Morgunverðarmuffins með appelsínukeim
5. mars, 2003
Þessi uppskrift er upprunalega frá Nigellu Lawson (úr How to be a Domestic Goddess) en ég er aðeins búin að hollustuvæna hana. Ég nota rapadura hrásykur (og töluvert minna af sykri en upphafleg uppskrift gaf), agavesíróp, aðeins 1 matskeið af kókolíu (ekki smjör), spelti í stað hveitis o.fl. Það er upplagt að baka þessa uppskrift þegar maður er með gesti, og hafa muffinsana í morgunmat ásamt nýkreistum appelsínusafa, góðum kaffibolla eða tei.
Athugið að best er að nota silicon muffinsform en ef þið eigið ekki slíkt getið þið sniðið hringi úr bökunarpappír til að setja í muffins bökunarform.

Frísklegir og hollir muffinsar í morgunsárið
Þessi uppskrift er:
- Án mjólkur
Morgunverðarmuffins með appelsínukeim
Gerir rúmlega 10 muffinsa
Innihald
- 250 g spelti
- 25 g möndlumjöl (fínmalaðar möndlur)
- 1 msk vínsteinslyftiduft
- 75 g rapadura hrásykur (eða annar hrásykur)
- Rifinn börkur af 1 appelsínu
- 100 ml appelsínusafi
- 100 ml sojamjólk
- 1 egg
- 1 msk agavesíróp
- 1 vel þroskaður banani, stappaður
- 1 msk kókosolía
- Ein lúka valhnetur, saxaðar smátt (má sleppa)
Aðferð
- Ef þið eigið bara heilar möndlur (ekki möndlumjöl) setjið þær þá í matvinnsluvél og blandið í 15-20 sekúndur eða þangað til fínmalaðar (en ekki kekkjóttar eða olíukenndar).
- Sigtið saman spelti og vínsteinslyftiduft í stóra skál.
- Rífið appelsínubörkinn gróft á rifjárni (gætið þess að rífa ekki hvíta hlutann, einungis börkinn sjálfan). Setjið börkinn og möndlumjölið í stóru skálina og hrærið vel.
- Stappið bananann og saxið valhneturnar smátt.
- Blandið saman appelsínusafanum og sojamjólkinni og hrærið eggið saman við ásamt banana, rapadura hrásykrinum, agavesírópi og kókosolíu. Hrærið mjög vel.
- Hellið eggjablöndunni út í stóru skálina og hrærið varlega með gaffli. Hrærið ekki mikið í deiginu heldur veltið því aðeins til. Deigið má vera mjög gróft og kekkjótt.
- Takið til silicon muffinsform. Setjið nokkra dropa af kókosolíu í eldhúsþurrku og strjúkið holurnar að innan.
- Fyllið hverja holu nánast upp að rönd með deigi. Gott er að nota ískúluskeið.
- Dreifið valhnetunum yfir muffinsana.
- Bakið við 200 °C í 20-25 mínútur.
Gott að hafa í huga
- Berið fram með smurosti, ostsneiðum og t.d. bláberja- eða jarðarberjasultu (án viðbætts sykurs) og já auðvitað appelsínumarmelaði!!!
- Ef maður notar ekki olíu eða smjör í deigið þá getur maður hvorki notað venjuleg muffins pappírsform, né muffinsbökunarplötu úr járni. Það fást sem sé ekki muffins pappírsform sem maður getur bakað í án þess að þurfa að nota smjör eða olíu í deigið. Það sem þið getið gert er að sníða hringi úr bökunarpappír. Strikið með penna utan um undirskál og klippið út. Setjið svo í hverja muffinsholu. Það er hægt að nota muffinspappírinn í allt að sex skipti. Ef þið notið silicon muffinsform þurfið þið ekki bökunarpappír.
- Nota má undanrennu, hrísmjólk, haframjólk eða möndlumjólk í staðinn fyrir sojamjólk.
- Ef kókosolían er hörð má stinga krukkunni í heitt vatn í nokkrar mínútur þar til hún verður fljótandi.
- Nota má hreint hlynsíróp (enska: maple syrup) í staðinn fyrir agevesíróp.
- Notið hamingjuegg ef þið mögulega getið.
- Möndlumjöl fínmalaðar möndlur) fást í heilsubúðum.
Tengdar uppskriftir
© CafeSigrun 2025