Möndlu- og kínóa súkkulaðibitakökur

Þessar smákökur eru nú eiginlega allt annað en hollar. Og þó, þær innihalda kalk, járn, prótein og trefjar og eru glúteinlausar í þokkabót. En þær innihalda líka hrásykur sem er nú ekki hollur fyrir neinn. En þegar mann langar í eitthvað syndsamlega gott og heimabakað, í lok vinnudags, þegar maður kemur skríðandi og beyglaður heim, þá eru þessar bestar. Í öllum heiminum. Og þurfi maður að fara með 50 Maríubænir við að neyta þeirra, þá verður það bara að vera þannig. Þær eru algjörlega þess virði!


Hræðilega góðar og glúteinlausar smákökur

Þessi uppskrift er:

 • Án glúteins
 • Án mjólkur

Möndlu- og kínóa súkkulaðibitakökur

Gerir um 24 smákökur

Innihald

 • 230 g dökkt súkkulaði (helmingurinn bræddur, hinn saxaður gróft)
 • 190 g möndlumjöl
 • 65 g kakó
 • ½ tsk salt (Himalaya- eða sjávarsalt)
 • ½ tsk bökunarsódi 
 • 2 msk kínóakorn
 • 1 tsk chiafræ
 • 150 g hrásykur 
 • 110 g kókosolía (ekki fljótandi)
 • 2 egg
 • 1 tsk vanilludropar
   

Aðferð

 1. Saxið súkkulaðið og setjið helminginn til hliðar. Bræðið helming yfir vatnsbaði (sjá leiðbeiningar undir Gott að hafa í huga hér fyrir neðan).
 2. Setjið möndlumjöl, kakó, salt, bökunarsóda, kínóakorn, chiafræ og hrásykur í matvinnsluvél og blandið í um 10 sekúndur eða þangað til fínmalað en án þess að möndlumjölið verði olíukennt. 
 3. Bútið kókosolíuna út í matvinnsluvélarskálina og malið nokkrum sinnum eða þangað til allt blandast vel saman. Bætið eggjum, vanillu og bræddu súkkulaði út í og blandið áfram í nokkrar sekúndur. Setjið súkkulaðibitana út í og ýtið 5 sinnum á púlshnapinn.
 4. Setjið bökunarpappír á tvær bökunarplötur og dreifið um 1 matskeið fyrir hverja köku á plöturnar. Sléttið aðeins úr ef þarf með gaffli. Bakið við 190°C í um 10 mínútur (ekki lengur því smákökurnar verða annars of þurrar). 

Gott að hafa í huga

 • Að bræða súkkulaði yfir vatnsbaði: Setjið svolítið vatn í lítinn pott, setjið glerskál eða málmskál ofan á hann þannig að skálin sitji á brúnunum en snerti ekki vatnið því þá hleypur súkkulaðið í kekki og er ónýtt nema kannski saxað í möffins eða eitthvað slíkt. Brjótið súkkulaðið í jafnstóra bita til að tryggja jafna dreifingu hitans og setjið ofan í skálina. Bræðið yfir mjög lágum hita því hár hiti brennir súkkulaðið. Hrærið öðru hverju til að flýta fyrir því að súkkulaðið bráðni.

Ummæli um uppskriftina

Guðrún Hrönn Jónsdóttir
20. jún. 2016

Sæl
Þessi uppskrift hljómar vel :) Eru kínóakorn það sama og kínóafræ?

sigrun
20. jún. 2016

Sæl

Já kínóakorn er í reynd korn en ekki fræ en stundum kölluð (ranglega) fræ :) Ef þú finnur kínóafræ í búðinni þá er það það sama og kínóakorn :)