Mozzarella salat með tómötum og basil

Þetta salat þekkja eflaust margir sem hafa verið á Ítalíu og er líklega ein af ástæðunum fyrir því að Ítalir lifa svona lengi. Salatið er nefnilega svo óskaplega hollt, sérstaklega vegna þess að í ólífuolíu er einómettaðar fitusýrur sem eru góðar fyrir hjarta og æðar. Tómatar innihalda andoxunarefni og C vítamín og osturinn inniheldur prótein og kalk. Salatið er jafn dásamlega einfalt og það er bragðgott, upplagt sem forréttur eða sem léttur hádegismatur með hvítlauksbrauði. Mér finnst líka rosa gott að setja avcadosneiðar ofan á.


Þrílitt salat í ítölsku fánalitunum, rauðum, grænum og hvítum

Þessi uppskrift er:

  • Án glúteins
  • Án eggja
  • Án hneta

Mozzarella salat með tómötum og basil

Fyrir 2 sem forréttur

Innihald

  • 3 vel þroskaðir, stórir og fallegir tómatar
  • 150 g mozzarella ostur, léttur ef hann er til
  • 1 msk ólífuolía
  • Ein lúka fersk basilblöð (ekki stönglarnir aðeins blöðin)
  • Hálft vel þroskað avocado (má sleppa)
  • Smá klípa salt (Himalaya eða sjávarsalt)
  • Smá klípa svartur pipar

Aðferð

  1. Setjið tómatana í skál, hellið sjóðandi vatni yfir þá og látið þá liggja í 1-2 mínútur.
  2. Takið tómatana upp úr skálinni og fjarlægið skinnið. Skerið tómatana því næst í sneiðar.
  3. Skerið mozzarella ostinn í þunnar sneiðar.
  4. Afhýðið avocadoið, fjarlægið steininn og skerið í sneiðar.
  5. Setjið tómatsneið á stóran disk og mozzarella ost ofan á. Endurtakið þangað til allt er búið.
  6. Dreifið avocado sneiðunum yfir.
  7. Dreifið basil blöðunum yfir avocado sneiðarnar.
  8. Hellið ólífuolíunni yfir basil blöðin.
  9. Saltið og piprið.
  10. Berið fram strax.

Gott að hafa í huga

  • Ef þið notið einungis tómata og mozzarella getið þið útbúið salatið með dags fyrirvara. Ef þið ætlið að nota avocado líka er best að skera það rétt áður en salatið er borið fram.

Ummæli um uppskriftina

Kristín í París
17. maí. 2011

Ég veit alltaf að sumarið er komið þegar ég fæ mér þetta. Og takk fyrir að vera ekki með edik í uppskriftinni. Sé það svo oft í íslenskum útgáfum (balsamic t.d.) en það er alger óþarfi á þetta salat. Hins vegar er um að gera að splæsa í góða og bragðmikla olíu og nota nóg af henni.

sigrun
17. maí. 2011

Svo sammála með balsamic edikið (það er svoooo mikið ofnotað á Íslandi) og það er hárrétt að góð olía gerir gæfumuninn, algjörlega.