fást í sumum heilsubúðum (og jafnvel í heilsuhillum stærri matvöruverslana) en ef þið fáið þá ekki má sleppa þeim. Ekki kaupa bananaflögur í staðinn, þær eru yfirleitt hlaðnar sykri.
- Spelt kornflögur (spelt flakes) fást í heilsubúðum og heilsuhillum stærri matvöruverslana. Einnig má nota ósykurbættar kornflögur (corn flakes) úr heilsubúð.
- Notið brúnu aprikósurnar (þessar lífrænt ræktuðu) því appelsínugulu aprikósurnar hafa verið meðhöndlaðar með efnum til að þær líti betur út.
- Gott er að setja ristaðar kókosflögur út í muesliið.
- Skipta má út þurrkuðu ávöxtunum fyrir aðra t.d. má nota þurrkuð epli og sveskjur eða gráfíkjur í staðinn fyrir banana og rúsínur svo dæmi sé tekið.
- Einnig má nota sesamfræ í staðinn fyrir sólblómafræ.
- Gott er að setja malað heilhveitikorn út í.
- Geymist í nokkrar vikur í lokuðu íláti.