Möndlukúlur frá miðausturlöndum
Þetta konfekt myndi seint teljast létt. Eftir kvöldmat, með kaffinu er maður eiginlega saddur eftir hálfa svona kúlu. Þetta er þó voða hollt konfekt því að sesamfræ (tahini er gert úr sesamfræjum) eru ótrúlega kalk- og próteinrík og innihalda einnig mikið af trefjum og járni ásamt magnesíum (sem á að hjálpa til við að lækka blóðþrýsting) og zinki ásamt öðrum steinefnum. Möndlur eru líka mjög kalk- og próteinríkar. Upplagt konfekt eftir ræktina eða eftir léttan kvöldmat. Konfekt þarf nefnilega ekki bara að vera með kaffinu... maður getur alveg borðað hollt konfekt í morgunmat eða tekið með sér í nestisboxið! Upprunalegt heiti konfektsins er Halvah og á rætur sínar að rekja 3000 árum „fyrir krist” og er því eitt elsta sælgæti heims. Orðið halvah þýðir í bókstaflegri merkingu sætt kjöt (en ég lofa ykkur samt að uppskriftin er kjötlaus!). Ef þið eruð jurtaætur (vegan) getið þið sleppt hunanginu og notað agavesíróp í staðinn. Athugið þó að hunangið límir blönduna betur saman en agavesírópið.
Athugið að matvinnsluvél þarf til að útbúa þessa uppskrift.
Svolítið ying og yang kúlur, annar helmingurinn er ljós og hinn dökkur
Þessi uppskrift er:
- Án glúteins
- Án mjólkur
- Án eggja
- Vegan
- Hráfæði
Möndlukúlur frá miðausturlöndum
Innihald
- 75 g möndlur
- 125 ml tahini (sesammauk)
- 3 msk agavesíróp (eða acacia hunang)
- 1 tsk vanilludropar (úr heilsubúð)
- 1 msk carob eða kakó
Aðferð
- Setjið möndlurnar í matvinnsluvél og blandið þangað til þær eru orðnar fínmalaðar, blandið ekki þannig að þær verði að mauki en samt nóg til að hægt sé að klípa maukið saman milli fingurgómanna.
- Bætið tahini, hunangi eða agavesírópi og vanillu út í. Blandið vel.
- Takið helminginn af blöndunni og setjið í skál.
- Bætið carobi saman við blönduna í matvinnsluvélinni og blandið vel.
- Þrýstið ljósu blöndunni mjög fast ofan á disk þannig að hún verði um 0,5 sm á þykkt (þ.e. hæð) og gerið hana eins þétta og ferkantaða og þið getið.
- Gerið eins við carobblönduna nema á öðrum diski.
- Leggið carobblönduna ofan á þá ljósu og þrýstið vel þannig að úr verði tvílit blanda, um 1 sm á þykkt (hæð).
- Kælið í klukkutíma eða meira.
- Skerið í litla ferninga og rúllið saman þannig að annar helmingurinn verði ljós en hinn dökkur.
- Blandan mun molna aðeins en þá er um að gera að beita smá lagni við að koma helmingunum saman...(spurning um að bjóða upp á gestaþraut í næsta boði og bjóða verðlaun fyrir flottasta molann he he). Galdurinn er að þrýsta helmingunum nógu fast saman.
Gott að hafa í huga
- Hægt er að velta bitunum upp úr kókosmjöli, sesamfræjum, möndludufti eða jafnvel carobi.
- Það má auðvitað sleppa carobinu og hafa kúlurnar bara ljósar eða bæta meira carobi við og gera þær dökkar.
- Gott er að leggja kúlurnar á eldhúspappír í nokkrar klukkustundir, pappírinn dregur í sig fituna.
- Nota má kakó í stað carobs. Carob hentar þeim sem eru viðkvæmir fyrir örvandi efnum kakósins og hentar því börnum vel. Carob fæst í heilsubúðum og heilsuhillum matvöruverslana. Það fæst bæði sem duft (eins og kakó) og í plötum (eins og súkkulaði).