Möndlu- og furuhnetukaka með kremi úr sætum kartöflum

Ég átti afganga af sætum kartöflum og vissi af þessari uppskrift frá hinni frægu hráfæðiskonu Nomi Shannon (úr bókinni The Raw Gourmet). Ég bakaði botninn í ofni en það átti að láta hana hitna í sólinni í heilan dag, (aha, einmitt ekki alveg að gera sig heima á Íslandi eða í London að hausti til he he). Ef maður á þurrkofn væri auðvitað hægt að nota hann í staðinn fyrir sólina. Á Íslandi hins vegar myndi kakan annað hvort rigna í kaf eða fjúka! Kakan er í minni útgáfu er ekki raw (hrá) þó auðvelt sé að gera hana þannig, en er engu að síður holl og góð, mjög kalk- og próteinrík og inniheldur einnig A, E og C vítamín, ásamt mikið af trefjum! Kökuna sjálfa má gera með margra daga fyrirvara og geyma í plastfilmu í ísskáp. Skreyta má kökuna rétt áður en hún er borin fram.

Athugið að þið þurfið matvinnsluvél og 22 sm kringlótt bökunarform.


Kaka með kremi úr sætum kartöflum

Þessi uppskrift er:

 • Án glúteins
 • Án mjólkur
 • Án eggja
 • Vegan

Möndlu- og furuhnetukaka með kremi úr sætum kartöflum

Gerir 1 köku

Innihald

Botn:

 • 165 g möndlur, leggið í bleyti í 30 mínútur
 • 120 g döðlur, saxaðar gróft
 • 0,5 tsk vanilludropar (úr heilsubúð)
 • 0,5 tsk kanill
 • 2 tsk maísmjöl

Kremið:

 • 200 g sætar kartöflur, skrældar og saxaðar smátt
 • 90 g döðlur, saxaðar gróft, lagðar í bleyti í 20 mínútur
 • 40 g rúsínur, lagðar í bleyti í 20 mínútur
 • 40 g furuhnetur, lagðar í bleyti í 10 mínútur
 • 0,5 tsk kanill
 • 0,5 tsk vanilludropar (úr heilsubúð)
 • 0,5 tsk negull (enska: clove)
 • 2 msk maísmjöl
 • Fræ úr 1 granatepli (enska: pommegranate) til að skreyta með

Aðferð

Aðferð - Botninn:

 1. Leggið möndlur í bleyti í 30 mínútur.
 2. Hellið vatni af möndlunum og setjið þær í matvinnsluvél. Blandið möndlurnar í um 10 sekúndur eða þangað til þær eru orðnar smátt saxaðar.
 3. Saxið döðlurnar gróft og bætið þeim út í matvinnsluvélina ásamt vanilludropum, kanil og maísmjöli. Blandið í um 10 sekúndur eða þangað til allt er orðið smátt saxað og hægt er að klípa deigið saman með fingrunum.
 4. Klæðið kringlótt 22 sm bökunarform með bökunarpappír. Setjið deigið í formið og þrýstið vel.
 5. Bakið við 180°C í um 25 mínútur.
 6. Takið úr ofninum og kælið.
 7. Hvolfið botninum varlega á stóran kökudisk.

Aðferð - Kremið:

 1. Saxið döðlurnar gróft og leggið í bleyti í 20 mínútur ásamt rúsínunum.
 2. Leggið furuhnetur í bleyti í 10 mínútur.
 3. Hellið vatninu af hnetunum og setjið í matvinnsluvél. Blandið í um 30 sekúndur eða þangað til hneturnar eru mjög vel maukaðar.
 4. Hellið vatninu af döðlunum og rúsínunum og bætið saman við hneturnar ásamt maísmjöli, kanil, vanilludropum og negul og blandið áfram í um mínútu eða þangað til kremið er silkimjúkt. Ef illa gengur að blanda það má setja nokkrar matskeiðar af appelsínusafa saman við (gætið þess þó að nota ekki of mikið af safa svo kremið verði ekki blautt). Setjið kremið í stóra skál.
 5. Skrælið sætu kartöfluna, saxið hana smátt og setjið í matvinnsluvélina (óþarfi er að þrífa vélina á milli). Blandið á fullum krafti þangað til sæta kartaflan er orðin alveg maukuð (eins og hægt er). Ef illa gengur að blanda má setja nokkrar matskeiðar af appelsínusafa með kartöflunni. Gætið þess samt að nota ekki of mikið af safa. Færið yfir í stóru skálina.
 6. Hrærið öllu mjög vel saman og hellið kreminu yfir botninn. Ef kremið er of þunnt (lekur hratt af sleif) er best að bæta svolitlu af maísmjöli saman við.
 7. Skerið granateplið í fjóra búta og stingið bútunum í skál með vatni. Losið varlega um fræin og gætið þess að merja þá ekki. Fræin munu sökkva á botninn og allt annað fljóta upp á yfirborðið sem þið getið veitt upp úr með höndunum eða gataskeið. Leggið fræin á disk og þerrið varlega.
 8. Skreytið kökuna með granateplafræjum, rifsberjum, hindberjum eða einhverjum öðrum fallegum berjum.

Gott að hafa í huga

 • Nota má aðrar hnetur en furuhnetur, til dæmis pecanhnetur.